Fara í efni

Heimastjórn Borgarfjarðar

34. fundur 05. apríl 2023 kl. 09:00 - 12:30 á skrifstofu sveitarfélagsins, Borgarfirði
Nefndarmenn
  • Eyþór Stefánsson formaður
  • Alda Marín Kristinsdóttir aðalmaður
  • Ólafur Arnar Hallgrímsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Jón Þórðarson fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Jón Þórðarsson fulltrúi sveitarstjóra

1.Verklagsreglur fyrir fjallskilamál í Múlaþingi

Málsnúmer 202303064Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að koma athugasemdum, í samræmi við umræðu á fundinum, á framfæri við verkefnastjóra umhverfismála og samþykkir jafnframt að uppfært minnisblað verði lagt fyrir heimastjórnir til umsagnar.

Heimastjórn Borgarfjarðar gerir eftirfarandi athugasemdir við framkomin drög að verklagsreglum. 

Heimastjórn Borgarfjarðar telur að þau verkefni sem lögð eru á fjallskilastjóra í drögunum séu umfangsmeiri en tíðkast hefur að gangnastjórar sinni og erfitt að ætla bændum svo mikla vinnu á annasömum tímum. Þetta gæti fælt bændur frá því að taka að sér fjallskilastjórn. Mörg þessara verkefna hafa á Borgarfirði verið í höndum fjallskilanefndar og sveitarstjóra. Heimastjórn leggur til að þessi verkefni verði unnin í samstarfi fjallskilastjóra, fjallskilanefndar og starfsmanns stjórnsýslu á hverjum stað.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

 

2.Erindisbréf nefnda

Málsnúmer 202206247Vakta málsnúmer

Málið var áður á dagskrá Byggðaráðs sem bókaði eftirfarandi: 

Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að breytingum á 3.gr. í erindisbréfi heimastjórna til heimastjórna til umsagnar. Er umsagnir heimastjórna liggja fyrir verða tillögurnar teknar til afgreiðslu í byggðaráði. 

Heimastjórn Borgarfjarðar gerir ekki athugasemdir varðandi þær breytingar sem snúa að menningarverkefnum í minnisblaðinu. 

Heimastjórn Borgarfjarðar fer með stjórn Fjarðarborgar skv. samþykktum um stjórn Múlaþings. Fjarðarborg er B-hluta fyrirtæki í Múlaþingi og því eru í gildi reglur sem að mati heimastjórnar eru ekki jafnóskýrar og af er látið. Þær fyrirhuguðu breytingar sem lagðar eru til eru síst til þess fallnar að minnka óskýrleika líkt og lagt er upp með t.d. er varðar setninguna „fara með verkefni stjórnar félagsheimila samkvæmt nánari ákvörðun og eftir því sem við á“.
Jafnframt vill heimastjórn Borgarfjarðar koma því á framfæri að ein af forsendum sameiningar sveitarfélaganna var að tryggja að heimastjórn Borgarfjarðar hefði aðkomu að stjórn Fjarðarborgar. Að útþynna aðkomu heimastjórnar með þeim hætti sem lagt er til er ekki í anda sameiningarinnar.

Heimastjórn Borgarfjarðar ítrekar að í erindisbréfi hennar ætti að koma fram að engar ákvarðanir verði teknar um rekstur, eignarhald og/eða breytingar á Fjarðarborg án samþykkis heimastjórnar. 

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

3.Umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál.

Málsnúmer 202303246Vakta málsnúmer

Fyrir liggur umsagnarbeiðni frá atvinnuveganefnd Alþingis um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál.

Heimastjórn Borgarfjarðar gerir athugasemd varðandi innihald kaflans um stuðning við landbúnað (liðir 10.1. - 10.4). Þar saknar heimastjórn áherslna á að fyrirkomulag stuðnings taki mið af því að halda öllu landinu í byggð.

Starfsmanni heimastjórnar falið að koma ofangreindu á framfæri við nefndarsvið Alþingis.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

4.Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða), 861. mál.

Málsnúmer 202303249Vakta málsnúmer

Fyrir liggur umsagnarbeiðni frá atvinnuveganefnd Alþingis um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða), 861. mál.

Heimastjórn Borgarfjarðar telur að svæðaskipting aflaheimilda muni koma á meira jafnvægi milli landshluta í strandveiðikerfinu. Hins vegar er margt sem er óljóst þar sem ráðherra mun með reglugerð taka ýmsar ákvarðanir sem skipta höfuðmáli um hvernig til tekst. Þar má nefna hvernig afla verður skipt á milli svæða sem og mánaða. Einnig er mikilvægt að komi til þess að strandveiðum ljúki fyrir lok ágúst fái strandveiðibátar almennt veiðileyfi aftur.
Heimastjórn brýnir ráðherra til að vinna að því að tryggja að allir strandveiðibátar fái tækifæri til að róa í 48 daga á komandi tímabili með því að tryggja nægt aflamark til kerfisins eða fella út setninguna í frumvarpinu: „Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar frá hverju landsvæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers tímabils verði náð, sbr. þó 2. - 3. málsl. 9. mgr.“

Starfsmanni heimastjórnar falið að koma ofangreindu á framfæri við nefndarsvið Alþingis.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

5.Samfélagsverkefni heimastjórna

Málsnúmer 202302101Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar fékk það verkefni að úthluta kr. 2.000.000 til samfélagsverkefna á svæðinu. Heimastjórn kallaði eftir tillögum á samfélagsmiðlum og fjölmargar frábærar hugmyndir bárust.

Heimastjórn þakkar íbúum kærlega fyrir innsendar hugmyndir. Heimastjórn hefur valið nokkur verkefni til áframhaldandi vinnslu og verður tekin lokaákvörðun á fundi heimastjórnar í maí.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

6.Beiðni um afnot Grunnskóla Borgarfjarðar sumarið 2023

Málsnúmer 202304008Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Já Sæll ehf. um að fá að nýta Grunnskóla Borgarfjarðar fyrir gistingu m.a. yfir Bræðsluhelgi.
Heimastjórn sýnir húsnæðisvanda viðburðahaldara á Borgarfirði skilning en bendir á að hún hefur ekki heimild til að veita leyfi fyrir slíku. Beiðnin samræmist þó ekki reglum um notkun fasteigna Múlaþings, annarra en íbúðahúsnæðis.

Heimastjórn samþykkir að vísa málinu til fjölskylduráðs.

7.Fundir Heimastjórnar Borgarfjarðar

Málsnúmer 202010615Vakta málsnúmer

Næsti reglulegi fundur heimastjórnar Borgarfjarðar er fimmtudaginn 4. maí næstkomandi kl. 09:00. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast fyrir kl. 12:00 þriðjudaginn 2. maí næstkomandi næstkomandi. Erindi skal senda annað hvort á netfangið jon.thordarson@mulathing.is eða eythor.stefansson@mulathing.is eða bréfleiðis til Hreppsstofu.

Heimastjórn býður íbúum til samtals í Fjarðarborg 27. apríl kl 16:00. Nánar auglýst síðar.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?