Heimastjórn Seyðisfjarðar hélt opinn íbúafund 25. nóvember síðastliðinn í Herðubreið en mæting var afar góð.
Farið var yfir hin ýmsu mál en Björn Ingimarsson, sveitarstjóri var fyrstur á dagskrá þar sem hann fór yfir helstu mál sem unnið er að á Seyðisfirði sem og þau verkefni sem framundan eru. Fór hann yfir gerð ofanflóðavarna sem hafa gengið vel og verið á áætlun, vinna er í gangi með stækkun Strandabakka við Seyðisfjarðarhöfn auk þess sem farið var yfir vinnu vegna nýtingar á því húsnæði sem áður hýsti starfsemi fiskvinnslunnar. Sú vinna hefur dregist en stefnt er að stöðufundi í janúar á nýju ári.
Nýr grunnskóli á Seyðisfirði
Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, fræðslustjóri, fór því næst yfir þá undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið vegna nýrrar skólabyggingu fyrir grunnskóla Seyðisfjarðar. Sýndar voru grunnmyndir af nýrri byggingu sem áætlað er að fari í útboð næsta haust. Byggingartímabilið verður 2026 - 2027 og verklok áætluð 2028.
Göngustígur að Gufufossi
Hugrún Hjálmarsdóttir, umhverfis- og framkvæmdastjóri, fór yfir göngustíginn að Gufufossi en búið er að hanna göngustíginn og sækja um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Útboð er áætlað í janúar og verklok áætluð í október 2025.
Fjarvarmaveita á Seyðisfirði
Védís Vaka Vignisdóttir, verkefnastjóri HEF veitna, kynnti fyrir íbúum stöðuna á fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar. Rekstraraðili veitunnar, RARIK, hefur nú gert samskonar samning við Landsvirkjun um kaup á forgangsorku og Orkubú Vestfjarða. Þar með eru komnar rekstrarforsendur til næstu fjögurra ára. Skoðaðar verða áfram lausnir svo sem, miðlæg varmadæla sem íbúar gætu tengst og hinsvegar varmadælur við hvert hús. Farið var yfir jarðhitaleit í firðinum en HEF veitur hyggjast láta bora prufuholu í þeirri von að finna volgt vatn á varmadælu. Viðræður eru hafnar milli RARIK og HEF um yfirtöku fjarvarmaveitunnar en stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki um áramótin. Með yfirtökunni munu HEF veitur leitast við að styrkja innviði veitunnar ásamt því að fá fleiri íbúa til að tengjast veitunni til að minnka varmatap og styrkja reksturinn svo unnt sé að fara í þær fjárfestingar sem liggja fyrir.
Opnað var fyrir spurningar í lok fundar en góðar umræður sköpuðust um verkefnin sem fjallað var um á fundinum.
Hér má sjá glærur frá fundinum:
gongustigur-ad-gufufossi.odp
h-sey-s0011-kyn-241125-ibuafundur-seydisfirdi.pptx
ibuafundur-a-seydisfirdi-25.11.24.ppt