Fara í efni

Örnefnakort og vinsælar gönguleiðir

Örnefnaskráning á Búlandsnesi. 

Hér að neðan er mynd af Útlandinu og þeim örnefnum sem þar hafa verið merkt. Mælt er með því að hlaða myndinni niður og vista hana. Myndin er í nokkuð hárri upplausn svo það þarf að zoom-a inn í hana til að geta lesið örnefnin.

Lýsing á vinsælum gönguleiðum :

Djúpavogshreppur nær frá Lónsheiði í vestri að Streitishvarfi í austri og í hreppnum má finna þó nokkrar áhugaverðar gönguleiðir, mismunandi langar og mismunandi léttar, allt frá 2 – 3 klst göngum upp í þriggja daga ferðir. Landslagið á þessu svæði er afar fjölbreytilegt og því bjóða gönguleiðir í hreppnum upp á töluverða fjölbreytni. Hafa ber í huga að klettabelti og brattar skriður eru algengar á svæðinu og geta reynst hættulegar ef ekki er farið rétt að og einnig getur þoka gert göngufólki erfitt fyrir. Því ber að fara með gát, undirbúa sig vel, fylgjast með veðurspá, láta vita af ferðum sínum og svo er GPS tæki góður ferðafélagi. Ekki er búið að merkja allar gönguleiðirnar en unnið er að því en þeir sem leggja í göngu eru á eigin ábyrgð.


Víðidalur. Göngutími: u.þ.b. 3 dagar. Mesta hæð 740 m.

Þessi forni og afskekkti bær hefur í gegnum tíðina verið vinsæll áfangastaður göngugarpa en leiðin er nokkuð löng og gott er að reikna með þremur dögum í ferðina. Hægt er að koma við í ferðafélagsskála á leiðinni. Til þess að komast í Víðidal er mælt með að leggja upp frá Múladal í Álftafirði en leiðin frá Múladal til Víðidals hefur verið stikuð af Ferðafélagi Djúpavogs. Frá bænum Múla sem er um 20 km leið inn að svonefndum Hvannavöllum en þar var áður búið og má þar sjá tóftarbrot. Túnið þar í kring er all víðáttumikið og ber með sér að þar hefur verið talsverður búskapur. Frá Hvannavöllum eru 7 – 8 km inn í stafn ? og um 5 km að ferðamannaskála á svokölluðum Leirási. Bótarfoss innst í Múladal er fallegur en hann fellur í þröngum stokki og stuðlabergshamrar, formfagrir eru til beggja hliða. Frá fossinum er gengið ofurlítið lengra inn með ánni og síðan lagt á brattann en þar sem farið er upp úr dalnum eru hrikaleg gljúfur í ánni. Frá innstu drögum Víðidals má sjá vel til Snæfells, sem og til Vatnajökuls. Þegar haldið er áfram er um nokkrar leiðir að velja m.a. að Illakambi og niður í Lónsöræfi, einnig er hægt að fara sömu leið til baka og þá er hægt að fara niður í Hofsdal með þann möguleika að fara yfir svokallaða Buga, sem er lágur háls milli Múladals og Hofsdals eða halda áfram út Hofsdal. Ef þessi leið er valin þarf að fara yfir nokkrar ár sem þó eru yfirleitt ekki vatnsmiklar.


Búlandstindur. Göngutími: 3–4 klst. Mesta hæð: 1069m.

Búlandstindur þykir almennt vera eitt formfegursta fjall á Íslandi. Fjöldi fólks leggur leið sína á tindinn á hverju ári og reikna má með að þeir yrðu enn fleiri ef leiðin yrði merkt. Leiðinni á tindinn er lýst í bókinni Íslensk fjöll eftir Ara Trausta Guðmundsson. Best er að fara eftir vegarslóða sem liggur meðfram Búlandsá sunnanverðri og alveg inn að stíflu sem er innarlega á dalnum. Hægt er að komast þessa leið á jeppa en ef gengið er eftir vegarslóðanum má reikna með um 1 klst í viðbót við áætlaðan göngutíma. Þaðan er gengið beint upp grasi grónar brekkur og skriður. Leiðin rekur sig sjálf þar til efsta tindi er náð með dálitlu klettabrölti. Hátindurinn er mjór og brattur klettarimi og þar er útsýni feyki gott. Mjög mikilvægt er að gæta þess að ganga ekki of langt til austurs ef eitthvað er að skyggni eða ef hált er, því að austurhlíð fjallsins er þverhnípt og hömrótt. Göngumenn þurfa að gæta sín á að setja á minnið leiðina upp, þar sem hægt er að villast, sérstaklega ef þoka leggst yfir. Gott er að hafa GPS tæki meðferðis og taka punkta á leiðinni. Gott GSM samband er á tindinum.


Berufjarðarskarð. Göngutími 2-3 klst. Mesta hæð: 669m.

Þessi gamla þjóðleið hefur oft verið gengin og Félag áhugafólks um forna fjallvegi á Austurlandi gaf út bækling um leiðina fyrir nokkrum árum. Þá má nefna að þær þjóðsögur sem tengjast Berufirði gera leiðina enn áhugaverðari. Gangan hefst við bæinn Berufjörð og liggur leiðin eftir melrinda nánast beint upp af bæ, á Sótabotnsbrún rétt utan við Sótabotn og áfram innan við Svartagilsstafn út og upp í skarðið. Er leiðin vörðuð frá brún Svartagils langleiðina að Póstvaði á Breiðdalsá gegnt Höskuldsstöðum.


Búlandsnes. Göngutími: 3-4 klst.

Gönguleiðin um Búlandsnes er að hluta til merkt stikum, leiðin hefur verið ein vinsælasta gönguleið í hreppnum á undanförnum árum, m.a. vegna þess hve létt hún er og einnig vegna fjölbreytts landslag við ströndina en þar má m.a. sjá marga fallega bergganga og fjölbreytilegar sendnar fjörur. Þá og er áhugavert að skoða allar úteyjarnar sem nú eru orðnar landfastar vegna mikils sandburðar á síðustu áratugum. Síðast en ekki síst er geysilega fjölskrúðugt fuglalíf á vötnunum á Búlandsnesi og má sjá greinargóðar upplýsingar um það á sérstökum skiltum.

Gott er að hefja gönguna við Hótel Framtíð eða við Grunnskólann en þaðan er c.a. 100 m að svokallaðri Bóndavörðu. Á Bóndavörðu er útsýnisskífa og þar er gott að staldra við og átta sig á umhverfinu en Búlandstindur, kauptúnið í Djúpavogi, Papey, firðirnir og fjallsýn blasir þar við. Frá Bóndavörðu er haldið í norðaustur í átt að Hvítasandi sem er hvít sandfjara yst á svokölluðum Langatanga. Áfram er haldið meðfram ströndinni, gengið yfir Grjóteyrartanga og Grunnasund. Taka þar við sandar miklir og er töluverður hluti leiðarinnar þar eftir á sandi. Út af Grunnasundsey er stærsta eyjan Úlfsey og austan við Úlfsey tekur við Hvaleyjarsund sandborið og handan við það Hvaley. Ysta eyjan er Kálkur og suðvestur af honum standa stapar upp úr sandi, nefndir Stólpar og voru áður í sjó; milli þeirra og Sandeyjar heitir Stólpasund. Í Sandey er hellir sem hægt er að komast í á fjöru en hann fyllist af sjó á flóði, fara skal með gát við hellinn en aðgengi í hann getur verið varasamt.

Skammt frá flugbrautinni við vötnin er tilvalið að staldra við í fuglaskoðunarskýli og enda gönguna á að fylgjast með fuglum á Fýluvogi og Breiðavogi.

Skógræktin. Göngutími 2–3 klst.

Skógrækt Djúpavogs er góður kostur sem létt gönguleið. Ágætt er að hefja gönguna við Hótel Framtíð og ganga upp svokallað klif. Þegar upp klifið er komið er ágætt að kasta mæðinni á svokölluðum Hvíldarkletti og njóta útsýnisins. Síðan er gengið inn Borgarland, Borgargarð og eftir gömlu þjóðleiðinni um Olnboga, fram hjá Rakkabergi, sem löngum hefur verið talið vera álfakirkja. Þaðan er haldið áfram framhjá að bænum Aski og inn í skógrækt þar sem göngustígar hafa verið merktir og lagðir trjákurli. Þar er tilvalið að setjast niður með nesti og njóta útiverunnar í skóginum. Skógrækt Djúpavogs er merkt sem áningastaður við þjóðveg og eru þar m.a. bekkir fyrir þá sem vilja nýta sér.


Lónsheiði. Göngutími: 4–5 klst. Mesta hæð: 807 m.

Þessi gamli fjallvegur er áhugaverður kostur fyrir göngugarpa. Leiðin er merkt þar sem gamli vegarslóðinn er ennþá til staðar. Gott er að hefja gönguna rétt austan Össurár í Lóni og síðan er gamla vegarslóðanum fylgt, en þegar upp á háheiðina er komið, má hugsa sér að gera krók á leið sína og skreppa upp á Snjótind en þaðan er eitt allra besta útsýni af fjalli í sveitarfélaginu. Þegar haldið er niður af tindinum, er ágætt að halda í suðaustur, niður svokallaða Hestabotna, meðfram Fauská alla leið niður á þjóðveginn austan Þvottárskriða. Einnig er góður kostur að fara til baka og halda áfram niður gamla þjóðveginn að Starmýri í Álftafirði.


Sunnutindur og Þrándarjökull. Uppgöngutími: 4–5 klst. Mesta hæð: 1158 m.

Áhugaverð leið þar sem góðar leiðarlýsingar eru til bæði í bókinni Íslensk fjöll og einnig í árbók F.Í. 2003. Kjörið fyrir þá sem vilja komast á jökul og upplifa fjölbreytni í landslagi. Jeppaslóðar liggja inn Geithelladal beggja vegna ár. Best er að hefja fjallgönguna við grónar brekkur innan við ána Sunnu en þar ofan við taka smáklettóttir hjallar við með grónum þverrindum á milli. Gönguland er ágætt og er einfaldast að fylgja Sunnu vestan megin og stefna utanvert í hjallana sem munu heita Álfheiðarhjallar. Þegar komið er nærri rótum Sunnutinds er sveigt með fjallinu upp í fannarhvilft í hlíðinni en þar eru brúnir Þrándarjökuls. Kollur Sunnutinds er hömrum girtur á þrjá vegu og ráðlegt fyrir göngumenn að ganga úr norðaustri eða norðri á fjallið. Þegar komið er á jökul þarf aðeins að beygja skarpt til suðurs og er 1 – 2 km leið fram á höfðann af jöklinum. Þarna er sprungulaust gönguland á snjó eða jökli en um svolitla skriðubrekku að fara á fjallið. Uppi eru melar og grjóturð undir fæti uns komið er á hæsta hjalla. Þrándarjökull skyggir á útsýnið til norðurs en annars er það mikið og fallegt, meðal annars inn til Vatnajökuls og yfir á Snæfell og Vesturöræfi.


Stöng. Uppgöngutími 3–4 klst. Mesta hæð: 965 m.

Þessi gönguleið er ætluð þeim sem vilja erfiðar göngur og þá aðallega klifur. Leiðinni er lýst í bók Ara Trausta Guðmundssonar, Íslensk fjöll. Stöngin var fyrst klifin 1987 að því gerst er vitað og leiðin er talin öruggari að vetri eða vori (mannbroddar og ísaxir). Gengið er upp frá þjóðveginum skammt frá Skálaá og upp brekkur vestan ár. Stefnt er austan (hægra megin) við Stöng, nokkuð ofarlega við rætur sjálfs tindsins. Þá er farið inn svokallað Ytra – Stangarskarð og lengi er Bæjartindur á hægri hönd. Þegar komið er að norðausturhluta tindsins er farið upp bratta brekku á ská uns komið er norðan megin í Stöngina. Þar er lítil hvilft eða skarð. Ofan í hana verður að ganga og er þá komið neðanundir hallandi klettabelti. Auðveldast er að leita leiðar heldur til hægri upp á hákollinn gegnt Sletti (norðvesturhorn “kastalans”). Þaðan nær mjókkandi hryggur (fyrir einn mann í einu!) yfir á strýtumyndað klettarið sem er allra hæst.


Hálsar. Göngutími: 3–4 klst. Mesta hæð: U.þ.b. 300 m.

Frekar létt fjallganga og mjög gott útsýni yfir firðina tvo Hamars og Berufjörð og síðast ekki síst Þvottáreyjar og Papey, sérstaklega er útsýnið gott þegar komið er upp á Hálsfjall. Áður en gengið er á Hálsfjall er fyrst hægt að ganga hring um Hálsanna sem liggja sem langur rani út úr Hálsfjalli til suðurs. Hálsar og Hálsarætur eru á náttúruminjaskrá en við Hálsarætur stóð m.a. Hálsþorp og eru þar miklar óraskaðar menningarminjar og þær best varðveittu sem til eru á svæðinu og þótt víðar væri leitað.

Leiðin um Hálsa og Hálsfjall var stikuð fyrir nokkrum árum og best er að hefja gönguna í svokölluðum Geitadal, skammt innan við skógrækt Djúpavogs.

Síðast uppfært 25. janúar 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?