Búð 1
765 Djúpavogi
Netfang: langabud@mulathing.is
Langabúð er elsta hús á Djúpavogi. Hún mun í núverandi mynd hafa verið byggð um 1850. Það er ljóst, að á þessum stað hafa verið verslunarhús um langan aldur. Elsta virðingargjörð, sem fundist hefur, er frá 1758. Þar er tekið fram, að húsin séu orðin gömul. Plankabyggt hús var reist þarna um 1790. Það er nú suðurendi Löngubúðar. Pakkhús er byggt þarna 1852., sem er nú eystri hluti hússins. Langabúð í núverandi mynd er þannig tvö hús og port á milli þeirra. Norður úr þessu porti var byggt sláturhús árið 1926, hornrétt á hin húsin. Þetta sláturhús er í notkun fram um 1950 (var síðan rifið), þegar Kaupfélag Berufjarðar lætur byggja nýtt sláturhús niðri við Gleðivík. Í Löngubúð kunna enn að vera spýtur úr fyrstu húsum á staðnum. Á þessari öld hefur Langabúð lengst af verið notuð sem pakkhús. Þar hafa verið geymdari grófari vörur, sem hafa þurft talsvert pláss, s.s. byggingarvörur, fóðurvörur o.s.frv. Í Löngubúð er loft. Þar uppi er merkileg, gömul kista, stór og járnslegin. Þar mun hafa verið geymdur sykur, kaffi, rúsínur og fleira. (Ingimar Sveinsson)
Árið 1989, á 400 ára verslunarafmæli Djúpavogs, fékk Djúpavogshreppur húsið að gjöf og var síðar ráðist í viðamiklar endurbætur, sem lauk 1997.
Í Löngubúð er safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera. Þar er einnig minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans Sólveigu Eyjólfsdóttur. Á lofti Löngubúðar hefur verið komið fyrir minjasafni.