Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

41. fundur 07. desember 2023 kl. 12:30 - 17:00 á skrifstofu sveitarfélagsins, Seyðisfirði
Nefndarmenn
  • Björg Eyþórsdóttir formaður
  • Jón Halldór Guðmundsson aðalmaður
  • Margrét Guðjónsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Dagný Erla Ómarsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Dagný Erla Ómarsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Í upphafi fundar bar formaður upp tillögu um að mál nr. 11, Hreindýraarður 2023 yrði bætt við dagskrá fundarins. Enginn gerði athugasemd við tillöguna og skoðast hún samþykkt.

1.Lýsing í íþróttahúsinu á Seyðisfirði

Málsnúmer 202310007Vakta málsnúmer

Heimastjórn heimsótti íþróttahúsið á Seyðisfirði og fékk góða yfirferð hjá forstöðumanni á húsinu á starfseminni og því viðhaldi sem bíður. Lýsingar standa til bóta, skipt verður um ljós í íþróttasalnum á næstu vikum og framkvæmdir við lýsingu á göngum og klefum í kjölfarið. Einnig er á áætlun að pússa upp og
lakka gólfið í íþróttasalnum næsta sumar. Viðhaldi í íþróttahúsinu hefur verið ábótavant og telur heimastjórn mikilvægt að þeim framkvæmdum verði fylgt eftir á markvissan hátt.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Fundir sveitarstjórnar, ráða og heimastjórna janúar til júlí 2024

Málsnúmer 202311115Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lágu drög að fundadagatali sveitarstjórnar, ráða og heimastjórna janúar til júlí 2024.

Heimastjórn gerir ekki athugasemdir við fundadagatalið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Bundið slitlag á fjölfarna vegi í sveitum Múlaþings

Málsnúmer 202311113Vakta málsnúmer

Að mati heimastjórnar Seyðisfjarðar er viðhaldi vega beggja megin fjarðar ekki nógu vel sinnt. Ferðaþjónusta er mjög öflug atvinnugrein á Seyðisfirði og umferð um fjörðinn aukist samhliða því. Búseta er utarlega beggja megin fjarðar auk þess sem þar eru útivistasvæði sem íbúar og aðrir gestir sækja. Góðir vegir eru því afar mikilvægir með öryggi og hagsmuni íbúa sem og ferðamanna í huga. Heimastjórn leggur áherslu á að vegirnir verði lagðir bundnu slitlagi og að reglulegu viðhaldi á báðum leiðum verði betur sinnt.

Heimastjórn Seyðisfjarðar beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka málið upp með Vegagerðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023-2024

Málsnúmer 202312016Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024.

Heimastjórn leggur ekki til að sérreglur verði settar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Fylgiskjöl:

5.Mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum

Málsnúmer 202311049Vakta málsnúmer

Magni Hreinn Jónsson frá Veðurstofu Íslands kom á fund í gegnum fjarfundarbúnað og kynnti skýrslu stofnunarinnar um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnustæðum á Íslandi. Skýrslan mun birtast á vef Veðurstofunnar á næstu vikum.

Heimastjórn þakkar Magna fyrir greinargóða kynningu.

Gestir

  • Magni Hreinn Jónsson - mæting: 14:00

6.Staða verkefna á Seyðisfirði á umhverfis- og framkvæmdasviði

Málsnúmer 202303236Vakta málsnúmer

Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri, kom á fund í gegnum fjarfundabúnað og fór yfir stöðu á framkvæmdum á Seyðisfirði og fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins.

Þar kom meðal annars fram að unnið er að brunavörnum inni í Herðubreið og stefnt er að kynningu á framkvæmdum utanhúss í janúar og miðað við að útboð verði tilbúið í febrúar. Sama má segja um Gamla ríkið, stefnt er að útboðsgögn verði klár í febrúar og miðað er við uppsteypu kjallarans og flutning hússins. Þessa stundina er unnið að samningsgerð vegna flutnings á Wathne-húsinu og huga þarf að skipulagsmálum á nýjum stað. Áfram er unnið að undirbúningi á Baugi Bjólfs sem vonandi kemst til framkvæmda á nýju ári. Stefnt er að lagfærslu á þakskyggni við inngang Sundhallar á næstu mánuðum. Vinna við hafnarskipulag er í gangi og næsta verkefni sem bíður er deiliskipulag við Árstíg.

Þá var rætt um gatnagerð og gangstíga, meðal annars verða tvær upphækkaðar gangbrautir settar við Kjörbúðina til móts við Vesturveg og við hótel Ölduna. Einnig farið yfir næstu verkefni varðandi malbikun og stígagerð.

Einnig kom fram að vinna við ofanflóðavarnir í Bjólfi næsta árs er að fullu fjármögnuð.

Áframhaldandi uppgröftur er áætlaður í Firði áður en gengið verður frá svæðinu að framkvæmdum loknum og mikilvægt að huga að framsetningu og kynningu minjanna.

Heimastjórn þakkar Hugrúnu fyrir greinargóða yfirferð.

Gestir

  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 15:00

7.Samráðsgátt. Samgönguáætlun fyrir árin 2024 - 2038

Málsnúmer 202306099Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá umsögn að tillögu að samgönguáætlun 2024-2038 sem sveitarstjóri lagði fyrir samgöngunefnd Alþingis þann 16.11.23. Þar kemur skýrt fram að það sé afar brýnt að staðið verði við núverandi áætlun um gerð Fjarðarheiðargangna. Afar mikilvægt er að ekki verði frekari tafir á framkvæmdum en orðið hefur og að þær hefjist árið 2024 eins og núgildandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir.

Heimastjórn ítrekar bókun sína frá 06.07.23 þar sem kemur fram að Fjarðarheiðargöng séu fullhönnuð og tilbúin til útboðs og því er ekki eftir neinu að bíða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Húsnæðisáætlun Múlaþings 2024

Málsnúmer 202308176Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lágu drög að breytingum á texta í húsnæðisáætlun Múlaþings 2024.

Heimastjórn felur starfsmanni að koma athugasemdum á framfæri við umhverfis- og framkvæmdasvið í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Starfsmannamál

Málsnúmer 202212046Vakta málsnúmer

Um áramótin verða breytingar á starfsmannamálum í heimastjórn. Dagný Erla Ómarsdóttir, sem hefur sinnt starfi fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði í 50% starfshlutfalli, mun láta af störfum sem fulltrúi sveitarstjóra en tekur við 100% stöðu verkefnastjóra íþrótta- og tómstunda. Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi á fjármála- og stjórnsýslusviði mun taka við starfi fulltrúa á Seyðisfirði.

Heimastjórn Seyðisfjarðar þakkar Dagnýju fyrir gott samstarf og vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi.

10.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði

Málsnúmer 202301014Vakta málsnúmer

Hús til sölu: Múlaþing óskar eftir tilboðum í eignirnar Hafnargötu 42B og Sólbakka að Hafnargötu 44b. Tilboðum skal skila á netfangið utbod@mulathing.is fyrir 5. janúar 2024. Hægt er að fá að skoða eignirnar og skal hafa samband við bæjarskrifstofuna með óskir um slíkt.

Úthlutun úr uppbyggingasjóði: Nýlega var úthlutað úr Uppbyggingasjóði Austurlands fyrir árið 2024. Samtals var úthlutað tæpum 65 milljónum til 67 verkefna. Meðal þeirra sem hlutu styrk og tengjast Seyðisfirði eru:

Lunga. Lunga 25 ára (Hvirfill) 3.000.000 kr.
Listahátíðin List í Ljósi. 2.000.000 kr.
Ströndin Atelier ehf. Ljósmyndadagar á Seyðisfirði 2024 1.000.000 kr.
Skaftfell. Heiðin 900.000 kr.
Teresa Maria Rivarola. Spiderweb and heritage. 700.000 kr
Apolline Barra. Fiskisúpa- Ljósmyndasósa. 600.000 kr.
Bláa Kirkjan. Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar 2024. 600.000 kr.
H.E. Trésmíðavinnustofa ehf. Framleiðsla línolíumálningar. 600.000 kr.
Tækniminjasafn Austurlands. Kvennasaga samfélaga- sýning. 600.000 kr.
Tækniminjasafn Austurlands. Uppvinnsla og hringrás- fræðsluverkefni 500.000 kr.
Jafet Bjarkar Björnsson. Klifurparadísin Austurland. 600.000 kr.
Eastfords Adventures ehf. The Tour bus 500.000 kr.
Eastfjords Adventures ehf. Marketing 400.000 kr.
Monika Frycova. Listahátíð í Reykjavík 2024/Venues in KIOSK 108. 500.000 kr.
Jón Sigfinnsson. Vættir Íslands- Tölvuleikur. 500.000 kr.

Styrkþegum er óskað innilega til hamingju og það sést að gróskumikið starf er hér á Seyðisfirði sem og Austurlandi öllu. Hægt er að sjá fullan lista styrkþega á heimasíðu Austurbruar www.austurbru.is.

11.Hreindýraarður 2023

Málsnúmer 202312049Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá tölvupóstur frá Umhverfisstofnun, dagsettur 4. desember 2023, ásamt drögum að hreindýraarði fyrir árið 2023 á áfangasvæði / jarðir í sveitarfélaginu. Drögin liggja frammi til skoðunar á skrifstofum sveitarfélagsins frá 5. des. til 15. desember 2023 og er það sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir.

Lagt fram til kynningar.

12.Samráðshópur um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði

Málsnúmer 202310203Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá fundargerð samráðshóps um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði, dags. 27.11.23.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?