Fara í efni

Almenningssamgöngur í Múlaþingi

Málsnúmer 202406020

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 48. fundur - 06.06.2024

Vegagerðin hefur tilkynnt að hún muni ekki framlengja gildandi þjónustusamning við Borgarhöfn ehf. um akstur á leið 95 milli Borgarfjarðar og Egilsstaða. Heimastjórn harmar afstöðu Vegagerðarinnar og telur þetta kaldar kveðjur til Borgfirðinga sem hafa nýtt ferðirnar til að sækja þá þjónustu sem ekki er að fá heima fyrir, s.s. læknisþjónustu og skólaþjónustu og verslun.

Heimastjórn Borgarfjarðar skorar á Vegagerðina að endurskoða þessa ákvörðun og vísar málinu til sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 47. fundur - 06.06.2024

Fyrir liggur frá Vegagerðinni tölvupóstur, dagsettur 4. júní 2024, þar sem tilkynnt er að ekki sé vilji til að framlengja gildandi samning við Borgarhöfn ehf. um akstur á leið 95.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs telur að almenningssamgöngur milli Borgarfjarðar eystra og Egilsstaða séu mjög mikilvægar fyrir samfélagið og ekki hafi orðið breytingar á þörf fyrir flutningsþjónustu sem réttlæti að hún verði lögð af. Heimastjórn beinir því til sveitarstjórnar að taka málið upp við Vegagerðina og stjórnvöld.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 49. fundur - 12.06.2024

Fyrir liggja bókanir frá fundum heimastjórna Borgarfjarðar og Fljótsdalshéraðs, dags. 06.06.2024, varðandi slit á þjónustusamningi við Borgarhöfn ehf um akstur á leið 95 milli Borgarfjarðar og Egilsstaða.

Til máls tóku: Einar Freyr Guðmundsson, Hildur Þórisdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Jónína Brynjólfsdóttir, Þórlaug Alda Gunnarsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Ívar Karl Hafliðason, Berglind Harpa Svavarsdóttir og Hildur Þórisdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir þær áherslur er fram koma í bókunum heimastjórna Borgarfjarðar og Fljótsdalshéraðs og lýsir furðu sinni á þeirri ákvörðun Vegagerðarinnar að fyrirhuguð séu slit á samningi við Borgarhöfn ehf um akstur á leið 95 milli Borgarfjarðar og Egilsstaða. Sveitarstjórn Múlaþings beinir því til Vegagerðarinnar að fallið verði frá þessari ákvörðun og felur sveitarstjóra að koma á fundi með forstjóra Vegagerðarinnar og innviðaráðherra vegna málsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?