Fara í efni

Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202208012

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings - 26. fundur - 10.08.2022

Til umfjöllunar eru fyrirhugaðar framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Eyþór Stefánsson, Hildur Þórisdóttir, Pétur Heimisson, Guðný Lára Guðrúnardóttir, Þröstur Jónsson, Vilhjálmur Jónsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Jónína Brynjólfsdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í ljósi þeirrar umræðu sem að undanförnu hefur átt sér stað bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem fram hafa komið m.a. fullyrðingar um að fyrirhuguð gangnagerð undir Fjarðarheiði sé ekki vænlegur kostur vill sveitarstjórn Múlaþings koma eftirfarandi á framfæri.

Fyrirhuguð göng undir Fjarðarheiði byggja á vandaðri vinnu verkefnishóps um undirbúning að ákvarðanartöku um Seyðisfjarðargöng er skipaður var í september 2017 af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Verkefnishópurinn var skipaður fulltrúum Vegagerðarinnar, Seyðisfjarðarkaupstaðar, atvinnulífs, samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og Byggðastofnunar og skilaði af sér lokaskýrslu í júní 2019. Í skýrslu verkefnishópsins er farið með faglegum hætti yfir valkosti og áhrif jarðganga til Seyðisfjarðar fyrir Seyðisfjörð og Austurland allt. Skýrsla verkefnishópsins er aðgengileg á heimasíðu Innviðaráðuneytisins og hvetur sveitarstjórn Múlaþings fólk til að kynna sér efni hennar.

Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist í samræmi við fyrirliggjandi samgönguáætlun.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 29. fundur - 08.12.2022

Fjarðarheiðargöng eru eitt brýnasta samfélags- og samgönguverkefnið sem framundan er á Austurlandi. Samgöngubætur m.a. með tilkomu Fjarðarheiðarganga er helsta forsenda þess Múlaþing sem nýtt fjölkjarnasveitarfélag, geti vaxið og dafnað. Útboð og fyrstu framkvæmdir tengdar vegagerð og undirbúningi svæða við fyrirhugaða gangamuna Fjarðarheiðarganga hefjast á komandi ári. Því telur heimastjórn Seyðisfjarðar brýnt að fá samtal við innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar um næstu skref og tímalínu framkvæmda á komandi mánuðum.

Heimastjórn felur starfsmanni að óska eftir fundum með innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 30. fundur - 05.01.2023

Heimastjórn bendir á að nú liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við Fjarðarheiðargöng. Íbúar eru hvattir til að kynna sér álitið, umsagnir og svör Vegagerðarinnar á www.skipulag.is.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 32. fundur - 08.03.2023

Fulltrúar úr heimastjórn Seyðisfjarðar áttu ásamt fleirum upplýsandi og gagnlegan fund þann 9. febrúar sl. með fulltrúum Vegagerðarinnar um stöðu Fjarðarheiðarganga. Á fundinum kynnti Vegagerðin verkáætlun sem miðar að því að forval geti farið fram vor/sumar 2023 og útboð haust 2023. Jafnframt kom fram að göngin eru þegar fullhönnuð og hönnun á vegum og brú utan ganga er klár til útboðs í haust. Miðað við þessa áætlun má ætla að framkvæmdir geti hafist vor 2024. Áætlað er að jarðgangagröftur geti tekið um 3 ár, gegnumslag sumar 2027 og eftirvinnan taki 3 ár, opnun jarðganga yrði því skv. þessu vor/sumar 2030.

Heimastjórn leggur áherslu á að sveitarstjórn haldi málinu vel að þingmönnum og ráðherrum og eigi í stöðugu samtali við þau um framgöngu þessara mikilvægu samgöngubóta.

Heimastjórn vill einnig hvetja Vegagerðina til þess að halda íbúafund um stöðu mála sem fyrst.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Byggðaráð Múlaþings - 86. fundur - 06.06.2023

Fyrir liggur minnisblað þar sem gerð er grein fyrir fundum er sveitarstjóri, formaður byggðaráðs og forseti sveitarstjórnar áttu í Reykjavík, dagana 25. og 26. maí sl., með ráðherrum, þingmönnum og starfsfólki ráðuneyta um fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings vísar fyrirliggjandi minnisblaði til umfjöllunar í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 37. fundur - 14.06.2023

Fyrir liggur minnisblað þar sem gerð er grein fyrir fundum er sveitarstjóri, formaður byggðaráðs og forseti sveitarstjórnar áttu í Reykjavík, dagana 25. og 26. maí sl., með ráðherrum, þingmönnum og starfsfólki ráðuneyta um fyrirhuguð Farðarheiðargöng.

Til máls tóku: Björn Ingimarsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Þröstur Jónsson sem bar upp fyrirspurn, Eyþór Stefánsson, Jónína Brynjólfsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir sem svaraði fyrirspurn Þrastar Jónssonar, Eyþór Stefánsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Ívar Karl Hafliðason, Björn Ingimarsson og Þröstur Jónsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings fagnar því að Fjarðarheiðargöng séu fremst á lista yfir ný göng á nýkynntri tillögu að samgönguáætlun en ítrekar nauðsyn þess að klára hringtengingu Austurlands í beinu framhaldi af framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng. Fjarðarheiðargöng eru einu göngin á Íslandi sem eru fullhönnuð og um þau ríkir sátt innan SSA sem staðfest var með svæðisskipulagi Austurlands, sem samþykkt var af öllum sveitarstjórnum sl. haust, en þar koma m.a. skýrt fram áherslur varðandi jarðgöng á Austurlandi þar sem Fjarðarheiðargöng eru í forgangi.

Sveitarstjórn Múlaþings vísar annars almennri umfjöllun um tillögu að samgönguáætlun og gerð umsagnar fyrir hönd sveitarfélagsins til byggðaráðs sem fer með fullnaðarafgreiðsluheimild sveitarstjórnar á þeim tíma sem skila á inn umsögn. Leitað verði umsagna allra heimastjórna á samgönguáætlun við vinnslu umsagnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 43. fundur - 08.02.2024

Sveinn Sveinsson svæðistjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sátu fundinn undir þessum lið og svöruðu spurningum fulltrúa í heimastjórn varðandi Fjarðarheiðargöng.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn þakkar fulltrúum Vegagerðarinnar fyrir gott samtal um mögulega tímalínu framkvæmda í tengslum við gerð Fjarðarheiðargangna.
Heimastjórn minnir á mikilvægi þess að hefja framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng sem fyrst enda bíða öll önnur möguleg jarðgangnaverkefni á landinu á meðan ekki er hafist handa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

  • Sveinn Sveinsson svæðistjóri Vegarðarinnar á Austurlandi og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegarðarinnar - mæting: 09:30

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 45. fundur - 04.04.2024

Í ljósi mikillar ófærðar og margra daga lokunar á Fjarðarheiði yfir páskana leggur heimastjórn Seyðisfjarðar enn og aftur áherslu á mikilvægi þess að framkvæmdir hefjist sem fyrst og leggur því fram eftirfarandi bókun.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar beinir því til sveitarstjórnar að fara þess á leit við innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að nú þegar verði gefin heimild til útboðs Fjarðaheiðargangna þannig að það fari fram samhliða því að verkefnastofa um gjaldtöku klári sína vinnu við tekjumódel fyrir jarðgöng á Íslandi. Með því móti væri hægt að ganga til samninga við framkvæmdaðila um leið og tekjumódel jarðganga á Íslandi verður samþykkt verði á Alþingi. Mikilvægt er að framkvæmdir við gerð Fjarðarheiðarganga hefjist á árinu 2025.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 47. fundur - 10.04.2024

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 04.04.2024, varðandi Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Þröstur Jónsson, Hildur Þórisdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Einar Freyr Guðmundsson, Eyþór Stefánsson og Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er lögð áhersla á að byggja Fjarðaheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Sveitarstjórn Múlaþings fer þess á leit við innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að nú þegar verði gefin heimild til útboðs Fjarðaheiðargangna þannig að það fari fram samhliða því að verkefnastofa um gjaldtöku klári sína vinnu við tekjumódel fyrir jarðgöng á Íslandi. Með því móti verði hægt að ganga til samninga við framkvæmdaðila um leið og tekjumódel jarðganga á Íslandi verður samþykkt á Alþingi. Mikilvægt er að framkvæmdir við gerð Fjarðarheiðarganga hefjist á árinu 2025.

Sveitarstjóra falið að koma á fundi með ráðherrum til að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 48. fundur - 05.09.2024

Heimastjórn Seyðisfjarðar leggur fram eftirfarandi ályktun til sveitarstjórnar:

"Heimastjórn Seyðisfjarðar og sveitarstjórn Múlaþings fara þess á leit við innviða- og fjármála- og efnahagsráðherra að þeir heimili Vegagerðinni að hefja undirbúning útboðs vegna Fjarðarheiðarganga.Lagasetning um jarðgangaframkvæmdir bíður niðurstöðu verkefnastofu um gjaldtöku í jarðgöng á Íslandi, ljóst má vera að að henni er stefnt. Niðurstöður verkefnastofunnar munu liggja fyrir á komandi mánuðum en þá tekur við a.m.k. þriggja mánaða ferli lagasetningar á Alþingi um nýtt tekjumódel vegna jarðganga. Því er afar brýnt að vinna þessi mál samhliða og Vegagerðin fái nú þegar heimild til að hefja útboðsferli vegna Fjarðarheiðarganga sem áætlað er að taki allt að 12 mánuði. Fjarðarheiðargöng eru næstu göng og tilbúin til framkvæmda en biðröðin eftir jarðgöngum um land allt er löng. Nauðsynlegt er að stjórnvöld sýni að það er raunverulegur vilji að leysa þann brýna samgönguvanda og taka nú þegar ákvarðanir sem binda endi á það alvarlega ástand sem ríkt hefur í samgönguúrbótum vegna rofs í jarðgangagerð undanfarin ár.
Heimastjórn Seyðisfjarðar ítrekar að í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er lögð áhersla á að byggja Fjarðaheiðargöng og í framhaldi Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.
Fjarðarheiðargöng eru eitt brýnasta samfélags- og samgönguverkefnið sem framundan er á Austurlandi. Samgöngubætur m.a. með tilkomu Fjarðarheiðarganga er helsta forsenda þess að Múlaþing sem nýtt fjölkjarnasveitarfélag, geti vaxið og dafnað.
Heimastjórn leggur til að sveitarstjórn fundi með ofantöldum ráðherrum auk forsætisráðherra um málið og að auki verði málið tekið upp við þingmenn kjördæmisins."

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 50. fundur - 11.09.2024

Til umfjöllunar eru fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Pétur Heimisson og Þröstur Jónsson sem lagði fram bókun, Eyþór Stefánsson og Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir eftirfarandi ályktun heimastjórnar Seyðisfjarðar:

Heimastjórn Seyðisfjarðar og sveitarstjórn Múlaþings fara þess á leit við innviða- og fjármála- og efnahagsráðherra að þeir heimili Vegagerðinni að hefja undirbúning útboðs vegna Fjarðarheiðarganga. Lagasetning um jarðgangaframkvæmdir bíður niðurstöðu verkefnastofu um gjaldtöku í jarðgöng á Íslandi, ljóst má vera að að henni er stefnt. Niðurstöður verkefnastofunnar munu liggja fyrir á komandi mánuðum en þá tekur við a.m.k. þriggja mánaða ferli lagasetningar á Alþingi um nýtt tekjumódel vegna jarðganga. Því er afar brýnt að vinna þessi mál samhliða og Vegagerðin fái nú þegar heimild til að hefja útboðsferli vegna Fjarðarheiðarganga sem áætlað er að taki allt að 12 mánuði. Fjarðarheiðargöng eru næstu göng og tilbúin til framkvæmda en biðröðin eftir jarðgöngum um land allt er löng. Nauðsynlegt er að stjórnvöld sýni að það er raunverulegur vilji að leysa þann brýna samgönguvanda og taka nú þegar ákvarðanir sem binda endi á það alvarlega ástand sem ríkt hefur í samgönguúrbótum vegna rofs í jarðgangagerð undanfarin ár.
Heimastjórn Seyðisfjarðar ítrekar að í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er lögð áhersla á að byggja Fjarðaheiðargöng og í framhaldi Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.
Fjarðarheiðargöng eru eitt brýnasta samfélags- og samgönguverkefnið sem framundan er á Austurlandi. Samgöngubætur m.a. með tilkomu Fjarðarheiðarganga er helsta forsenda þess að Múlaþing sem nýtt fjölkjarnasveitarfélag, geti vaxið og dafnað.
Heimastjórn leggur til að sveitarstjórn fundi með ofantöldum ráðherrum auk forsætisráðherra um málið og að auki verði málið tekið upp við þingmenn kjördæmisins.

Sveitarstjórn lýsir yfir vonbrigðum með að ekki skuli hafa verið brugðist við ósk sveitarfélagsins um fund með ráðherrum vegna málsins. Sveitarstjóra falið að koma bókun heimastjórnar og sveitarstjórnar á framfæri við viðkomandi ráherra og þingmanna kjördæmisins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég ámynni stjórnvöld um að þeim ber að þjóna íslenskri þjóð fremur en að þjóna umdeildum heimsmálum.
Alls ekki er þeim falið að drottna yfir þjóðinni.
Ég gagnrýni harðlega að stjórnvöld nota almannafé á altari vafasamra skurðgoða svo sem stríðsrekstur í fjarlægu landi, loftslagsmál, stjórnlausan innflutning hælisleitenda og kynjafræða-rugls sem stangast á við allt kristilegt siðferði og sjálfsmynd.
Stjórnvöldum ber að nýta almannafé til þjónustu við þá sem greiða í sameiginlega sjóði, þ.e. þjóðina og þar ekki síst í uppbyggingu innviða svo sem samgangna þar með talið jarðgangna.
Ef þetta er ekki kýrskírt fyrir þeim sem á Alþingi og í ríkisstjórn sitja, þá biðla ég til þess að þau hin sömu lesi Markúsarguðspjall 10:42-45 á hverjum einasta morgni sér til uppbyggingar

Getum við bætt efni þessarar síðu?