SES - Samvinna eftir skilnað - barnana vegna
Foreldrar barna á aldrinum 0-18 ára, sem eru í skilnaðarferli eða hafa skilið fyrir einhverju síðan geta fengið námskeið, ráðgjöf og stuðning til að bæta samvinnu sín á milli.
Meginmarkmiðið er að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra og styrkja foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Foreldrar öðlist færni í að takast á við óvæntar uppákomur tengdar skilnaðinum og auka skilning á viðbrögðum barna sinna við breytingunum.
Foreldrar geta nálgast námskeið með gagnreyndu námsefni á vefsíðu verkefnisins samvinnaeftirskilnad.is, sem er ætlað að hjálpa þeim við að takast á við breytingar og áskoranir sem algengar eru í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita.
Ef foreldrar vilja meiri stuðning og eða fræðslu eftir að hafa farið í gegnum námskeiðin geta þau fengið sérhæfða ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum félagsþjónustu Múlaþings, eða sótt SES hópnámskeið fyrir foreldra, þar sem fjallað er um áhrif skilnaðar á fjölskyldur. Hvert námskeið skiptist í þrjá áfanga sem fjalla um áhrif skilnaðar á foreldra, viðbrögð barna við skilnaði og samvinnu foreldra eftir skilnað. Námskeiðin fara fram þegar lámarksþátttaka næst.
Ráðgjöf og rafrænt námskeið eru foreldrum að kostnaðarlausu.
Hefur þú áhuga á að kynna þér málið? SES ráðgjafar taka vel á móti þér.