Fara í efni

Snjómokstur á Borgarfjarðarvegi

Málsnúmer 202011098

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 2. fundur - 18.11.2020

Heimastjórn Borgarfjarðar vill að vetraropnun verði alla daga vikunnar á Borgarfjarðarvegi nr. 94 um Vatnsskarð eystra. Nú er einungis opnað 6 daga vikunnar, lokað á laugardögum. Eftir sameiningu er um samgöngur innan sveitarfélags að ræða. Formanni heimastjórnar falið að koma erindinu áleiðis.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 6. fundur - 05.03.2021

Heimastjórn ítrekar fyrri bókun sína um málið frá fundi sínum 18.11.20. Jafnframt vill heimastjórn benda á að standi vilji til að Borgarfjörður eystri geti flokkast undir sama atvinnusóknarsvæði og Egilsstaðir er nauðsynlegt að mokstri sé lokið fyrr á morgnana en nú er. Íbúar sveitarfélagsins sækja vinnu í báðar áttir og til að tryggja atvinnuöryggi þessa fólks þarf mokstri að vera lokið 1 ? 2 klst fyrr. Möguleg lausn gæti falist í því að senda tvo bíla af stað til moksturs á Borgarfjarðarvegi svo opnun Vatnsskarðs eystra þurfi ekki að bíða eftir að mokstri sé lokið í báðar áttir milli Egilsstaða og Eiða. Smþykkt að vísa málinu til sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Múlaþings - 9. fundur - 10.03.2021

Til máls tóku: Eyþór Stefánsson, Þröstur Jónsson, Jakob Sigurðsson, Stefán Bogi Sveinsson, Hildur Þórisdóttir, Jakob Sigurðsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir.

Fyrir lágu bókanir heimastjórnar Borgarfjarðar varðandi snjómokstur á Borgarfjarðarvegi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Borgarfjarðar varðandi það að vetraropnun verði alla daga vikunnar á Borgarfjarðarvegi um Vatnskarð eystra.
Sveitarstjóra falið að koma erindinu á framfæri við Vegagerðina.

Sveitarstjórn tekur jafnframt undir með heimastjórn um mikilvægi þess að snjómokstri innan sveitarfélagsins sé lokið fyrr til að tryggja að sveitarfélagið geti sem mest talist eitt atvinnusóknarsvæði. Sveitarstjórn felur umhverfis- og framkvæmdaráði að taka þann þátt til skoðunar í samhengi við snjómokstur Vegagerðarinnar víðar í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 20. fundur - 28.04.2021

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja bókanir frá heimastjórn Borgarfjarðar og sveitastjórn er varða snjómokstur milli þéttbýliskjarna í sveitarfélaginu. Sveitastjórn hefur falið umhverfis- og framkvæmdaráði að skoða tímasetningar snjómoksturs með tillit til þess að sveitarfélagið geti talist eitt atvinnusóknarsvæði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur formanni ráðsins og framkvæmda- og umhverfismálastjóra að falast eftir fundi við Vegagerðina þar sem farið verður yfir stöðu þessara mála. Fyrir þann fund verði kallað eftir upplýsingum frá starfsfólki sveitarfélagsins og íbúum í dreifbýli.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 18. fundur - 06.12.2021

Heimastjórn Borgarfjarðar vill ítreka ósk sína um endurskoðun á fyrirkomulagi vetraropnunar á Borgarfjarðarvegi nr. 94. Heimastjórn bendir á að ótækt sé að samgöngur séu ekki tryggðar innan sveitarfélags. Mikilvægt er fyrir íbúa sem sækja vinnu til og frá Borgarfirði og atvinnurekendur á svæðinu að hægt sé að komast ferða sinna alla daga vikunnar.

Heimastjórn beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að koma ofangreindu á framfæri og hún þrýsti á stjórnvöld um að heimila Vegagerðinni að breyta þjónustuflokkum á vegum sem liggja innan fjölkjarna sveitarfélaga. Þá óskar heimastjórn jafnframt eftir kostnaðarmati frá Vegagerðinni hvað þjónustuaukning myndi kosta.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 41. fundur - 15.12.2021

Fyrir ráðinu liggur að fjalla um fyrirkomulag við vetrarþjónustu á vegum í sveitarfélaginu. Fyrir liggur erindi frá foreldraráði Brúarásskóla, auk annarra ábendinga um vetrarþjónustu bæði í dreifbýli og þéttbýli.
Fræðslustjóri Múlaþings og verkstjóri áhaldahúss tóku þátt í umræðu undir þessum lið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að óska eftir fundi með Vegagerðinni um fyrirkomulag vetrarþjónustu og mögulegar úrbætur þar á. Jafnframt er samþykkt að óska eftir því við fræðslustjóra Múlaþings að kallað verði eftir upplýsingum frá skólabílstjórum um þá staði þar sem mestra úrbóta er þörf, einkum er varðar hálkuvarnir. Ráðið felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að uppfæra fyrirliggjandi kort um forgangsröðun snjómoksturs á götum og gangstígum í þéttbýli og láta birta á vef sveitarfélagsins.

Málið er áfram í vinnslu og verður tekið fyrir á ný á næsta fundi ráðsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gestir

  • Kári Ólason - mæting: 08:30
  • Helga Guðmundsdóttir - mæting: 08:30

Sveitarstjórn Múlaþings - 19. fundur - 12.01.2022

Fyrir lá bókun frá fundi heimastjórnar Borgarfjarðar, dags. 06.12.2021, þar sem því er m.a. beint til sveitarstjórnar að því verði komið á framfæri við stjórnvöld að fyrirkomulagi vetraropnunar á Borgarfjarðarvegi verði endurskoðað.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Borgarfjarðar varðandi það að mikilvægt sé að samgöngur séu tryggðar innan sveitafélagsins alla daga vikunnar þegar slíkt er mögulegt. Jafnframt leggur sveitarstjórn Múlaþings áherslu á að Vegagerðinni verði heimilað að breyta þjónustuflokkun á vegum er liggja innan fjölkjarnasveitarfélaga. Sveitarstjóra falið að koma framangreindu á framfæri við fulltrúa Vegagerðarinnar og ráðherra samgöngumála.

Til máls tóku: Eyþór Stefánsson, Jakob Sigurðsson, Hildur Þórisdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 43. fundur - 19.01.2022

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri kynnti stöðu máls.

Máli frestað til næsta fundar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 44. fundur - 26.01.2022

Framkvæmda- og umhverfismálastjóri fer yfir stöðu málsins en það var áður til umfjöllunar á fundi ráðsins 15. desember 2021.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð telur einsýnt að endurskoða þurfi frá grunni það regluverk sem gildir um vetrarþjónustu og framkvæmd hennar. Ráðið telur óeðlilegt að yfir höfuð fyrirfinnist reglur sem velta kostnaði af vetrarþjónustu á vegum sem Vegagerðin er veghaldari á yfir á sveitarfélög og íbúa þeirra, svo sem með hinum svokallaða helmingamokstri. Þá telur ráðið brýnt að tekið sé tillit til þess í vetrarþjónustu þegar um er að ræða tengingu byggðarlaga við þjónustukjarna og innan sama atvinnusvæðis. Einkum á þetta við um vegtengingar innan sveitarfélags og einnig skólaakstursleiðir, enda skal börnum lögum samkvæmt komið í skóla fimm daga vikunnar. Þá telur ráðið fulla ástæðu til þess að benda á að aðstæður eru mjög misjafnar eftir landsvæðum þegar kemur að úrkomu og aðstæðum á vegum og leggur áherslu á að þjónusta og regluverk þar um taki tillit til þess. Ákvarðanir um þjónustustig sem byggja einkum á umferðartölum ná ekki utan um þessa þætti og geta því hæglega skapað mikið ójafnræði milli landsvæða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 22. fundur - 09.05.2022

Fyrir liggja minnispunktar frá fundum heimastjórnar Fljótsdalshéraðs í Brúarásskóla, Félagsheimilinu Arnhólsstöðum og Eiðum, 25. og 26. apríl 2022.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs leggur til að framkvæmda- og umhverfismálastóri mæti á fund heimastjórnar til að fara yfir skipulag vetrarþjónustu á vegum í dreifbýli. Lagt er til að verkefnið verði áfram á hendi næstu heimastjórnar sem fylgi málinu eftir. Varðandi snjóhreinsun skiptir miklu máli að upplýsingar um stöðu snjóhreinsunar hverju sinni séu sem aðgengilegastar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 23. fundur - 27.06.2022

Fyrir liggja minnispunktar frá fundum heimastjórnar Fljótsdalshéraðs í Brúarásskóla, Félagsheimilinu Arnhólsstöðum og Eiðum, 25. og 26. apríl 2022.

Á fundi heimastjórnar Fljótsdalshéraðs 9.5. 2022 var eftirfarandi bókað:
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs leggur til að framkvæmda- og umhverfismálastóri mæti á fund heimastjórnar til að fara yfir skipulag vetrarþjónustu á vegum í dreifbýli. Lagt er til að verkefnið verði áfram á hendi næstu heimastjórnar sem fylgi málinu eftir.

Á fundinum undir þessum lið sat Hugrún Hjálmarsdóttir, umhverfis- og framkvæmdastjóri Múlaþings.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs leggur þunga áherslu á aukna vegþjónustu og uppbyggingu vega í dreifbýli og beinir því til sveitarstjórnar að teknar verði upp viðræður við stjórnvöld um tilhögun uppbyggingar og bættrar vegþjónustu í víðfeðmu sveitarfélagi. Þetta er mikilvægt með hliðsjón af jöfnun aðstöðu íbúa eftir búsetu og eflingu byggðar í dreifbýli og fellur vel að markmiðum byggðaáætlunar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Byggðaráð Múlaþings - 55. fundur - 05.07.2022

Fyrir liggur bókun fundar heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, dags. 27.06.2022, þar sem tekið var m.a. fyrir vetrarþjónusta í dreifbýli og milli byggðakjarna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings tekur undir með heimastjórn Fljótsdalshéraðs varðandi mikilvægi þess að bæta vegþjónustu og uppbyggingu vega í okkar víðfeðma sveitarfélagi. Þannig verði stefnt að jöfnun aðstöðu íbúa burtséð frá búsetu og þar með eflingu byggðar í dreifbýli. Byggðaráð telur æskilegt að koma á sameiginlegum fundi þar sem sætu fulltrúar sveitarfélagsins, forstjóri og stjórnendur Vegagerðarinnar og innviðaráðherra þar sem þessi mál verði rædd m.a. með hliðsjón af áherslum byggðaáætlunar. Byggðaráð felur sveitarstjóra að koma framangreindu á framfæri við ráðherra og stjórnendur Vegagerðarinnar með ósk um að stefnt verði að umræddum fundi fyrir lok ágústmánaðar.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 29. fundur - 03.11.2022

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að kaflinn milli Unaóss og Borgarfjarðar sé opinn frá 09:30 - 19:30 alla virka daga og frá 11:00 - 19:00 á sunnudögum. Ekki er mokað á laugardögum.

Heimastjórn vill koma eftirfarandi á framfæri:

Þær tímasetningar sem gefnar eru upp á heimasíðu Vegagerðarinnar eru langt frá því að lýsa því hvernig raunverulega er staðið að opnun leiðarinnar. Mokstri er hætt nær undantekningalaust 16:30 og þegar er snjóþungt er leiðin sjaldnast orðin fær 09:30. Heimastjórn skorar á Vegagerðina að standa a.m.k. við það sem stendur á þeirra eigin heimasíðu (sjá hlekk).

https://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/leidbeiningar-og-stadlar/vetrarthjonusta/vinnureglur/b798047fbfb22f080025714700757331?OpenDocument

Heimastjórn vill koma aftur á framfæri þeim sjónarmiðum að þegar mokstur hefst ekki fyrr á morgnana en raun ber vitni er illmögulegt að sækja vinnu til og frá Borgarfirði líkt og gert er. Mikilvægt er að hefja mokstur fyrr til að stækka sameiginlegt atvinnusóknarsvæði Múlaþings.

Þá er algjörlega ótækt að ekki sé opnað á laugardögum. Atvinnuþróun á Borgarfirði hefur orðið með þeim hætti að ferðaþjónusta og viðburðahald verður símikilvægari stoð á svæðinu. Ekki síst vegna þessa er nauðsynlegt að opna á laugardögum til að hægt sé að lengja tímabil þessarar starfsemi. Þar að auki er ekki fólki bjóðandi að komast ekki í heilbrigðisþjónustu á laugardögum.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 36. fundur - 08.06.2023

Fyrir liggja minnispunktar um vetrarþjónustu á vegum í dreifbýli frá samtalsfundum sem heimastjórn Fljótsdalshéraðs hélt með íbúum í apríl og maí síðast liðnum.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs fagnar því sem fram kom á íbúafundunum um að vetrarþjónusta á vegum hefði batnað milli ára. Heimastjórnin beinir því til umhverfis- og framkvæmdaráðs að vinna úr þeim athugasemdum sem fram komu á fundunum og vinna að frekari samhæfingu varðandi snjóhreinsun og hálkuvarnir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 90. fundur - 14.08.2023

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur bókun frá heimastjórn Fljótsdalshéraðs þar sem því er beint til umhverfis- og framkvæmdaráðs að vinna úr þeim athugasemdum sem fram komu á íbúafundum heimastjórnar varðandi hálkuvarnir og snjóhreinsun.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að óska eftir upplýsingum frá Vegagerðinni varðandi fyrirkomulag snjóhreinsunar og hálkuvarna á komandi vetri.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 39. fundur - 11.09.2023

Fyrir liggur greining á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar byggð á gögnum af heimasíðu hennar og Hagstofunnar.

Í greiningunni kemur fram að Borgarfjörður er eini þéttbýliskjarni landsins þar sem þarf um fjallveg að fara og nýtur ekki daglegrar vetrarþjónustu.

Vill heimastjórn árétta mikilvægi vetrarþjónustu fyrir ferðaþjónustu, atvinnu og atvinnusókn.

Það er krafa heimastjórnar að Borgarfjarðarvegur nr. 94 verði opnaður alla daga vikunnar í stað sex.

Formanni og starfsmanni heimastjórnar falið að koma ofangreindu sem og niðurstöðum greiningarinnar á framfæri við stjórnendur Vegagerðarinnar.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?