Fara í efni

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings

122. fundur 08. júlí 2024 kl. 08:30 - 12:20 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir formaður
  • Þórhallur Borgarson varaformaður
  • Björgvin Stefán Pétursson aðalmaður
  • Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður
  • Eiður Gísli Guðmundsson aðalmaður
  • Ásrún Mjöll Stefánsdóttir aðalmaður
  • Pétur Heimisson aðalmaður
  • Hannes Karl Hilmarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • Sóley Valdimarsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
Fundargerð ritaði: Sóley Valdimarsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála

1.Borgarfjarðarhöfn, Löndunarbryggja

Málsnúmer 202308181Vakta málsnúmer

Jón Þórðarson (fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði) kynnti minnisblað frá Vegagerðinni, dags. 5. júní 2024, um ástandsskoðun Löndunarbryggju á Borgarfirði eystri.
Einnig sátu fundinn undir þessum lið Björn Ingimarsson (hafnarstjóri), Rúnar Gunnarsson (yfirhafnarvörður), Eiður Ragnarsson (fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi)

2.Hafnarreglugerð Múlaþings

Málsnúmer 202307014Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sátu Björn Ingimarsson (hafnarstjóri), Rúnar Gunnarsson (yfirhafnarvörður), Eiður Ragnarsson (fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi) og Aron Thorarenssen (lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi Múlaþings).
Fyrir liggja uppfærð drög að hafnarreglugerð Múlaþings.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu að hafnarreglugerð Múlaþings með breytingum á gr. 8 og 9 í samræmi við umræður á fundinum og vísar henni til byggðaráðs, sem fer með fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi sveitarstjórnar, til staðfestingar.

Samþykkt samhljóða.

3.Málefni hafna í Múlaþingi

Málsnúmer 202111134Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sátu Björn Ingimarsson (hafnarstjóri), Rúnar Gunnarsson (yfirhafnarvörður) og Eiður Ragnarsson (fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi).
Lögð er fram til kynningar skýrsla um efnahagsleg áhrif skemmtiferðaskipa á Íslandi þar sem meðal annars kemur fram að 31,5% af heildartekjum Hafna Múlaþings kemur frá skemmtiferðaskipum.

4.Viljayfirlýsing um fjölgun íbúða og eflingu stafrænnar stjórnsýslu í Múlaþingi

Málsnúmer 202407008Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að viljayfirlýsingu milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Múlaþings um fjölgun íbúða og eflingu stafrænnar stjórnsýslu í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrir sitt leyti þann hluta yfirlýsingarinnar er snýr að stafrænni stjórnsýslu og úthlutun lóða við Selbrún og Bláargerði. Ráðið beinir því til byggðaráðs að í yfirlýsingunni verði markmiðið að tryggja húsnæðisuppbyggingu í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins þótt svo að á þessu stigi sé horft til fyrsta áfanga uppbyggingar á Egilsstöðum og í Fellabæ.
Framkvæmda- og umhverfismálastjóra falið að fylgja málinu eftir við byggðaráð.

Samþykkt samhljóða.

5.Skipulögð geymslusvæði, reglur og leigusamningur

Málsnúmer 202406108Vakta málsnúmer

Verkefnastjóri framkvæmdamála, Vordís Jónsdóttir, og þjónustufulltrúi á byggingarsviði, Eggert Sigtryggsson, sátu fundinn undir þessum lið.
Fyrir liggja drög að reglum um skipulögð geymslusvæði í byggðakjörnum Múlaþings, ásamt drögum að formi leigusamnings og tillögum að staðsetningum svæða.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög að reglum um geymslusvæði í Múlaþingi og formi leigusamnings og vísar þeim til byggðaráðs til staðfestingar. Ráðið samþykkir staðsetningar á geymslusvæðum á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði en felur starfsfólki að skoða betur fyrirhugaða staðsetningu geymslusvæðis í Fellabæ.

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúi M-lista (HH) leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi M-Listans mótmælir þeirri valdníðslu að lóðin Iðjusel 3 sé tekinn undir gáma geymslusvæði. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað var búið að úthluta þessari lóð undir atvinnustarfsemi en sendi svo aldrei reikning fyrir lóðinni, Múlaþing hefur heldur ekki sent reikning þrátt fyrir margar ítrekanir hlutaðeigandi aðila. Vegna seina gangs og slóðaskaps sveitarfélagana gátu þessir aðilar aldrei greitt fyrir lóðina, af því það kom aldrei reikningur.
Einnig leggst ég alfarið á móti því að Sveitarfélagið sé að skipuleggja og koma upp en einum rusla söfnunarstað við aðkomu inn í Egilsstaði/Fellabæ.

6.Gjaldskrár 2024

Málsnúmer 202309111Vakta málsnúmer

Verkefnastjóri framkvæmdamála, Vordís Jónsdóttir, situr fundinn undir þessum lið og óskar eftir heimild til að falla frá gjaldtöku vegna lóðarleigusamninga, liður 12 í 13. gr. gjaldskrár skipulags- og byggingarmála, í þeim tilvikum þegar um endurnýjun samnings er að ræða.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa málinu til frekari umræðu um breytingar á gjaldskrá skipulags- og byggingarmála í tengslum við endurskoðun hennar í lok árs.
Ráðið samþykkir jafnframt að ekki verði innheimt gjald vegna endurnýjunar lóðaleigusamninga samkvæmt gildandi gjaldskrá frá og með deginum í dag.

Samþykkt samhljóða.

7.Fjárfestingaráætlun 2024

Málsnúmer 202308041Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri (HH) leggur til breytingar á fjárfestingaráætlun ársins 2024.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög að breytingum á fjárfestingaráætlun 2024 í samræmi við fyrirliggjandi minnisblað.

Samþykkt samhljóða.

8.Hleðslustöðvar í Múlaþingi

Málsnúmer 202309071Vakta málsnúmer

Fyrir liggur innra minnisblað þar sem farið er yfir stöðu málsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fallið verði frá fyrirhuguðu útboði á svæði til reksturs hleðslustöðva, á grundvelli athugasemda sem gerðar voru við lögmæti ferlisins.

Samþykkt samhljóða.

9.Umsókn um svæði fyrir hleðslustöðvar, Egilsstaðir

Málsnúmer 202309155Vakta málsnúmer

Tekin er fyrir að nýju fyrirspurn frá HS Orku, fyrir hönd InstaVolt Iceland ehf., um að fá úthlutað svæði við Kaupvang á Egilsstöðum fyrir fjórar hraðhleðslustöðvar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda og umhverfismálastjóra að ganga frá samingum við málsaðila á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Í samningi verður meðal annars tekið á frágangi svæðisins við lok gildistíma.

Samþykkt samhljóða.

10.Deiliskipulag, Hafrafell Merkjadalur

Málsnúmer 202103163Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tölvupóstur frá skipulagsráðgjafa, fyrir hönd landeiganda Hafrafells 1 (L156999), þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið fari fram á við Vegagerðina að umfangsmeta þær aðgerðir sem þörf er á til þess að vegtenging við hringveg, norðan Selhöfða, verði heimiluð.
Jafnframt liggur fyrir erindi frá landeigendum Ekkjufells 5 (L199757) þar sem sjónarmið þeirra eru sett fram ásamt ósk um að umhverfis- og framkvæmdaráð endurskoði fyrri afstöðu sína til vegtengingar á svæðinu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð stendur við fyrri afgreiðslu málsins og ítrekar afstöðu sína sem byggir meðal annars á umsögnum Vegagerðarinnar við deiliskipulagstillögu vegna frístundabyggðar í landi Hafrafells 1.
Sú vegtenging sem lögð er til í skipulagstillögunni er ekki æskileg með tilliti til aðstæðna og öryggis vegfarenda eins og fram kemur í mati Vegagerðarinnar þar sem segir að tengingin sé í krappri beygju við syðri enda Urriðavatns. Á þessum stað er aukin hætta á staðbundinni ísingu vegna raka sem getur valdið mikilli hálku á afmörkuðu svæði við fyrirhuguð gatnamót sem gerir þau varasamari en vegamót almennt.
Ráðið getur því ekki fallist á vegtengingu á þessum stað með vísan í umsagnir Vegagerðarinnar og telur æskilegra að tenging að svæðinu verði um Hafrafellsveg eins og Vegagerðin hefur bent á.
Umhverfis- og framkvæmdaráð fer þess á leit við Vegagerðina að skoðaður verði sá möguleiki að hraði verði tekinn niður á þessu svæði með það að markmiði að auka umferðaröryggi á svæðinu.

Ráðið beinir því til landeigenda Ekkjufells 5 að leita til Vegagerðarinnar um það mat sitt að hún hafi ekki uppfyllt ákvæði 1. mgr. 31. gr. Vegalaga nr. 80/2007 og tryggt þeim aðgengi að landareign sinni.

Samþykkt samhljóða.

11.Deiliskipulagsbreyting, Grásteinn Stakkaberg, byggingarreitir og bílgeymslur

Málsnúmer 202407012Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Grásteins/Stakkabergs þar sem bætt er við skilmálum um byggingarreiti og bílgeymslur. Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til málsmeðferðar og grenndarkynningar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi Grásteins/Stakkabergs í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin verði grenndarkynnt fyrir fasteignaeigendum á skipulagssvæðinu í samræmi við gr. 5.8.2 í skipulagsreglugerð.
Málið verður tekið fyrir að nýju að grenndarkynningu lokinni.

Samþykkt samhljóða.

12.Umsókn um frávik frá skipulagsskilmálum, Álfaás

Málsnúmer 202407018Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um heimild til að víkja frá skipulagskilmálum vegna byggingaráforma í landi Álfaáss á Völlum (L225260). Fyrirhuguð áform gera ráð fyrir að viðbygging verði staðsett 10m suður af byggingarreit sem skilgreindur er í deiliskipulagi nr. 2. Áformin fylgja skipulagsskilmálum að öðru leiti.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að víkja frá kröfum 1. og 2. mgr. sömu greinar um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu. Er það gert með vísan til þess að um svo óveruleg frávik sé að ræða í þessu tilviki að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Samþykkt samhljóða.

13.Umsókn um byggingarleyfi, Egilssel 4, 700,

Málsnúmer 202406171Vakta málsnúmer

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur umsókn um byggingarleyfi vegna byggingu íbúðarhúss á lóðinni Egilssel 4 (L205262) á Egilsstöðum.
Áformin eru í samræmi við Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs 2008-2028 en fyrir ráðinu liggur að taka afstöðu til heimildar um frávik frá skipulagsskilmálum deiliskipulags.
Gildandi deiliskipulag íbúðabyggðar við Selbrekku er frá árinu 2004 og með síðari breytingum er á lóðinni gert ráð fyrir byggingarreit bílgeymslu austan megin við íbúðarhús. Á fyrirliggjandi aðaluppdráttum er bílgeymsla teiknuð vestan megin íbúðarhússins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að víkja frá kröfum 1. og 2. mgr. sömu greinar um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu. Er það gert með vísan til þess að um svo óveruleg frávik sé að ræða í þessu tilviki að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Jafnframt byggir ákvörðun ráðsins á því að sama fyrirkomulag er á Egilsseli 2.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 12:20.

Getum við bætt efni þessarar síðu?