Fara í efni

Heimastjórn Djúpavogs

59. fundur 10. apríl 2025 kl. 13:00 - 13:59 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Guðný Lára Guðrúnardóttir formaður
  • Ingi Ragnarsson aðalmaður
  • Oddný Anna Björnsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Eiður Ragnarsson fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Eiður Ragnarsson fulltrúi sveitarstjóra

1.Beiðni um afnot af landi í eigu Múlaþings.

Málsnúmer 202503223Vakta málsnúmer

Hestamannafélagið Glampi biður um að fá afnot af landi sveitarfélagsins innan við Æðarsteinstanga að Sandbrekkuvík, undir hesta félagsmanna.
Heimastjórn samþykkir fyrir sitt leiti að hestamannafélagið fái afnot af svæðinu. Hestamannafélagið verður að tryggja að girt verði með þeim hætti að hestar sleppi ekki út, því að stutt er í þjóðveginn. Gerður verður samningur til tveggja ára með möguleika á framlengingu.

Erindinu vísað til Byggðarráðs.

Samþykkt samhljóða.

2.Samfélagsverkefni heimastjórna 2025

Málsnúmer 202412125Vakta málsnúmer

Búið er að kostnaðargreina nokkrar af þeim hugmyndundum um samfélagsverkefni sem sendar voru inn eftir auglýsingu heimstjórnar.
Heimastjórn þakkar íbúum fyrir góðar hugmyndir, þá sérstaklega nemendum grunnskólans og að sjálfsögðu Þorrablótsnefndinni sem lagði til 863 þúsund krónur sem er uppsafnaður hagnaður af þorrablótum undanfarinna ára.

Heimastjórn fór vel yfir og kostnaðargreindi verkefnin og var niðurstaðan að veita tveggja milljóna króna samfélagsstyrknum, ásamt framlagi Þorrablótsnefndar, í fjögur ólík verkefni.

Má þar fyrst nefna uppbyggingu í Íþróttamiðstöð Djúpavogs (infrarauður sánaklefi, hefðbundinn sánaklefi, kalt kar, skolsturta og geymslurekki) en í það verkefni verður einnig nýttur 200 þúsund króna styrkur frá Kvenfélaginu og 700 þúsund króna ágóði happdrættisins á Októberfest 2024. Þeim var einnig veitt í kaup á fjölbreyttum vatnsleiktækjum fyrir sundlaugina og rennibraut fyrir busllaugina. Samtals fær Íþróttamiðstöðin 1.850.000.- í þessi verkefni úr samfélagsjóðnum.

Fjórða verkefnið er endurbygging og lagfæring á göngustígnum upp Klifið. 1.073.229.-

Samþykkt samhljóða.

3.Djúpavogsflugvöllur

Málsnúmer 202410056Vakta málsnúmer

Farið yfir þá möguleika sem hafa verið skoðaðir varðandi aðgengi að söndunm utan við Djúpavog.
Komnar fram nokkrar hugmyndir að lausn, málið er áfram í vinnslu.

Starfsmanni heimstjórnar falið að vinna málið áfram.

Samþykkt samhljóða.

4.Íbúafundur Heimastjórnar Djúpavogs.

Málsnúmer 202202045Vakta málsnúmer

Íbúafundur heimastjórnar Djúpavogs er fyrirhugaður þann 8 maí kl 17:00 á Hótel Framtíð
Heimastjórn hvetur alla íbúa til að mæta.
Dagskrá verður send út þegar nær dregur.

Stefnt er að fundum í sveitunum í júní.

Samþykkt samhljóða.

5.Leikskólinn Bjarkatún, viðbygging

Málsnúmer 202502050Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frumhönnun og verkáætlun 1. áfanga við leiskskólann Bjarkatún.

6.Úttekt á stöðu fjarskiptamála á Austurlandi - Fjarskiptaáætlun Austurlands 2024-2025

Málsnúmer 202502184Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla Austurbrúar um fjarskiptamál á austurlandi.
Heimastjórn bendir á að í ljósi síaukinnar umferðar um Axarveg og aðra þjóðvegi í gamla Djúpavogshreppi þurfi að stórbæta farsímafjarskipti. Stórir kaflar á Axarvegi og á þjóveginum um Hamarsfjörð og Álftafjörð eru með engu eða lélegu fjarskiptasambandi og úr því þarf að bæta strax.

Benda má á að Axarvegur er metinn hættulegasti vegur landsins miðað við ekna kílómetra og kaflar í Hamarsfirði og Álftafirði eru 11. í röðinni miðað við sömu reiknireglu.

Heimastjórn vill beina því til sveitarstjórnar að ýtt verði á eftir úrbótum sem allra fyrst enda um mikið öryggismál að ræða, fyrir vegfarendur og viðbragðsaðila.

Samþykkt samhljóða.

7.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi

Málsnúmer 202209244Vakta málsnúmer

Hitavatnsleit:
Búið er að bora 2 nýjar tilraunaholur og voru starsfmenn ISOR hér í siðustu viku að vinna við mælingar á þeim holum ásamt mælingum á tveim eldri holum. Vonast er til að hægt verði að staðsetja heita vatnið betur og huga að vinnsluholu í kjölfarið.

Höfnin:
Loksins sér fyrir endan á framkvæmdum við höfnina, búið er að klára að ganga frá vatni og einungis lokafrágangur á rafmagni eftir. Búið er að stilla upp fyrir steypu á hafnarhúsi sem rísa á fyrir miðjan maí og mæla fyrir því malbiki sem leggja á í sumar.

Vatnsveita:
Gert er ráð fyrir því að öflugri dælubúnaður verði kominn fyrir miðjan apríl og ráðist verður strax í uppsetningu, þannig að neysluvatnsholur við Búlandsá fari að nýtast bæjarbúum.

Grunnskólinn:
Vinna er hafin við þakviðgerðir á grunnskólanum, en skipta á um járn og laga þakkanta í sumar.

Leikskólinn:
Stækkun leikskólans er í undirbúningi. Búið er að gera frumhönnun og verkáætlun og gert er ráð fyrir því að vinna við viðbyggingu hefjist í haust.

Hammaond hátíð:
Undirbúningur er í fullum gangi og Cittaslow ráðið komið með drög að metnaðarfullri utandagskrá.

8.Fundir Heimastjórnar Djúpavogs

Málsnúmer 202010614Vakta málsnúmer

Næsti fundur heimastjórnar Djúpavogs verður haldinn fimmtudaginn 8. maí kl. 13:00. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast starfsmanni heimastjórnar fyrir kl 16:00 föstudaginn 2. maí á netfangið eidur.ragnarsson@multhing.is

Fundi slitið - kl. 13:59.

Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd