
Bjarkatún er þriggja deilda leikskóli á Djúpavogi með pláss fyrir 28 börn frá eins árs til sex ára. Deildirnar heita Krummadeild, Kríudeild og Tjaldadeild. Gott útisvæði er fyrir börnin auk þess sem leikskólinn er staðsettur í mikilli nálægð við ósnortna náttúru.
Leikskólinn var stofnaður sumarið 1982 þá sem sumarskóli í húsi grunnskólans. Árið 1986 varð hann síðan heilsársskóli og hefur verið í ýmsu húsnæði frá stofnun. Leikskólinn flutti í núverandi húsnæði í október 2005.
Heimilisfang: Hammersminni 15b, 765 Djúpavogi
Sími: 470 8715
Netfang: bjarkatun@mulathing.is
Opnunartími: 7:45 – 16:00
Skóladagatal
Krummadeild, á deildinni eru eins og tveggja ára börn.
Kríudeild, á deildinni eru þriggja og fjögurra ára börn.
Tjaldadeild, á deildinni eru fimm ára börn.
Leikskólinn Bjarkatún vinnur eftir hugmyndafræði Cittaslow, Grænfánans og Uppeldis til ábyrgðar.
Cittaslow hugmyndafræðin er þróunarverkefni sem leikskólinn Bjarkatún og Djúpavogsskóli tóku þátt í í samstarfi við þrjá skóla í Orvieto á Ítalíu. Þróunarverkefnið byrjaði haustið 2016 og var til tveggja ára. Cittaslow eða „hægur bær“ er nálgun alls samfélagsins til að efla lífsgæði og sjálfbærni í bæjum og borgum sem byggist á samstarfi sveitarfélaga og samfélaga.
Cittaslow eru samtök stofnuð á Ítalíu og innblásin af Slow Food hreyfingunni. Markmið Cittaslow eru meðal annars að bæta lífsgæði í bæjum með því að hægja á heildarhraða þeirra, sérstaklega í notkun borgar á rýmum og flæði lífs og umferðar um þau. Cittaslow var stofnað á Ítalíu í október 1999, í kjölfar fundar á vegum borgarstjórans í Greve in Chianti, Toskana. Þróaður var 54 punkta sáttmáli sem hvetur til hágæða staðbundins matar og drykkjar, almennrar ánægju og andstöðu við menningarlega stöðlun. Nú eru Cittaslow bæir út um allan heim. Líkt og Slow Food eru Cittaslow aðildarsamtök. Full aðild að Cittaslow er aðeins opin fyrir bæi með íbúa undir 50.000. Til að verða gjaldgengur fyrir aðild þarf bær að jafnaði að skora að minnsta kosti 50 prósent í sjálfsmatsferli gegn settum Cittaslow markmiðum og síðan sækja um inngöngu í viðeigandi Cittaslow landsnet. Nánari upplýsingar um Cittaslow á Djúpavogi.
Leikskólinn Bjarkatún flaggaði Grænfánanum í fimmta sinn í október 2022. Unnið er markvisst starf í tengslum við skrefin sjö sem landvernd hefur sett. Umhverfisráð er starfandi í leikskólanum og er kosið í ráðið á haustin. Í ráðinu eru tveir fulltrúar starfsfólks, einn fulltrú foreldra auk nemenda af Kríudeild. Nánari upplýsingar um Grænfána verkefnið hjá Landvernd.
Uppeldi til ábyrgðar stuðlar að jákvæðum samskiptum, hvetur til sjálfstæðrar hugsunar og þroskar jákvætt gildismat. Uppbygging hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og hegðun, þetta er aðferð í samskiptum og að ná innra jafnvægi og styrk. Nánari upplýsingar um Uppeldi til ábyrgðar.
Fulltrúar í foreldraráði starfa jafnframt sem stjórn foreldrafélagsins.
-
- Formaður: Eygló Valdimarsdóttir
- Gjaldkeri: Natan Leó Arnarson
- Ritari: Maciej Pietruńko
Foreldraráð
Starfar samkvæmt 11. gr. laga um leikskóla.
11. gr. Foreldraráð.
Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla.
Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.
Foreldrafélag
Lög foreldrafélags leikskólans Bjarkatúns
1. gr.
Félagið heitir Foreldrafélag Leikskólans Bjarkatúns og er heimili þess á Djúpavogi. Foreldrar barna í leikskólanum og/eða forráðamenn eru sjálfkrafa félagar og greiða félagsgjöld sem ákveðin eru árlega á aðalfundi félagsins. Aðrir sem áhuga hafa á málefnum leikskólans geta fengið inngöngu í félagið gegn greiðslu félagsgjalds.
2. gr.
Markmið félagsins er að vinna að heill og hamingju nemenda leikskólans. Markmið sínu hyggst félagið ná með því m.a.:
-
- Að koma á umræðufundum um skóla- og uppeldismál almennt í samráði við skólann. Stefnt er að því að halda a.m.k. tvo foreldrafundi þar sem foreldrar geta rætt saman um málefni leikskólans. Fundirnir verði haldnir í nóvember og mars ár hvert.
-
- Að veita leikskólanum lið svo að aðstæður til náms- og félagslegra starfa verði samkvæmt kröfum hvers tíma.
-
- Að veita leikskólanum aðstoð vegna ákveðinna verkefna og starfa í skólanum.
-
- Að koma fram með óskir um breytingar á starfi leikskólans.
3.gr.
Aðalfundur skal haldinn í maí ár hvert. Hver stjórn situr að lágmarki í eitt ár og skal a.m.k. 1 fulltrúi úr fyrri stjórn sitja áfram. Aðalfundur er haldinn samhliða kynningarfundi leikskólans. Stjórnina skipa 4 menn, þar af 3 úr röðum foreldra og 1 úr hóp starfsmanna leikskólans, kosinn á starfsmannafundi í leikskólanum. Stjórnin skiptir með sér verkum. Fulltrúi starfsmanna leikskólans skal þó hvorki vera formaður né varaformaður.
4.gr.
Stjórnin komi saman til fundar minnst tvisvar á starfsárinu. Fyrsti fundur skal haldinn í október. Þar skulu rædd mál er varða leikskólann almennt, sbr. 2.gr. Stjórnin undirbýr og boðar til aðalfundar sem halda skal a.m.k. 1 sinni á ári og boðaður er með minnst viku fyrirvara. Tillögur frá félagsmönnum skal senda stjórninni til afgreiðslu. Félagsstjórn er skylt að halda fund í félaginu ef a.m.k. 10 félagsmenn æskja þess. Félagið kjósi fulltrúa úr stjórninni í skólanefnd til setu á fundum nefndarinnar þegar það á við.
5.gr.
Félgsstjórn skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum sem upp kunna að koma milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.
6.gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda sé það tilkynnt í fundarboðum með minnst viku fyrirvara. Félagsfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Samþykkt á aðalfundi 06. maí 2021