Byggðarmerki Múlaþings
Við sameiningu sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 4. október 2020 vantaði nýtt byggðarmerki. Efnt var til merkjasamkeppni og var nýtt byggðarmerki valið í desember 2020.
Höfundur verðlaunatillögunnar er Gréta V. Guðmundsdóttir.
Byggðarmerki Múlaþings er samsett úr fjórum flötum sem standa fyrir hin fjögur sameinuðu sveitarfélög.
- Einn fjórðungur merkisins eru útlínur Múlakolls sem er fremsti hluti Þingmúla sem var einn helsti samkomu- og þingstaður Austfirðinga til forna. Múlasýslurnar nefndar eftir honum. Þar liggja og rætur nafns hins nýja sveitarfélags.
- Annar fjórðungur táknmálsins er eins konar framtíðartákn hins óborna, endurnýjunar og hringrásar. Horft er til dagsbrúnar frá Héraðsflóa og Borgarfirði eystri í áttina þaðan sem sólin rís.
- Þriðji fjórðungurinn er horn hreindýrsins sem tákna mikilfengleika og tign, greind og útsjónarsemi. Það undirstrikar sérstöðu svæðisins.
- Það fjórða eru svo tindarnir, útverðirnir, hinir tignarlegu fjallgarðar Austurlands, útlínur Búlandstinds, gætu allt eins verið með góðum vilja hinn heilagi Strandatindur.
Settar hafa verið reglur um notkun á byggðarmerki Múlaþings.
Hönnunarstaðall
Hönnunarstaðall setur ramma utan um notkun byggðarmerkis Múlaþings í prent- og kynningarmálum sveitarfélagsins. Hönnunarstaðallinn er leiðbeinandi tæki fyrir starfsfólk Múlaþings sem og aðra er koma að kynningarmálum, rafrænt sem og prentuðum. Sveitarfélagið Múlaþing notar merki Múlaþings á öll gögn, auglýsingar, kynningar, útgáfur og ytri merkingar til að auðkenna starfsemi Múlaþings. Fylgja skal þessum hönnunarstaðli og ekki má í neinum tilvikum breyta litum merkisins. Hönnunarstaðallinn er ekki tæmandi og ef vafa atriði koma upp varðandi notkun byggðarmerkisins skal hafa samband við verkefnastjóra upplýsinga- og kynningarmála hjá Múlaþingi.
- Skjöldur Múlaþings er notaður einn og sér eða með heiti sveitarfélagsins. Í lit, svartur eða hvítur. Nota skal merkið í lit sé þess kostur.
- Byggðarmerki Múlaþings má ekki fella inn í önnur merki, tákn eða letur.
- Lofta skal um merkið með stærð ferningssem nemur hæð græna flatarins með horninu.
Nánari útfærslur og dæmi má finna í Hönnunarstaðilinum og merkjunum er hægt að hlaða niður héðan.