Í skipulagslögum er kveðið á um að allt land og hafsvæði innan marka sveitarfélaga sé skipulagsskylt. Bygging húsa og annarra mannvirkja, ofan jarðar og neðan og aðrar meiri háttar framkvæmdir sem breyta ásýnd umhverfisins, eiga að vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í skipulagsáætlun er gerð grein fyrir stefnu sveitarstjórnar og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands, s.s. fyrirkomulagi byggðar, samgangna og verndun menningar- og náttúruminja.
Samkvæmt skipulagslögum skiptast skipulagsáætlanir í svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og skulu þær vera í innbyrðis samræmi. Skipulagsáætlanir eru settar fram í greinargerð og á uppdrætti. Skipulagsfulltrúi heldur utan um skipulagsferla og er umhverfis- og framkvæmdaráði til ráðgjafar um skipulagsmál.
Aðalskipulag
Aðalskipulag er stefna sveitarfélags um landnotkun, náttúruvernd og þróun byggðar í öllu sveitarfélaginu. Fjögur aðalskipulög eru í gildi í sveitarfélaginu og eru þau frá því fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Upplýsingar um þau er að finna á skipulagsjá Skipulagsstofnunnar:
Vinna við nýtt aðalskipulag Múlaþings hófst sumarið 2023 og er stefnt að því að það taki gildi í lok árs 2025.
Deiliskipulag
Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis eða reits innan sveitarfélagsins sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Í deiliskipulagi eru sett ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga og frágang umhverfis.
Hægt er að nálgast gildandi deiliskipulagsáætlanir í kortasjá Múlaþings https://map.is/mulathing/. Með því að haka við við reitinn „Skipulag" á stikunni hægra megin á skjánum birtist afmörkun gildandi deiliskipulagsáætlana og með því að velja ákveðið svæði er hægt að nálgast gildandi skipulagsgögn fyrir viðkomandi svæði.