Fara í efni

Íþróttasvæði

Í Múlaþingi fer fram fjölbreytt íþróttastarfsemi og er þar góð aðstaða til ýmiskonar íþróttaiðkunar.


Fótboltavellir og sparkvellir

Í Múlaþingi er fjölbreytt úrval fótbolta- og sparkvalla.

Sparkhöll Borgfirðinga er glæsilegur yfirbyggður gervigrasvöllur sem byggður var árið 2008. Grasvöllurinn hefur nýst vel og ekki bara fyrir fótbolta því þar hefur einnig verið stundað golf, blak og badminton. Höllin opin öllum til frírra afnota.

Grasvöllur á Borgarfirði eystri í fullri stærð er  með 4 pollamörkum og 2 í fullri stærð. Við hliðina á þeim velli er malbikaður völlur í handboltastærð með körfum og litlum mörkum.

Sparkvöllurinn á Djúpavogi stendur við íþróttamiðstöðina. Hann er flóðlýstur og byggður í samstarfi við KSÍ.

Fellavöllur í Fellabæ er knattspyrnuvöllur, með gervigrasi, sem er keppnisvöllur í fullri stærð og uppfyllir öll skilyrði keppnisvallar að undanskildum áhorfendastúkum. Völlurinn er flóðlýstur og upphitaður og notaður til æfinga og kappleikja allt árið.

Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er fjölnota íþróttavöllur. Hann er byggður upp sem frjálsíþróttavöllur með sex tartan lögðum hlaupabrautum og innan brauta er knattspyrnuvöllur með grasi. Hiti er undir hlaupabrautum sem nýtist vel yfir vetrarmánuðina til skokks og heilsubótargöngu. Völlurinn heitir í höfuðið á Vilhjálmi Einarssyni þrístökkvara.

Sparkvellir við Egilsstaðaskóla, Brúarásskóla og í Hallormsstaðaskógi við Hótel Hallormsstað eru sparkvellir sem byggðir voru í samstarfi við KSÍ. 

Sparkvöllurinn á Seyðisfirði er flóðlýstur sparkvöllur með glænýju gervigrasi til afnota fyrir alla áhugasama


Körfuboltavellir

Á Egilsstöðum er nýr og glæsilegur útikörfuboltavöllur staðsettur við sundlaugina. Völlurinn er í fullri stærð og með sex körfum. Affallsvatn frá sundlauginni er notað til að halda hita undir gólfi vallarins þannig að mögulegt er að nota hann allt árið.


Strandblakvellir

Í sveitarfélaginu eru tveir strandblakvellir.

Annar er í Bjarnardal á Egilsstöðum, milli Bláskóga og Dynskóga. Hinn er á Seyðisfirði í miðbænum. Báðir þessir vellir eru til afnota fyrir almenning.


Golfvellir

Þrír golfvellir eru í Múlaþingi.

Ekkjufellsvöllur í Fellum á Fljótsdalshéraði er 9 holu golfvöllur rekinn af Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs. Hann er par 70 og státar af einni par-5 braut, sex par-4 brautum og tveimur par-3 brautum.

Hagavöllur er á Seyðisfirði rétt áður en komið er inn í þéttbýlið. Hann er 9 holu, 2.300 metr­ar og par 35.

Golfvöllur Golfklúbbs Djúpavogs er í Hamarsfirði, um 12 kílómetra frá Djúpavogi. Hann er 9 holur og par 35.


Frisbígolfvellir

Í sveitarfélaginu eru fjórir frisbígolfvellir.

Á Borgarfirði er Frisbígolfvöllur sem er öllum opinn. Hann er 9 körfu völlur og er staðsettur við tjaldsvæðið og Álfaborgina. Í

Tjarnargarðinum í miðjum Egilsstaðabæ, er 6 körfu frisbígolfvöllur sem er öllum opinn til iðkunar. Við innkomuna í garðinn, við Safnahúsið, er skilti sem sýnir skipulag vallarins, m.a. lengd einstakra brauta. Hér má líka sjá uppdrátt af vellinum.

9 körfu frisbígolfvöllur er í Hallormsstaðaskógi, milli Atlavíkur og Guttormslundar. Gengið er frá bílaplaninu við Guttormslund og niður í lundinn.

Á Seyðisfirði er 8 körfu frisbígolfvöllur, staðsettur á útivistarsvæði fyrir innan Dagmálalæk. Besta aðgengi á hann frá innri enda Múlavegs, þar er skilti.


Skíðasvæði

Í Múlaþingi er vel útbúið skíðasvæði, sem liggur á milli Efri-stafs og Neðri-stafs í Fjarðarheiði. Aðeins er 10 mínútna akstur frá Seyðisfirði og 15 mínúta akstur frá Egilsstöðum að skíðasvæðinu. Á skíðasvæðinu í Stafdal eru tvær diskalyftur og skíðabrekkur við allra hæfi, jafnt fyrir lengra komna sem styttra. Barnalyfta er einnig á svæðinu. Skíðabrekkur við neðri diskalyftu er flóðlýstar. Brautir fyrir gönguskíði eru troðnar á svæðinu þegar færi gefst. Hægt er að kaupa léttar veitingar um helgar í skíðaskálanum.

Vefsíða Stafdals

Gönguskíðahópurinn Snæhérar hafa forgöngu að því að troða gönguskíðabrautir á Fljótsdalshéraði yfir veturinn. Brautir hafa verið troðnar á þremur stöðum: á Egilsstaðatúni, í Selskógi og á Fjarðarheiði, allt eftir snjóalögum og aðstæðum. Brautirnar eru opnar öllu gönguskíðaáhugafólki.


Aðstaða fyrir hestamenn

Á Fljótsdalshéraði eru tvö hesthúsasvæði.

Í hesthúsabyggð við bæinn Fossgerði í Eiðaþinghá, um 5 kílómetra fyrir utan Egilsstaði, er pláss fyrir um 100 hesta í góðum hesthúsum. Þar er æfinga- og keppnisvöllur ásamt annarri nauðsynlegri aðstöðu er tengist hestamennsku.

Hestamannafélagið Freyfaxi er með mótsvæði á Stekkhólma sem er við Iðavelli innan við Egilsstaði, á leiðinni í Hallormsstað. Þar er 1500 fermetra reiðhöll í eigu sveitarfélagsins.


Skotæfingasvæði

Æfinga- og félagssvæði Skotfélags Austurlands (SKAUST) er að Þuríðarstöðum við Mjóafjarðarveg. Á svæðinu er félagshús, riffilhús og leirdúfukastarar. Hægt er að skjóta upp í 600 metra færi á riffilbrautinni. 1 trapp kastari er á staðnum og 3 auka kastarar. Hægt er að skjóta trapp og sporting á leirdúfuvellinum. Bogfimideildin er með aðstöðu í íþróttahúsinu í Fellabæ.

Síðast uppfært 30. nóvember 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?