Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

29. fundur 08. desember 2022 kl. 14:00 - 19:30 á skrifstofu sveitarfélagsins, Seyðisfirði
Nefndarmenn
  • Björg Eyþórsdóttir formaður
  • Jón Halldór Guðmundsson aðalmaður
  • Margrét Guðjónsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Aðalheiður L Borgþórsdóttir starfsmaður
Fundargerð ritaði: Aðalheiður Borgþórsdóttir fulltrúi sveitarstjóra

1.Evrópuverkefnið The HuT

Málsnúmer 202211219Vakta málsnúmer

Evrópuverkefnið The HuT snýst um upplýsingagjöf og fræðsluefni fyrir íbúa á náttúruvársvæðum. Austurbrú óskaði eftir því að koma inn á fund með Heimastjórn til þess að kynna verkefnið.

Fulltrúar Austurbrúar mættu á fundinn og fóru yfir málið. Heimastjórn fagnar því að þessa vinna fari fram.

Heimastjórn þakkar fulltrúum Austurbrúar fyrir komuna.

Gestir

  • Urður Gunnarsdóttir - mæting: 14:00
  • Erna Rakel Baldvinsdóttir - mæting: 14:00

2.Seyðisfjarðarhöfn - staða mála

Málsnúmer 202212045Vakta málsnúmer

Heimastjórn óskaði eftir því að yfir-hafnarvörður Seyðisfjarðarhafnar; Rúnar Gunnarsson mætti inná fundinn og færi yfir helstu verkefnin á höfninni nú og í nánustu framtíð.

Rúnar Gunnarsson yfir-hafnarvörður mætti á fundinn og fór yfir málefni Seyðisfjarðarhafnar. Mikil uppbygging er í gangi m.a. er unnið að því að laga Angróbryggju, að klára sjóvörn við Sæból og lenging Strandarbakka er í farveginum. Einnig er stefnt að því að gera grjótvörn við Vestdalseyri og að lagfæra grjótvörn við bræðsluna á næsta ári. Mikil aukning á komum skemmtiferðaskipa til Seyðisfjarðarhafnar verður á næsta ári, en 116 skipakomur eru bókaðar á næsta ári, 40 fyrir 2024 og 20 fyrir 2025. Raftenging skipa er í vinnslu en unnið er að því að koma fyrir spennistöð á Strandarbakka. Smærri skemmtiferðaskip og Norræna gætu tengst við búnaðinn. Tiltekt er í gangi á höfninni og hefur verið gerð gangskör í að hreinsa til á gámasvæðinu.

Heimastjórn þakkar Rúnari fyrir komuna og greinagóða yfirferð.

Gestir

  • Rúnar Gunnarsson - mæting: 14:30

3.Félagsheimilið Herðubreið - rekstur

Málsnúmer 202212047Vakta málsnúmer

Framhaldsvinna varðandi rekstur Herðubreiðar. Inn á fundinn kom Steingrímur Jónsson verkefnastjóri framkvæmda af eignasviði Múlaþings og fór yfir ástand hússins.

Steingrímur Jónsson fór yfir ástand hússins. Fyrir liggur að það þarf að fara í að klæða húsið að utan, verkið verður boðið út á næstu dögum, þá í annað sinn en það bauð enginn í verkið þegar það var boðið út á síðasta ári. Talsverðar framkvæmdir eru í ráðgerðar innanhúss og áætlað er m.a. að klára brunavarnir, setja brunastiga upp á efri hæð.

Heimastjórn þakkar Steingrími fyrir greinagóða yfirferð.


Samningur um rekstur félagsheimilisins Herðubreiðar er gilti 2016-2020 og framlengdur var um tvö ár, rennur sitt skeið um áramótin. Heimastjórn leggur áherslu á að halda því rekstrarfyrirkomulagi sem lagt var upp með árið 2016 til næstu ára en jafnframt hefur reynsla síðustu ára verið metin, kostir og gallar og tillit tekið til breyttra þarfa og forsenda.

Heimastjórn leggur til við byggðaráð að Atvinnu- og menningarmálastjóra verði falið að vinna útboðsgögn samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og umræðum á fundi heimastjórnar og í framhaldinu að auglýsa eftir rekstraraðilum til næstu 5 ára skv. nýju útboði.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

  • Steingrímur Jónsson - mæting: 15:00

4.Gamla ríkið á Seyðisfirði

Málsnúmer 202010547Vakta málsnúmer

Steingrímur Jónsson mætti á fundinn og fór yfir stöðu mála varðandi næstu skref í vinnu við Gamla ríkið. Fyrir dyrum stendur að fara í það að byggja upp grunn að húsinu, utar og neðar í lóðinni. Þá verður húsið fært yfir á nýja grunninn og endurbyggt eins og samningur milli sveitarfélagsins, ríkisins og Minjaverndar gerir ráð fyrir og samkomulag hefur náðst um. Stefnt er að því að bjóða verklegu framkvæmdina út.

Heimastjórn þakkar Steingrími fyrir komuna og greinagóða kynningu.

Heimastjórn leggur til við Umhverfis- og framkvæmdarsvið að samhliða framkvæmdum verði fundinn framtíðar rekstraraðili svo nýta megi sem best þá fjármuni sem ætlaðir eru í endurbætur hússins og aðlögun að framtíðar starfsemi.


Gestir

  • Steingrímur Jónsson - mæting: 15:00

5.Fjarðarheiðargöng- staða mála

Málsnúmer 202208012Vakta málsnúmer

Fjarðarheiðargöng eru eitt brýnasta samfélags- og samgönguverkefnið sem framundan er á Austurlandi. Samgöngubætur m.a. með tilkomu Fjarðarheiðarganga er helsta forsenda þess Múlaþing sem nýtt fjölkjarnasveitarfélag, geti vaxið og dafnað. Útboð og fyrstu framkvæmdir tengdar vegagerð og undirbúningi svæða við fyrirhugaða gangamuna Fjarðarheiðarganga hefjast á komandi ári. Því telur heimastjórn Seyðisfjarðar brýnt að fá samtal við innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar um næstu skref og tímalínu framkvæmda á komandi mánuðum.

Heimastjórn felur starfsmanni að óska eftir fundum með innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Kröfur ríkisins um þjóðlendur á Austfjörðum

Málsnúmer 202201165Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bréf frá óbyggðanefnd, dagsett 14. nóvember 2022, ásamt með gögnum málsins, þ.e. kynningarhefti með öllum kröfulýsingum og erindum sem óbyggðanefnd hafa borist ásamt kröfulínukortum. En óbyggðanefnd hefur haft til meðferðar þjóðlendumál á svæði 11, Austfirði, síðast liðna mánuði. Vakin er athygli á því að kynning á heildarkröfum skv. 12. gr. þjóðlendulaga stendur yfir 15. nóvember til 15. desember 2022 og að frestur til athugasemda sé til 22. desember 2022.

Lagt fram til kynningar.

7.Umsagnarbeiðni vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir Steinholt, Austurvegur 22, Seyðisfirði

Málsnúmer 202210113Vakta málsnúmer

Fyrir liggur frá Sýslumanninum á Austurlandi beiðni um umsögn vegna umsóknar frá Undiraldan ehf. Ránargötu 8, 710 Seyðisfirði, kt. 640320-2140, dagsett 18.10.2022, um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II - G íbúðir, að Steinholti, old music school, Austurvegi 22
Fyrir liggja jákvæðar umsagnir byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Einnig jákvæðar umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands og Brunavörnum Austurlands.

Með vísan til 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, veitir heimastjórn Seyðisfjarðar jákvæða umsögn og staðfestir jafnframt að staðsetning staðar sem umsóknin lýtur að, sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segir til um.

Beinir heimastjórn því til byggingarfulltrúa að skráning þess hluta hússins sem rekstrarleyfið nær til, verði breytt í samræmi við nýja notkun.

8.Fjöldahjálparstöð á Seyðisfirði

Málsnúmer 202211221Vakta málsnúmer

Fyrir liggur beiðni um umsögn heimastjórnar varðandi það að félagsheimilið Herðubreið verði skilgreint sem fjöldahjálparstöð á neyðartímum

Heimastjórn leggur til að Herðubreið verði skilgreind sem fjöldahjálparstöð á neyðartímum og vísar erindinu til byggðarráðs til umfjöllunar og sveitarstjórnar til afgreiðslu.

9.Hitaveita á Seyðisfirði - tilnefning í starfshóp

Málsnúmer 202110137Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggur beiðni um að heimastjórn Seyðisfjarðar tilnefni fulltrúa í starfshóp um framtíðarfyrirkomulag hitaveitu á Seyðisfirði.


Heimastjórn Seyðisfjarðar tilnefnir Jón Halldór Guðmundsson í starfshóp varðandi hitaveitu Seyðisfjarðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Starfshópur um undirbúning nýs Seyðisfjarðarskóla

Málsnúmer 202211079Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð óskar eftir tilnefningum frá heimasstjórn Seyðisfjarðar í starfshóp um nýjan Seyðisfjarðarskóla.

Heimastjórn Seyðisfjarðar tilnefnir Margréti Guðjónsdóttur í starfshóp um nýjan Seyðisfjarðarskóla og Björgu Eyþórsdóttur til vara.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Hreindýraarður 2022

Málsnúmer 202212040Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tölvupóstur frá Umhverfisstofnun, dagsett 5. desember 2022, ásamt með drögum að hreindýraarði fyrir árið 2022 á áfangasvæði / jarðir í sveitarfélaginu. Drögin liggja frammi á skrifstofum Múlaþings til skoðunar á skrifstofum sveitarfélagsins frá 5. 12. til 16. 12. 2022 og er það sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir og skulu þær berast innan þessa frests.

Landeigendur og aðrir hlutaðeigandi eru hvattir til að kynna sér gögnin.
Að öðru leyti lagt fram til kynningar.

12.Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla

Málsnúmer 202212049Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar beinir því til fjölskylduráðs, leikskólafulltrúa og verkefnastjóra mannauðs hjá Múlaþingi að gert verði sérstakt átak í stuðningi við leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla svo tryggja megi áframhaldandi faglegt og áreiðanlegt starf. Því miður hefur gætt truflana á starfi leikskólans um nokkurt skeið sem reynt hefur bæði á starfsfólk og fjölskyldur. Gott samstarf heimila og skóla hefur verið dýrmætt á þessum tímum. Hins vegar þurfti nýlega að loka deildum tvo daga í röð með skömmum fyrirvara og tilheyrandi óþægindum fyrir börn og foreldra. Áhrif slíkra lokana gætir svo víðar í samfélaginu. Við teljum brýnt að leitað verði allra leiða til þess að slíkar lokanir heyri til algjörra undantekninga og stefna skuli að því að til þeirra þurfi ekki að koma aftur.

Heimastjórn hvetur til þess að horft verði til þeirra tækifæra sem felast í þeirri staðreynd að Seyðisfjarðarskóli er sameinaður skóli þriggja deilda; grunnskóla-, leikskóla- og listadeildar, auk sérstakrar stoðdeildar. Leiðir sem efla samstarf og samspil mannauðs þvert á deildir mættu því verða leiðarljós að öflugu og áreiðanlegu skólastarfi og öryggisnet þegar á reynir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Laxeldi í Seyðisfirði- innsent erindi.

Málsnúmer 202212055Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 05.12.2022 hefur borist frá Snorra Emilssyni varðandi laxeldi í Seyðisfirði.

Heimastjórn hefur tekið erindið til umræðu. Vísað er til þess að málið er enn í faglegu, lögbundnu ferli hjá viðeigandi aðilum og stofnunum þar sem tekið er á öllum þeim ábendingum sem nefndar eru í erindi bréfritara.Heimastjórn gerir ráð fyrir því að starfað sé eftir lögum og reglum og leyfi veitt á lögmætum forsendum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 19:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?