Fara í efni

Byggðaráð Múlaþings

27. fundur 06. júlí 2021 kl. 08:30 - 12:30 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður
  • Gauti Jóhannesson varaformaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Vilhjálmur Jónsson aðalmaður
  • Eyþór Stefánsson aðalmaður
  • Jódís Skúladóttir áheyrnarfulltrúi
  • Þröstur Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Björn Ingimarsson sveitarstjóri
  • Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri
  • Inga Þorvaldsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Björn Ingimarsson sveitarstjóri

1.Fjármál 2021

Málsnúmer 202101001Vakta málsnúmer

Fjármálastjóri fór yfir og kynnti mál er varða fjármál og rekstur sveitarfélagsins.

2.Fjárhagsáætlun Múlaþings 2022 - 2025

Málsnúmer 202105150Vakta málsnúmer

Fjármálastjóri og sveitarstjóri kynntu tillögu að rammaáætlun fjárhagsáætlunar Múlaþings 2022 og þriggja ára áætlunar 2023 til 2025.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð samþykkir rammaáætlunina eins og hún liggur fyrir fundinum og vísar henni til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar á komandi hausti.

Samþykkt samhljóða.

3.Skriðuföll á Seyðisfirði

Málsnúmer 202012168Vakta málsnúmer

Fyrir lágu upplýsingar varðandi Hafnargötu 40b, bréf frá íbúum er höfðu búið í húsnæði við Hafnargötu sem ekki er lengur heimilt að búa í og tillögur ráðgjafanefndar um færslu húsa á Seyðisfirði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra að láta bregðast við varðandi Hafnargötu 40b og erindi frá íbúum í samræmi við umræðu á fundinum. Á grundvelli niðurstaðna ráðgjafanefndar um færslu húsa á Seyðisfirði samþykkir byggðaráð að fela sveitarstjóra að láta vinna forgangsröðun á færslu húsa ásamt kostnaðarmati. Horft verði m.a. til fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á hafnarsvæði í þeirri vinnu. Að verkefninu komi auk sveitarstjóra m.a. framkvæmda- og umhverfismálastjóri og fulltrúi úr heimastjórn Seyðisfjarðar. Er niðurstaða úr þessari vinnu liggur fyrir verður hún lögð fyrir byggðaráð til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

4.Aðalskipulagsbreyting, Davíðsstaðir

Málsnúmer 202103148Vakta málsnúmer

Fyrir lá bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 30.06.2021, er snýst um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 varðandi landnotkun á Davíðsstöðum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir byggðaráð Múlaþings fyrirliggjandi skipulagstillögu er snýst um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 varðandi landnotkun á Davíðsstöðum. Skipulagsfulltrúa Múlaþings falið að koma afgreiðslunni á framfæri.

Samþykkt samhljóða.

5.Aðalskipulagsbreyting, Seyðisfjörður, Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202105090Vakta málsnúmer

Fyrir lá bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 30.06.2021, er snýst um skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar vegna Fjarðarheiðarganga

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir byggðaráð Múlaþings að fyrirliggjandi skipulags- og matslýsing vegnar breytinga á aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar verði auglýst og kynnt. Skipulagsfulltrúa Múlaþings falið að sjá um framkvæmd þess.

Samþykkt samhljóða.

6.Fundargerðir stjórnar Ársala 2021

Málsnúmer 202102141Vakta málsnúmer

Fyrir lá fundargerð stjórnar Ársala bs., dags. 01.07.2021.

Lagt fram til kynningar.

7.Ársfundur Austurbrúar ses

Málsnúmer 202105234Vakta málsnúmer

Fyrir lá fundargerð ársfundar Austurbrúar ses., dags 03.06.2021.

Lagt fram til kynningar.

8.Fundagerðir Cruise Iceland - Stjórnarfundir, Aðalfundur

Málsnúmer 202105147Vakta málsnúmer

Fyrir lá fundargerð aðalfundar Cruise Iceland, dags. 03.06.2021.

Lagt fram til kynningar.

9.Ályktun á aðalfundi Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði 28. maí 2021

Málsnúmer 202106184Vakta málsnúmer

Fyrir lá ályktun frá stjórn Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði, dags. 28.05.2021, þar sem því er beint til sveitarstjórnar að huga að byggingu á hentugu húsnæði fyrir eldra fólk auk þess að lögð er á það áhersla að Öldungaráð verði virkjað hið fyrsta.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa framkominni ályktun til Öldungaráðs Múlaþings til frekari umfjöllunar.

Samþykkt samhljóða.

10.Úttekt á Brunavörnum Austurlands

Málsnúmer 202106166Vakta málsnúmer

Fyrir lá úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á starfsemi brunavarna Múlaþings með ósk um svar frá sveitarfélaginu með áætlun um úrbætur við framkomnum athugasemdum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa úttektinni til slökkviliðsstjóra með beiðni um að aðgerðaráætlun verði lögð fyrir byggðaráð á komandi hausti.

Samþykkt samhljóða.

11.Varanleg braut fyrir mótocross

Málsnúmer 202102098Vakta málsnúmer

Fyrir lágu bókanir umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 17.02.2021, og heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, dags. 21.06.2021, varðandi svæði fyrir akstursíþróttir á landi í eigu ríkisins í Eyvindarárdal á Fljótsdalshéraði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til fyrirliggjandi afgreiðslna Umhverfis- og framkvæmdaráðs og heimastjórnar Fljótsdalshéraðs varðandi aðkomu sveitarfélagsins að útvegun svæðis fyrir akstursíþróttir á landi ríkisins í Eyvindarárdal felur byggðaráð Múlaþings sveitarstjóra að ganga til samninga við Ríkiseignir um gerð leigusamnings um Vallanesafrétt.

Samþykkt samhljóða.

12.Uppbygging og viðhald á íþróttamannvirkjum, samráð við Hött

Málsnúmer 202104302Vakta málsnúmer

Fyrir lá tillaga frá íþróttafélaginu Hetti um breytingar á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028. Breytingin felur í sér að svæðið neðan við Egilsstaðakirkju og utan við Dyngju verði tileinkað uppbyggingu íþróttamannvirkja auk svæðisins um mýrina við Menntaskólann og að Íþróttahúsi.

Inn á fundinn komu undir þessum lið fulltrúar Hattar, þeir Hafþór Atli Rúnarsson og Unnar Erlingsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings þakkar íþróttafélaginu Hetti fyrir framlagðar tillögur og vísar þeim til umhverfis- og framkvæmdaráðs til frekari úrvinnslu.

Samþykkt Samhljóða.

13.Styrkbeiðni, ritun ævisögu Sveins Þórarinssonar

Málsnúmer 202106126Vakta málsnúmer

Fyrir lá erindi frá Jóni Hjaltasyni þar sem óskað er eftir styrk frá Múlaþingi, auk þriggja annarra sveitarfélaga, til að standa straum að kostnaði við ritun ævisögu Sveins Þórarinssonar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings vísar erindinu til atvinnu- og menningarstjóra Múlaþings til frekari skoðunar og umsagnar. Er umsögn liggur fyrir mun málið verða tekið fyrir að nýju í byggðaráði

Samþykkt samhljóða.

14.LungA skólinn, samstarfsbeiðni

Málsnúmer 202012073Vakta málsnúmer

Fyrir lá minnisblað frá fjármálastjóra og verkefnisstjóra á sviði menningarmála varðandi m.a. styrkveitingu sveitarfélagsins til LungA skólans á yfirstandandi ári og mögulega næstu tvö ár. Jafnframt lá fyrir erindi frá LungA skólanum varðandi aðkomu sveitarfélagsins að endurbyggingu nýs húsnæðis fyrir skólann.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Með vísan til þess að LungA skólinn hefur nýlega fengið viðurkenningu sem lýðskóli samþykkir byggðaráð Múlaþings að verða við tillögu fjármálastjóra og verkefnisstjóra á sviði menningarmála að í ár verði kr. 4.000.000,- fluttar á milli deilda af Fjárafl, deild 13810, yfir á LungA skólann, deild 04518, og þannig verði brugðist við styrkbeiðni varðandi yfirstandandi ár. Beiðnum varðandi árin 2022 og 2023 er vísað til frekari umfjöllunar á fræðslusviði samhliða fjárhagsáætlunargerð.

Samþykkt samhljóða.

15.Erindi vegna listasafns fyrir alþjóðlega myndlist - Vogaland 5 Djúpavogi

Málsnúmer 202012050Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum milli aðila varðandi aðkomu Ars Longa að uppbyggingu listasafns fyrir alþjóðlega myndlist á Djúpavogi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að vinna áfram að lausn málsins í samræmi við umræðu á fundinum.

Samþykkt samhljóða.

16.Lóð Merki Borgarfirði eystra

Málsnúmer 202104009Vakta málsnúmer

Fyrir lá minnisblað frá lögfræðingi Múlaþings varðandi lóð í landi Merkis og ræktunarlóð við Álfaborg á Borgarfirði eystra.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að láta ganga frá afgreiðslu málsins í samræmi við tillögur er fram koma í fyrirliggjandi minnisblaði.

Samþykkt samhljóða.

17.Skýrsla vegna barna með fjölþættan vanda - athugasemdir til ráðuneytis frá stjórnendum í velferðarþjónustu á Íslandi

Málsnúmer 202105257Vakta málsnúmer

Fyrir lá bókun frá fundi fjölskylduráðs Múlaþings, dags. 22.06.2021, þar sem fram kemur m.a.:
„Bæta þarf geðþjónustu um allt land og vinna með snemmtækum hætti að geðrænum vanda barna og ungmenna.
Ef göfug markmið farsældarfrumvarpsins eiga að nást, er mikilvægt að barnaverndarstarfsmenn geti gengið að úrræðum fyrir þau börn sem höllustum fæti standa. Eins og fyrirkomulagið er orðið í dag, fer of mikill tími og fjármunir í úrræði sem sveitarfélög eiga ekki að bera, á kostnað þess að vinna á fyrirbyggjandi hátt að málefnum barna með minni vanda.“

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð tekur undir þær áherslur er fram koma í bókun fjölskylduráðs Múlaþings, dags. 22.06.2021, er varða stöðu barna með fjölþættan vanda. Sveitarstjóra falið að koma áherslum sveitarfélagsins á framfæri við félags- og barnamálaráðherra.

Samþykkt samhljóða.

18.Áskorun til stjórnvalda vegna krabbameinsdeildar á Landsspítala

Málsnúmer 202106167Vakta málsnúmer

Fyrir lá áskorun frá Krabbameinsfélagi Íslands, dags. 29.05.2021, til stjórnvalda um að leggjast á árar með félaginu um að setja uppbyggingu fyrsta flokks framtíðaraðstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga í forgang.

Lagt fram til kynningar.

19.Gjaldtaka í Hafnarhólma

Málsnúmer 202104294Vakta málsnúmer

Fyrir lá tillaga heimastjórnar Borgarfjarðar, dags. 05.07.2021, að gjaldskrá vegna gjaldtöku í Hafnarhólma.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir fyrirliggjandi tillögu að gjaldskrá vegna gjaldtöku í Hafnarhólma og felur fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði að koma henni í kynningu og framkvæmd.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?