Fara í efni

Barnavernd

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun og skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni og ber þeim að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

Barnaverndarþjónusta Múlaþings starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsi sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Það er hlutverk barnaverndar að leitast við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu.

Ef þú telur að barn búi við aðstæður sem eru á einhvern hátt óviðunandi eða hafa neikvæð áhrif á heilsu þess, líðan eða þroska skalt þú senda inn tilkynningu til barnaverndar. Hægt er að ná í starfsmenn barnaverndar á skrifstofutíma frá kl. 8:15-15:30 með því að hringja í síma 4 700 700.

Ef þú telur að barn sé í hættu og málið þolir ekki bið skalt þú hringja strax í 112.

Hver getur tilkynnt til barnaverndar

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verða fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Einnig er skylt að tilkynna ef grunur leikur á að lífi ófædds barns sé stofnað í hættu.

Almenningur getur tilkynnt til barnaverndar undir nafnleynd. Það þýðir að þó að barnaverndarstarfsmaður fái nafn og símanúmer hjá þeim sem er að tilkynna þá mun starfsmaðurinn halda því leyndu fyrir þeim sem málið snýr að.

Þeir sem hafa afskipti af börnum svo sem starfsmenn leikskóla, skóla, frístunda, heilbrigðisstofnana, sjálfstætt starfandi sérfræðingar o.s.frv., er skylt að tilkynna til barnaverndar en þessir aðilar geta ekki tilkynnt undir nafnleynd.

Hvað gerir barnavernd

Þegar barnaverndarþjónusta hefur fengið tilkynningu um barn hefur hún sjö daga til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að hefja könnun máls samkvæmt 21. gr. bvl. Foreldrar barns eru allajafna látnir vita af tilkynningunni og hvaða ákvörðun var tekin í framhaldinu. Undantekning á því er ef barn er talið vera í hættu í umsjá foreldra og það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldri viti ekki af tilkynningunni að svo stöddu. Sé talin ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði eða stefni heilsu sinni eða þroska í hættu er tekin ákvörðun um að hefja könnun á aðstæðum barns. Leitast skal við að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi og aðstæður barnsins en þess þó gætt að könnunin sé ekki umfangsmeiri en þörf krefur. Könnun er að öllu jöfnu unnin í samrá við foreldra og skal að jafnaði ekki taka lengri tíma en þrjá mánuði. Starfsfólk barnaverndar tekur afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari aðgerða til stuðnings fjölskyldunni eða hvort afskiptum ljúki að könnun lokinni.

Leiði könnun á aðstæðum barnsins í ljós að fjölskyldan þarfnist stuðning á grundvelli barnaverndarlaga er gerð áætlum um meðferð máls. Áhersla er lögð á samvinnu við foreldra og börn um stuðningsúrræði og önnur inngrip af hálfu barnaverndarþjónustu. Áætlanir í málum barns í barnaverndarþjónustu eru einstaklingsbundnar og sniðnar að þörfum hvers og eins.

Úrræði til stuðnings og verndar börnum og ungmennum af hálfu barnaverndarþjónustu Múlaþings eru m.a.

Stuðningsfjölskyldur

Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni til vistunar í nokkra daga í mánuði m.a. í því skyni að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og styðja foreldra í forsjárhlutverkinu. Þá er einnig verið að stuðla að því að efla félagslega þátttöku barns og styrkja stuðningnet þess.

Tilsjón

Tilsjónaraðili leiðbeinir og styður foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni. Samningur við tilsjónaraðila er einstaklingsbundinn og sniðinn að þörfum foreldra og markmiðum með úrræði í samráði við foreldra. Stuðningurinn fer fram á heimili fjölskyldunnar þar sem foreldri fær persónulegan stuðning og leiðbeiningar í uppeldi og umönnun barna sinna

Persónuleg ráðgjöf

Persónulegur ráðgjafi veitir barni eða ungmenni persónulegan stuðning þar sem stuðst er við ákveðin markmið. Tilgangurinn er að styrkja barnið eða ungmennið félagslega, siðferðislega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við menntun, tómstundir eða vinnu. Lögð er áhersla á virkni og samskipti.

MST- fjölkerfameðferð

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur á aldrinum 12-18 sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Meðferðin felst fyrst og fremst í að auka færni foreldra til að takast á við vanda barna sinna. 

Fóstur

Um fóstur er að ræða þegar barnaverndarþjónusta felur fósturforeldrum umsjá barns. Ástæður þess geta hvort sem er verið erfiðleikar barns, að uppeldisaðstæðum þess sé áfátt eða hvoru tveggja. Þær fósturráðstafanir sem um getur verið að ræða eru tímabundið fóstur, varanlegt fóstur eða styrkt fóstur. Sjá nánar á vefsíðu barnaverndarstofu.

Tímabundið fóstur

Barni er komið í tímabundið fóstur þegar gert er ráð fyrir því hægt sé að bæta úr því ástandi sem var tilefni fóstursins, innan takmarkaðs tíma, þannig að barnið geti snúið heim að nýju.

Varanlegt fóstur

Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Með varanlegur fóstri er verið að tryggja barni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra.

Styrkt fóstur

Börn eða ungmenni sem eiga við sérstakan hegðunarvanda að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála þurfa stundum að búa tímabundið á fósturheimili sem getur boðið uppá markvissan stuðning. Með styrktu fóstri er átt við sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Þessi ráðstöfun gerir ráð fyrir því að annað fósturforeldra a.m.k. sé í fullu starfi við að sinna því verkefni.

Síðast uppfært 04. ágúst 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?