Bræðslan á Borgarfirði eystri
Bræðslan er metnaðarfull tónlistarhátíð á Borgarfirði eystri, sem haldin er árlega síðustu helgina í júlí í gamalli síldarbræðslu. Bræðslan er framtak heimamanna á Borgarfirði sem eru áhugasamir um tónlist og viðburði. Meðal listamanna sem hafa komið fram eru: Emiliana Torrini, Belle and Sebastian, Megas, Damien Rice, Of Monsters and Men, Mannakorn, Ný Dönsk, Aldís og Magni ásamt fjölmörgu listafólki en hátíðin hefur verið haldin á hverju ári síðan 2005. Bræðslan hefur hlotið Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.
Heimasíða Bræðslunnar
Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi
Rúllandi snjóbolti er samtímalistasýning sem haldin er í júlí og ágúst ár hvert í Bræðslunni á Djúpavogi. Verkefnið er samstarfsverkefni Djúpavogs og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína. Verkefnið Rúllandi snjóbolti er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða listasýninguna sjálfa (Rúllandi snjóbolta) sem sett er upp í hvítum teningi, byggðum inni í fyrrverandi bræðsluhúsnæði Djúpavogs. Hins vegar dvelja listamenn á vegum CEAC á Djúpavogi að sumarlagi og starfa að listsköpun sinni.
Um Rúllandi snjóbolta
Hammondhátíð Djúpavogs
Hammondhátíð Djúpavogs er stærsti menningarviðburður Djúpavogs og dregur til sín fjölmarga gesti ár hvert. Hátíðin hefst sumardaginn fyrsta ár hvert og hefur það að meginhlutverki að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, heimamenn og landsþekkta, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið rauði þráðurinn í gegnum alla dagskrána. Ýmsir tónlistarmenn hafa komið fram á Hammondhátíð. Þar má nefna Hjálma, Baggalút, Dúndurfréttir, Megas, Todmobile, Stuðmenn, Sólstafi, Mammút, Mugison og Nýdönsk.
Heimasíða Hammondhátíðar
Cittaslow sunnudagur á Djúpavogi
Cittaslow sunnudagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow og er markmið hans að kynna staðbundna framleiðslu, menningu og/eða sögu. Djúpivogur varð aðili að Cittaslow hreyfingunni árið 2013. Í víðasta skilningi er markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Til að mæta þessu markmiði leggja stefnumið Cittaslow áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót.
Nánari upplýsingar um Cittaslow á Djúpavogi
Ormsteiti á Fljótsdalshéraði
Ormsteiti er skemmtileg uppskeru- og menningarhátíð sem haldin er á Egilsstöðum og vítt og breitt um Fljótsdalshérað í ágúst ár hvert. Með hátíðinni er lögð áhersla á menningu, náttúru og ferðaþjónustu svæðisins þar sem notalegir og fjölbreyttir viðburðir á fallegum stöðum víða um héraðið eru í forgrunni. Meðal árvissra viðburða má nefna Tour de Ormurinn sem er hjólakeppni í kringum Lagarfljót, Möðrudalsgleði og Fljótsdalsdaginn.
Facebooksíða Ormsteitis
LungA Seyðisfirði
LungA stendur fyrir listahátíð ungs fólks á Austurlandi. LungA er listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum sem lýkur með uppskeruhelgi: sýningum og tónleikum. Hátíðin er frábær blanda af listum, sköpun, tjáningu og stórbrotinni náttúru. Hún hefur getið sér gott orðspor, bæði á Ísland og út fyrir landsteinana fyrir frábært andrúmsloft, námskeið af miklum gæðum og með mikilli virkni þátttakenda.
Heimasíða LungA
Haustroði á Seyðisfirði
Haustroði er markaðs- og uppskeruhátíð fjölskyldunnar á Seyðisfirði og er hún haldin í október ár hvert. Haustinu er fagnað með glaumi og gleði og alls kyns viðburðum og markaðsdegi í samkomuhúsinu Herðubreið þar sem handverk, kompudót, matur, fatnaður, bækur og uppskera haustsins er meðal þess sem á boðstólum fyrir gesti og gangandi.
Um Haustroða
List í ljósi á Seyðisfirði
List í ljósi er haldin á Seyðisfirði í febrúar ár hvert. Um er að ræða samfélags drifna og fjölskylduvæna listviðburði sem fara fram utandyra og er aðgangur ókeypis. Hátíðin umbreytir Seyðisfjarðarbæ í ljóslifandi kraumandi suðupott vel skipulagðra listviðburða, innlendra sem og erlendra listamanna. Fjölbreytni er í fyrirrúmi þar sem fyrirfinnast innsetningar, myndvörpun, gjörningar og upplifun á stórum skala. List í Ljósi býður einnig uppá kvikmyndahátíð undir heitinu “Flat Earth Film Festival”, sem hefjast í vikunni fyrir hátíð og eru einnig ýmsir hliðarviðburðir á dagskrá.
Heimasíða List í ljósi
Bláa kirkjan
Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan hefur verið haldin frá árinu 1998 í Seyðisfjarðarkirkju. Tónleikarnir fara fram á miðvikudagskvöldum í júlí og fram í ágúst og er lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika þar sem klassísk tónlist, djass og blús, þjóðlagatónlist og léttari músík fá að njóta sín. Flytjendur eru alla jafna tónlistarfólk í fremstu röð.
Heimasíða Bláu kirkjunnar
BRAS: Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi
BRAS er menningarhátíð þar sem börnum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu. Unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur.
Heimasíða BRAS
Dagar myrkurs
Dagar myrkurs er byggðahátíð Austurlands þar sem gervallur fjórðungurinn leggst á eitt til að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa það upp – ellegar undirstrika það með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf. Í fimm daga rekur svo hver viðburðurinn annan í hverju bæjarfélagi og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar; tónlist og myndlist verða í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, kertaljós og kósý-stundir í sundlaugum, ljóðalestur, draugagangur og afturganga, bílabíó og Ástardagar, sviðamessa, myrkra- og grímuböll, og stjörnum og norðurljósum fagnað svo eitthvað sé nefnt. Verslanir og þjónustuaðilar bjóða freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna.
Facebooksíða Daga myrkurs