Fara í efni

Snjóhreinsun á Öxi

Málsnúmer 202101012

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 4. fundur - 01.02.2021

Á fundinn undir þessum lið sátu þeir Sveinn Sveinsson og Davíð Þór Sigfússon frá Vegagerðinni sem gerðu grein fyrir fyrirkomulagi snjóhreinsunar á Öxi.

Heimastjórn beinir því til sveitarstjórnar að taka upp viðræður við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um bætta vegþjónustu á vetrum yfir Öxi umfram þá reglu sem í gildi er. Ekki síst er þetta mikilvægt í ljósi nýafstaðinnar sameiningar sveitarfélaga á Austurlandi í Múlaþing.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 8. fundur - 10.02.2021

Fyrir lá ósk frá heimastjórn Fljótsdalshéraðs um að sveitarstjórn Múlaþings taki upp viðræður við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um bætta vegþjónustu á vetrum yfir Öxi umfram þá reglu sem í gildi er.

Til máls tóku: Hildur Þórisdóttir, Jódís Skúladóttir, Þröstur Jónsson, Gauti Jóhannesson, Jódís Skúladóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Vilhjálmur Jónsson, Þröstur Jónsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á mikilvægi þess að vetrarþjónusta á Öxi verði bætt verulega frá því sem nú er enda er um mikilvæga samgöngutengingu að ræða á milli byggðakjarna innan sveitarfélagsins. Einnig er vert að hafa í huga öryggisþáttinn þar sem þetta snýr einnig að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, brunavörnum og flugsamgöngum. Það er mat sveitarstjórnar að eðlilegt sé að færa þjónustustig Axarvegar vegna vetrarþjónustu af þjónustuflokki 4 á þjónustuflokk 2. Jafnframt leggur sveitarstjórn Múlaþings áherslu á að útboði vegna framkvæmda við nýjan veg yfir Öxi verði hraðað þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu eins og fyrirhugað hefur verið.
Sveitarstjóra falið að koma framangreindu á framfæri við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið með ósk um viðræður vegna þessa sem fyrst.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 23. fundur - 07.02.2022

Heimastjórn Djúpavogs lýsir yfir miklum vonbrigðum með takmarkaða vetrarþjónustu á Axarvegi í vetur. Snjólétt hefur verið og því lítið mál að halda veginum meira opnum en raun ber vitni.
Enn er nokkura ára bið eftir nýjum vegi og óásættanlegt er að ekki komi aukin vetrarþjónusta á veginn fram að því að nýr vegur verði tekin í notkun.
Heimastjórn skorar á samgönguyfirvöld og Vegagerðina að tryggja fjármagn í opnun vegarins yfir vetrartímann.
Í ljósi aðstæðna beinir Heimastjórn því til Sveitarstjórnar að hefja viðræður við samgönguyfirvöld um fjármögnun á vetrarþjónustu og tryggja fasta ruðningsdaga á Axarvegi strax næsta haust.

Heimastjórn Djúpavogs - 29. fundur - 12.09.2022

Heimastjórn vill vekja athygli á nauðsyn þess að koma Axarvegi út af G-reglu í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Nauðsynlegt er að koma á föstum ruðningsdögum yfir veturinn til að halda veginum opnum allan ársins hring.

Heimastjórn Djúpavogs - 31. fundur - 03.11.2022

Heimastjórn á Djúpavogi tekur heilshugar undir ályktun sem samþykkt var á íbúafundi á Djúpavogi 19. október og krefst þess að staðið verði við fyrirheit varðandi vetrarþjónustu og uppbyggingu á heilsársvegi yfir Öxi sem lofað var í aðdraganda þess að Múlaþing varð til. Nú þegar íbúar og sveitarfélagið hafa staðið við sitt er löngu tímabært að ríkið geri hið sama. Heimastjórn beinir því til sveitarstjórnar að hefja viðræður við samgönguyfirvöld um fjármögnun á vetrarþjónustu og tryggja fasta ruðningsdaga á Axarvegi án tafar.

Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Múlaþings - 29. fundur - 09.11.2022

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Djúpavogs, dags. 03.11.2022, þar sem því er beint til sveitarstjórnar að hefja viðræður við samgönguyfirvöld um fjármögnun á vetrarþjónustu og tryggja fasta ruðningsdaga á Axarvegi án tafar.

Til máls tóku: Guðný Lára Guðrúnardóttir, Hildur Þórisdóttir, Jónína Brynjólfsdóttir

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Djúpavogs varðandi það að staðið verði við fyrirheit varðandi vetrarþjónustu og uppbyggingu á heilsársvegi yfir Öxi sem lofað var í aðdraganda þess að Múlaþing varð til. Sveitarstjóra falið að koma á fundi með samgönguyfirvöldum þar sem áhersla verði lögð á að fjármögnun vetrarþjónustu verði tryggð og að komið verði á föstum ruðningsdögum á Axarvegi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 35. fundur - 09.03.2023

Heimastjórn lýsir yfir vonbrigðum sínum varðandi vetrarþjónustu á Öxi. Það er skoðun heimastjórnar að undanfarið hafi verið kjöraðstæður til þess að opna veginn og stytta þar með ferðatíma vegfarenda sem eiga erindi til og frá Egilsstöðum verulega. Það er að mati heimastjórnar óásættanlegt að nýta ekki þetta tækifæri og búa þannig í haginn og draga úr kostnaði við hefðbundna opnun í vor.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 41. fundur - 07.09.2023

Heimastjórn á Djúpavogi áréttar fyrri bókanir varðandi vetrarþjónustu á Öxi og felur starfsmanni að afla upplýsinga um með hvaða hætti Vegagerðin hyggst standa að snjómokstri á komandi vetri.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Djúpavogs - 43. fundur - 09.11.2023

Fyrir fundinum lá svar frá svæðisstjóra Vegagerðarinnar varðandi snjóhreinsun á Öxi. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Sveinn Sveinsson svæðisstjóri sátu fundinn undir þessum lið og svöruðu spurningum fulltrúa í heimastjórn.

Heimastjórn þakkar fulltrúum Vegagerðarinnar fyrir góðan og málefnalegan fund. Gert er ráð fyrir að hönnun á nýjum Axarvegi ljúki í byrjun næsta árs og hægt væri að bjóða hann út þá að því gefnu að fjármagn sé tryggt. Vegagerðin er ekki tilbúin að leggja til að Öxi verði tekin af G-reglunni en mun áfram þjónusta veginn fram til 5. janúar, líkt og heimild er fyrir og jafnvel lengur ef aðstæður leyfa.

Heimastjórn mun senda samantekt um áherslur sem settar voru fram á fundinum til Vegagerðarinnar og fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða

Gestir

  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar - mæting: 11:00
  • Sveinn Sveinsson - mæting: 11:00

Heimastjórn Djúpavogs - 47. fundur - 06.03.2024

Heimastjórn áréttar fyrri bókanir um vetrarþjónustu á Axarvegi og vilyrði Vegagerðarinnar um að opna fyrr.
Nú eru snjólög á Öxi með allra minnsta móti og því hvetur heimastjórn Vegagerðina til að ráðast í opnun strax, enda allt til reiðu.

Heimastjórn Djúpavogs - 52. fundur - 05.09.2024

Heimastjórn Djúpavogs vill árétta fyrri bókanir um að Axarvegi verði sinnt betur bæði með tilliti til vetrarþjónustu og viðhalds allt árið.
Þess má geta að hátt í 60 þúsund bílar óku yfir Öxi í júní, júlí og ágúst. Slíkur umferðarþungi kalli á meiri þjónustu og endurbætur.


Sveitarstjórn Múlaþings - 50. fundur - 11.09.2024

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Djúpavogs, dags. 05.09.2024, varðandi snjóhreinsun á Öxi.

Til máls tóku: Þröstur Jónsson, Hildur Þórisdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir og Jónína Brynjólfsdóttir

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Djúpavogs varðandi mikilvægi þess að vetrarþjónustu og almennu viðhaldi á Axarvegi verði betur sinnt. Skrifstofustjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar á framfæri við Vegagerðina.

Samykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 55. fundur - 05.12.2024

Heimastjórn vill árétta fyrri bókanir um nauðsyn þess að að vetrarþjónusta á Axarvegi sé aukin og að vegurinn fái fasta ruðningsdaga inni í áætlun Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu.

Benda má á að á þriðja tug ungmenna frá Djúpavogi stunda nám á Egilsstöðum og íbúar sæki einnig mikilvæga þjónustu til Egilstaða og því sé mikilvægt að bæta vetrarþjónustu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?