Fara í efni

Reglur um gististaði

Málsnúmer 202112197

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 56. fundur - 16.08.2022

Fyrir liggur minnisblað frá skrifstofustjóra þar sem lagt er til að skoðað verði að gera reglur um gististaði í Múlaþingi auk þess sem óskað er eftir upplýsingum um hvaða stefnu kjörnir fulltrúar vilja hafa um málið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð mun taka afstöðu til málsins að undangenginni umræðu innan framboða er eiga fulltrúa í sveitarstjórn og fagráðum sveitarfélagsins. Æskilegt er að niðurstöður framboða liggi fyrir eigi síðar en um miðjan september.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 64. fundur - 25.10.2022

Inn á fundinn kom Sóley Valdimarsdóttir ritari á umhverfis- og framkvæmdasviði og fór yfir hugmyndir að gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing.

Í vinnslu.

Gestir

  • Sóley Valdimarsdóttir - mæting: 09:35

Byggðaráð Múlaþings - 76. fundur - 28.02.2023

Fyrir liggja hugmyndir varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa hugmyndum varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing til umsagnar í heimastjórnum. Reglur um gististaði fyrir Múlaþing verða teknar til afgreiðslu í byggðaráði er umsagnir liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 33. fundur - 02.03.2023

Fyrir liggja hugmyndir varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing.

Byggðarráð samþykkti á fundi sínum 28. febrúar síðastliðinn eftirfarandi bókun:
"Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa hugmyndum varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing til umsagnar í heimastjórnum. Reglur um gististaði fyrir Múlaþing verða teknar til afgreiðslu í byggðaráði er umsagnir liggja fyrir."

Framkomnar hugmyndir ná til gististaða í flokki II skv. reglugerð nr. 1277/2016 sem eru gististaðir án veitinga. Af þeim hugnast heimastjórn Borgarfjarðar best fyrirkomulag sem er viðhaft á Seyðisfirði og felur í sér að liggja þurfi fyrir jákvæðar umsagnir vegna umsókna um rekstrarleyfi ásamt uppfylltum skilyrðum um bílastæði, merkingar utanhúss, ekki truflandi áhrif á íbúabyggð sem fyrir er og grenndarkynning.

Samþykkt samhljóða án athugasemda.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 32. fundur - 08.03.2023

Fyrir fundinum liggur bókun byggðaráðs Múlaþings þar sem samþykkt er að vísa hugmyndum varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing til umsagnar í heimastjórnum.

Heimastjórn bendir á að gisting í flokki II skv. reglugerð nr. 1277/2016 sem eru gististaðir án veitinga flokkast skv. lögum sem atvinnurekstur og krefst rekstrarleyfis. Slík leyfi lúta skipulagi sveitarfélaga. Heimastjórn telur að fylgja beri flokkun landnotkunar skv. skipulagi, því eigi ekki að vera heimilt að breyta notkun íbúðarhúsnæðis í atvinnurekstur á skilgreindum (hreinum) íbúðasvæðum. Sé um blandaða landnotkun að ræða gilda aðrar forsendur enda liggi fyrir jákvæðar umsagnir vegna umsóknar um rekstrarleyfi frá umsagnaraðilum, ásamt því að uppfyllt verði skilyrði um bílastæði, merkingar utanhúss og að starfsemin hafi ekki truflandi áhrif á íbúabyggð sem fyrir er. Með lögum um heimagistingu er eigendum íbúðahúsnæðis innan skilgreindra íbúðasvæða gefinn kostur á að nýta húsnæði til sölu gistingar með tilheyrandi mörkum og telur heimastjórn því að reglur Múlaþings geti ekki gengið lengra í þeim efnum.

Heimastjórn Seyðisfjarðar minnir á að skortur á íbúðarhúsnæði hefur verið viðvarandi í nokkurn tíma og því mikilvægt að standa vörð um það íbúðarhúsnæði sem þegar er til staðar. Samþykkt Seyðisfjaðarkausptaðar um breytta notkun íbúðarhúsnæðis á Seyðisfirði frá 2016 segir m.a. að útleiga íbúðarhúsnæðis til gistingar í flokki II sé óheimil, nema þar sem aðal- og deiliskipulag leyfa.

Varðandi "Verkferill við afgreiðslu rekstrarleyfisumsókna", telur heimastjórn að orða lið 3: Heimastjórn veitir umsögn og skilar til sýslumanns þegar umsagnir eftirtalinna aðila (telja upp aðila) hafa borist. Jafnframt væri gott væri að tími afgreiðsluferilsins sé skilgreindur í verkferlinu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 35. fundur - 09.03.2023

Fyrir fundinum liggur bókun byggðaráðs Múlaþings þar sem samþykkt er að vísa hugmyndum varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing til umsagnar í heimastjórnum og að reglur um gististaði fyrir Múlaþing verði teknar til afgreiðslu í byggðaráði er þær umsagnir liggja fyrir.

Heimastjórn á Djúpavogi gerir ekki athugasemdir við framlagðar hugmyndir að reglum um gististaði án veitinga í flokki II. Heimastjórn leggur áherslu á að jákvæðar umsagnir vegna umsókna á íbúðarsvæðum í þéttbýli samkv. aðalskipulagi séu háðar skilyrðum s.s. að gisting sé á einkaheimili gistisöluaðila.
Í framlögðum hugmyndum kemur fram að ámarksfjöldi herbergja verði 5, hámarksfjöldi gesta 10 og að bílastæði séu næg. Jafnframt að samþykktar teikningar sem sýna gistingu í íbúðarherbergjum séu til staðar og að kynningu fyrir nágrönnum sé lokið þar sem þeim gefst tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Samþykkt samhljóða.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 32. fundur - 10.03.2023

Fyrir liggja hugmyndir varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing og ná til gististaða í flokki II skv. reglugerð nr. 1277/2016 sem eru gististaðir án veitinga.

Eftirfarandi bókun var gerð í byggðaráði 28.2. 2023:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa hugmyndum varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing til umsagnar í heimastjórnum. Reglur um gististaði fyrir Múlaþing verða teknar til afgreiðslu í byggðaráði er umsagnir liggja fyrir.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs er sammála um að unnar séu samræmdar reglur um gististaði í Múlaþingi. Heimastjórn leggur til að ekki sé heimiluð gisting í íbúðahverfum sem útheimtir rekstrarleyfi.

Sqamþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Byggðaráð Múlaþings - 79. fundur - 21.03.2023

Fyrir liggja umsagnir heimastjórna varðandi gerð reglna um gististaði fyrir Múlaþing og ná til gististaða í flokki II skv. reglugerð nr. 1277/2016 sem eru gististaðir án veitinga.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings felur verkefnastjóra skipulagsmála og verkefnastjóra fjármála á umhverfis- og framkvæmdasviði að uppfæra tillögur að reglum Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins í samræmi við fyrirliggjandi ábendingar heimastjórna. Uppfærðar tillögur að reglum verði lagðar fyrir byggðaráð til afgreiðslu er þær liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 84. fundur - 16.05.2023

Fyrir liggja tillögur að reglum Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins.

Í vinnslu.

Byggðaráð Múlaþings - 85. fundur - 23.05.2023

Undir þessum lið tengdist inn á fundinn Sóley Valdimarsdóttir, verkefnastjóri skipulagsmála, og fór yfir tillögur að reglum Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir fyrirliggjandi reglur um gististaði innan sveitarfélagsins og felur verkefnastjóra skipulagsmála að koma þeim í framkvæmd.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Gestir

  • Sóley Valdimarsdóttir - mæting: 09:13

Byggðaráð Múlaþings - 117. fundur - 21.05.2024

Fyrir liggur tillaga að breyttum reglum Múlaþings um gististaði er byggja á breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er samþykkt hefur verið á Alþingi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir fyrirliggjandi reglur Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins og felur skrifstofustjóra að sjá til þess að þær verði virkjaðar og kynntar.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?