Fyrir liggur bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 28.03.2025 er varðar fyrirhugaða hækkun veiðigjalda og áhrif þeirra á sveitarfélög.
Ályktunin sem kom frá samtökunum er eftirfarandi:
Skortur á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga lýsa yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda enda getur ríkisstjórnin ekki sýnt fram á áhrif hækkunar á sveitarfélög.
Umrædd breyting getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þrátt fyrir þessa óvissu fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög sem er með öllu óásættanlegt. Er þetta einnig í andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.
Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið.
Samtökin skora á ríkisstjórnina að staldra við og hefja gagnsætt samtal við hagaðila um sanngjarna og rökstudda nálgun á grundvelli greininga á áhrifum á ekki eingöngu fyrirtæki heldur einnig sjávarútvegssveitarfélög. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð tillaga byggð á samtölum og greiningum.
Samtökin gera líka athugasemdir við þann stutta umsagnarfrest sem veittur var, þ.e. 10 dagar, sérstaklega í ljósi þess að engin greiningargögn eru til staðar. Ómögulegt er fyrir sveitarfélög að greina áhrif og halda sveitarstjórnarfundi innan þess tímaramma til að senda inn greinargóða umsögn. Því gera samtökin skýlausa kröfu að umsagnarfrestur verði lengdur til að gefa öllum sveitarfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Byggðaráð Múlaþings tekur undir ályktun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og gagnrýnir skort á samráði varðandi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda. Þá er stuttur umsagnarfrestur um málið afar óheppilegur fyrir sveitarfélög sem hafa ekki tíma innan þess ramma sem var gefinn að taka málið fyrir á fundum og vinna gögn til að greina til hlítar þau áhrif sem breytingarnar munu hafa á samfélög innan sveitarfélaga.
Samþykkt með þrem atkvæðum, tveir á móti (HHÁ,ES)
Fyrir hönd L-lista og V-lista lagði Eyþór Stefánsson eftirfarandi bókun:
Fulltrúar L og V - lista í byggðaráði taka undir að frestur til umsagnar um drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald hefði mátt vera lengri. Þó er það svo að beinir hagsmunir Múlaþings í þessu máli eru litlir þar sem áhrif á þá sjávarútvegsstarfsemi sem eftir er innan sveitarfélagsins eru lítil. Má deila um hvort Múlaþing þyrfti yfir höfuð að skila inn umsögn.
Þar sem stórútgerðin hefur ítrekað rústað sjávarútvegsstarfsemi í sjávarplássum Múlaþings er erfitt að sjá hvata sveitarfélagsins til þess að leggjast gegn því að sama útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins. Það hljómar eins og pólitískur forarpyttur.
Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég sem áheyrnarfulltrúi án atkvæðisréttar í Byggðaráði lýsi því yfir fyrir hönd M-listans að ég styð bókun meirihlutans vegna fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalda.