Víknaslóðir eru göngusvæði frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar, eitt vinsælasta göngusvæði Austurlands. Þar blandast saman fallegir firðir og víkur, líparítfjöll og glæsileg fjallasýn hvert sem litið er. Á göngusvæðinu er hægt að finna net stikaðra gönguleiða við allra hæfi og eru Víknaslóðir eitt best skipulagða göngusvæði landsins.
Síðastliðin 15 ár hafa heimamenn á Borgarfirði eystra staðið fyrir merkingu gönguleiða og útgáfu vandaðs gönguleiðakorts. Þar er meðal annars merkt við erfiðleikastuðul leiða og því auðvelt að velja sér gönguleiðir hvort sem það er fyrir dagsferðir eða lengri ferðir. Fjölbreytt þjónusta er á Borgarfirði eystri fyrir göngufólk svo sem ferðaskipulag, gisting, leiðsögn, flutningar (trúss) og matsala og þrír vel búnir gönguskálar Ferðafélags Fljótsdalshéraðs eru í Loðmundarfirði, Húsavík og Breiðuvík.
Nánar um Víknaslóðir