Í Múlaþingi er tiltekið dýrahald leyfilegt að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um í viðkomandi samþykktum. Sækja þarf sérstaklega um leyfi til að halda dýr sem falla undir samþykktirnar.
Hundar og kettir eru skráningarskyldir frá 3 mánaða aldri, en auk þess þarf að skrá dýr innan mánaðar eftir að það kemur á nýtt heimili. Þá þarf að tilkynna afskráningu innan mánaðar ef hundur eða köttur skiptir um heimili eða deyr.
Fiðurfénaður er leyfisskyldur og því óheimilt að halda slíka fugla án leyfis. Þá þarf jafnframt að tilkynna afskráningu ef fuglahaldi er hætt. Byggingarleyfi fyrir fuglakofa er háð gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar á hverjum tíma. Almennt gildir að ef fuglakofi er undir 15m2 og fleira tengt hæð og ekki nær lóðamörkum eða húsi en 3m þá er það ekki leyfisskylt. Sjá nánar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og leiðbeiningar HMS um smáhýsi.
Leyfisgjöld
Greitt er fyrir leyfi til hunda- og kattahalds samkvæmt gjaldskrá, en árlegt leyfisgjald er sent út í greiðsluseðli. Innifalið í leyfisgjaldinu er meðal annars:
- ormahreinsun
- trygging gagnvart þriðja aðila
- hluti dýraeftirlitskostnaðar
Til viðbótar bætist við leyfisgjöld hunda:
- hluti kostnaðar vegna ruslastampa
- rekstur hundasvæða
Umsýsla vegna dýrahalds
Verkefnastjóri umhverfismála hefur umsjón með skráningu og umsýslu gæludýrahalds.