Fara í efni

Framkvæmdaleyfi

Framkvæmdir geta verið af ýmsum toga og misjafnt eftir eðli þeirra og staðsetningu hver viðeigandi málsmeðferð er hverju sinni. Dæmi um verkefni sem teljast til framkvæmda eru lagnaframkvæmdir, vega- og stígagerð, skógrækt, efnistaka auk annarra. Upplýsingar um málsmeðferð er að finna hér að neðan en athygli er vakin á gjaldtöku útgáfu framkvæmdaleyfis- og heimildar sem innheimt er í samræmi við gjaldskrá skipulags- og byggingarmála í Múlaþingi

Gjald sem er innheimt vegna framkvæmdaheimildar er ætlað að standa straum af kostnaði við afgreiðslu málsins. Samkvæmt reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 má gjald vegna framkvæmdaleyfis ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði þeim sem sveitarfélagið verður fyrir vegna útgáfu og undirbúnings leyfisins og eftirlits með framkvæmdinni. Á það við um leyfi vegna matsskyldra framkvæmda sem og annarra.

Sótt er um hér: Umsókn um framkvæmdaheimild og -leyfi


Framkvæmdir sem eru ekki háðar framkvæmdaleyfi

Telji framkvæmdaraðili að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki háð framkvæmdaleyfi en þó háð leyfi sveitarfélagsins er um framkvæmdaheimild að ræða.

Umsækjandi þarf að færa rök fyrir því að framkvæmdin hafi ekki áhrif á umhverfið eða breyti ásýnd þess, atriði eins og varanleika og áhrif á landslag, ásýnd og önnur umhverfisáhrif. Framkvæmdir sem eru óverulegar og falla undir framkvæmdaheimild eru til dæmis: trjárækt á frístundahúsalóðum innan frístundabyggðar, plæging lagnastrengja, óveruleg tilfærsla á veitumannvirkjum og óveruleg frávik á framkvæmdum sem þegar hafa fengið útgefið framkvæmdaleyfi og falla ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Hafa ber í huga að ef um er að ræða framkvæmd á svæði sem tilgreint er á náttúruminjaskrá skal umsögn Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðra áforma vera hluti af fylgigögnum umsóknar.

Umsóknarferli

  • Sótt er um framkvæmdaheimild á Mínum síðum.
  • Skipulagsfulltrúi fer yfir umsókn ásamt fylgigögnum.
  • Skipulagsfulltrúi sendir umsækjanda svarbréf í tölvupósti ásamt viðeigandi skilyrðum.
  • Umsækjandi fær sendan greiðsluseðil með rukkun um framkvæmdaheimildagjald.

Fylgigögn með umsókn

  • Afstöðumynd.
  • Lýsing á framkvæmd ásamt rökstuðningi fyrir því að um framkvæmdaheimild sé að ræða.
  • Umsagnir opinberra aðila ef við á.
  • Undirskrift landeiganda ef við á.

Framkvæmdaleyfi

Samkvæmt 13. gr skipulagslaga nr. 123/2010 er skylt að afla leyfis sveitarstjórnar vegna meiriháttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Framkvæmdaleyfi skal vera gefið út á grundvelli deiliskipulags. Heimilt er þó að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags, ef í aðalskipulaginu er gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við á.

Þegar sótt er um framkvæmdaleyfi án þess að deiliskipulag liggi fyrir og framkvæmdin er í þegar byggðu hverfi í þéttbýli eða í byggðakjarna utan þéttbýlis, í samræmi við meginforsendur í aðalskipulagi svo sem landnotkun, byggðamynstur og er ekki líkleg til að valda verulegum umhverfisáhrifum, skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en ákvörðun um veitingu leyfis er tekin.

Umsóknarferli

  • Sótt er um framkvæmdaleyfi á Mínum síðum.
  • Skipulagsfulltrúi fer yfir umsókn og leggur fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð hafi öllum fylgigögnum verið skilað inn.
  • Umhverfis- og framkvæmdaráð tekur umsóknina til afgreiðslu og tekur eftir atvikum afstöðu til grenndarkynningar.
  • Skipulagsfulltrúi gefur út undirritað framkvæmdaleyfi og sendir á rafrænu formi til umsækjanda.
  • Umsækjandi fær sendan greiðsluseðil með rukkun um framkvæmdaleyfisgjald.

Fylgigögn með umsókn

  • Hnitsett afstöðumynd sem sýnir fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, þ.e. sýnir mannvirki sem fyrir eru á svæðinu, hæðarlínur og annað í landslagi sem skiptir máli fyrir útfærslu framkvæmdar.
  • Hönnunargögn eftir því sem við á.
  • Lýsing á framkvæmd og hvernig hún fellur að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Í framkvæmdalýsingu þarf að tilgreina framkvæmdatíma, hvernig fyrirhugað er að standa að framkvæmdinni og fleira sem skiptir máli.
  • Þegar ekki liggur fyrir deiliskipulag og sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags sbr. 1. mgr. eða á grundvelli 8. og 9. gr. reglugerðar þessarar þarf einnig að fylgja umsókn yfirlitsmynd í mælikvarða 1:10.000-1:2.000 sem sýnir staðsetningu og afmörkun framkvæmdasvæðis eða úrdráttur úr aðalskipulagi sem sýnir afmörkun framkvæmdasvæðis.
  • Eftir atvikum skulu fylgja umsókn upplýsingar um veitur, aðkomu og aðstæður á framkvæmdasvæði, þ.m.t. hvort um sé að ræða hættusvæði eða náttúruverndarsvæði eða hvort á svæðinu séu náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.
  • Þegar sótt er um framkvæmdaleyfi til efnistöku á svæði þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag skal, auk framangreinds eftir því sem við á, fylgja greinargerð (efnistökuáætlun) þar sem m.a. er gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði og yfirborðsefnum sem koma í veg fyrir fok á jarðefnum.
  • Fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaaðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um.

Framkvæmdir sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Við mat á því hvort framkvæmd sé háð umhverfismati eða tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar skal fylgja flokkun framkvæmda í 1. viðauka við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021

Framkvæmdaraðili sem hyggst hefja framkvæmd sem er tilkynningarskyld ber ábyrgð á tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati.

Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á umhverfismati framkvæmda og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna matsáætlun og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati framkvæmdarinnar.

Sveitarfélaginu er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.


Gagnlegir tenglar og leiðbeiningar

Reglugerð um framkvæmdaleyfi
Skipulagslög
Gjaldskrá skipulags- og byggingarmála í Múlaþingi 

Framkvæmdaleyfi (Skipulagsstofnun)
Leiðbeiningar (Skipulagsstofnun)

Síðast uppfært 05. júlí 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?