Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

48. fundur 05. september 2024 kl. 13:30 - 15:10 á skrifstofu sveitarfélagsins, Seyðisfirði
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir formaður
  • Margrét Guðjónsdóttir aðalmaður
  • Snorri Emilsson varamaður
Starfsmenn
  • Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra

1.Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202208012Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar leggur fram eftirfarandi ályktun til sveitarstjórnar:

"Heimastjórn Seyðisfjarðar og sveitarstjórn Múlaþings fara þess á leit við innviða- og fjármála- og efnahagsráðherra að þeir heimili Vegagerðinni að hefja undirbúning útboðs vegna Fjarðarheiðarganga.Lagasetning um jarðgangaframkvæmdir bíður niðurstöðu verkefnastofu um gjaldtöku í jarðgöng á Íslandi, ljóst má vera að að henni er stefnt. Niðurstöður verkefnastofunnar munu liggja fyrir á komandi mánuðum en þá tekur við a.m.k. þriggja mánaða ferli lagasetningar á Alþingi um nýtt tekjumódel vegna jarðganga. Því er afar brýnt að vinna þessi mál samhliða og Vegagerðin fái nú þegar heimild til að hefja útboðsferli vegna Fjarðarheiðarganga sem áætlað er að taki allt að 12 mánuði. Fjarðarheiðargöng eru næstu göng og tilbúin til framkvæmda en biðröðin eftir jarðgöngum um land allt er löng. Nauðsynlegt er að stjórnvöld sýni að það er raunverulegur vilji að leysa þann brýna samgönguvanda og taka nú þegar ákvarðanir sem binda endi á það alvarlega ástand sem ríkt hefur í samgönguúrbótum vegna rofs í jarðgangagerð undanfarin ár.
Heimastjórn Seyðisfjarðar ítrekar að í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er lögð áhersla á að byggja Fjarðaheiðargöng og í framhaldi Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.
Fjarðarheiðargöng eru eitt brýnasta samfélags- og samgönguverkefnið sem framundan er á Austurlandi. Samgöngubætur m.a. með tilkomu Fjarðarheiðarganga er helsta forsenda þess að Múlaþing sem nýtt fjölkjarnasveitarfélag, geti vaxið og dafnað.
Heimastjórn leggur til að sveitarstjórn fundi með ofantöldum ráðherrum auk forsætisráðherra um málið og að auki verði málið tekið upp við þingmenn kjördæmisins."

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Hávaðamengun frá kyndistöð á Seyðisfirði

Málsnúmer 202406154Vakta málsnúmer

Óskað hefur verið eftir liðsinni heimastjórnar Seyðisfjarðar vegna hávaðamengunar frá dælustöðinni þegar keyrt er á dísel vélinni.

Málið tekið fyrir að nýju þegar hljóðmælingar liggja fyrir að nýju.

3.Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um meðferð ágangsfjár

Málsnúmer 202407097Vakta málsnúmer

Fyrir liggja til kynningar, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um meðferð ágangsfjár.

Lagt fram til kynningar.

4.Byggðarverkefni, samstarf

Málsnúmer 202408079Vakta málsnúmer

Fyrir liggur innsent bréf dags.14.ágúst frá samtökunum Landsbyggðin lifi (LBL) til heimastjórnar Seyðisfjarðar, þar sem leitast er eftir áhugasömum byggðakjörnum til að taka þátt í samstarfsverkefni með systursamtökum LBL í Finnlandi, Danmörku og Svíðþjóð. Verkefnið miðar af því að kanna hvað þarf til, til að fá fólk í þessi smærri samfélög, og hvað hamlar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar þakkar erindið sem er mjög áhugavert og gæti hentað vel fyrir lítið samfélað eins og Seyðisfjörð. Fulltrúa sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga um málið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, framkvæmdaáætlun

Málsnúmer 202406163Vakta málsnúmer

Fyrir liggja til kynningar og umræðu 5 ára framkvæmdaáætlun er varðar uppbyggingu áfangastaða í sveitarfélaginu sem umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti á fundi sínum 19.8.2024 að horft yrði til við gerð fjárfestingaráætlunar 2025.

Fulltrúi sveitarstjóra falið að koma ábendingu á framfæri í samræmi við umræður á fundinum.

6.Félagsheimilið Herðubreið, rekstur

Málsnúmer 202212047Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá forstöðukonu Herðubreiðar, Sesselju Jónasdóttur og atvinnu- og menningarmálastjóra, Aðalheiði Borgþórsdóttur varðandi tillögur að endurbótum á Félagsheimilinu fyrir árin 2025 og 2026.

Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur tekið málið fyrir og vísað erindinu til verkefnastjóra framkvæmdamála til skoðunar vegna þeirra framkvæmda sem eru í gangi og við gerð viðhaldsáætlunar næstu ára.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar fagnar því að erindið sé komið til verkefnastjóra framkvæmdamála og hvetur til þess að í framkvæmdum verði einnig gætt að hljóðvist og sjónvist í bíósal.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Gangnaboð og gangnaseðlar 2024

Málsnúmer 202408001Vakta málsnúmer

Fyrir liggur gangnaseðill fyrir Seyðisfjarðarkaupstað

Einnig liggur fyrir fundagerð um undirbúning gangna frá 31.7.2024 þar sem mættir voru fjallskilastjórar, verkefnastjóri umhverfismála og skrifstofustjóri.

Þar sem fundur féll niður í ágústmánuði, var gangseðill Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykktur af heimastjórnamönnum í gegnum tölvupóst 13.ágúst sl.

Fundagerð lögð fram til kynningar.

8.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 202310013Vakta málsnúmer

Fyrir liggja til umfjöllunar niðurstöður íbúafunda sem haldnir voru 28. og 29. ágúst og 2. september á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og Seyðisfirði, en fundirnir voru liður í mótun stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár þar á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærsta byggðarkjarna Múlaþings.

Heimastjórn Seyðisfjarðar þakkar íbúum Seyðisfjarðar kærlega fyrir þátttökuna á íbúafundinum

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar vísar umræðum og tillögum frá íbúafundi á Seyðisfirði frá 2.sept sl til umfjöllunar hjá fagráðum Múlaþings

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði

Málsnúmer 202301014Vakta málsnúmer

Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir ýmis verkefni og stöðum mála

Gamla Ríkið: Breyting hefur verið gerð á verkefninu um Gamla ríkið. Minjavernd og Ríkissjóður hafa samþykkt að sveitarfélagið auglýsi eftir áhugasömum aðila við endurgerð hússins, með þeim forsendum sem liggja fyrir í samstarfsamningi. Sveitarfélagið mun fylgjast með og passa upp á framkvæmd og framvindu hússins. Með verkefninu mun fylgja það fjármagn sem fengist hefur til endurbyggingar. Auglýsing fer í loftið von bráðar.

Herðubreið: Boðin var út framkvæmd við Herðubreið júní þar sem verkþættir voru gluggaskipti, einangrun og klæðning á ytra byrði hússins. Tilboð barst frá Eðalmenn ehf sem var tekið og er áætluð verklok júlí 2025. Áætlað hafði verið að byrja um mánaðamótin ágúst sept. Einhver seinkun hefur orðið á, en stefnt er á að hægt verði að byrja verkið á næstu tveimur vikum.

Baugur Bjólfs: Mjög vel hefur gengið með verkefnið Baugur Bjólfs. Búið er að steypa báða undirstöðuveggi undir Bauginn og fylla að og ganga frá landslagi í kringum þann syðri. Í vikunnu er stefnt að því að fylla í nyðri og ganga frá landslagi í kringum hann. Einnig er verið að vinna við að betrumbæta aðkomuveg. Pása verður á verkinu í haust þar til snjóa leysir næsta vor. Verklok eru áætluð næsta haust.

Malbikun: Á næsta þriðjudag (10.sept) er fyrirhugað að malbika Gilsbakkann, á hafnarsvæðinu við Strandabakka sem og í kringum Hafnarvogina.

Hafnargata 42B og Hafnargata 44B:
Búið er að endurauglýsa og óska eftir tilboðum í Hafnargötu 42B og Hafnargötu 44.B (Sólbakka) Húsin eru auglýst nú til flutnings á nýjar íbúðarhúsalóðir við Oddagötu. Tilboðum skal skila inn fyrir kl.14:00 þann 25.sept nk.

Íþróttahús,Sundhöll: Íþróttahúsið hefur fengið þó nokkra skveringu í sumar. Búið er að pússa upp og lakka gólf í íþróttasal, mála innanhúss sem og að utan. Hvað varðar Sundhöllina þá hefur Daði Sigfússon forstöðumaður íþróttahússins tekið að sér tímabundið forstöðu Sundhallarinnar og er því yfir báðum stofnunum sem stendur.






Fundi slitið - kl. 15:10.

Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd