Fara í efni

Beiðni um skólaakstur

Málsnúmer 202209126

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð Múlaþings - 53. fundur - 18.10.2022

Fjölskylduráð hafnar fyrirliggjandi beiðni og vísar til fyrri bókunar Fjölskylduráðs frá 29. mars 2022.

Samþykkt með handauppréttingu en einn sat hjá (JHÞ).

Fjölskylduráð Múlaþings - 127. fundur - 04.03.2025

Fyrir liggur erindi frá Kraka Ásmundarsyni og Birnu Þórðardóttur, dagsett 29. jan. 2025. Í erindinu er óskað eftir skólaakstri fyrir börnin þeirra í Fellaskóla.
Málið áfram í vinnslu.

Gestir

  • Aron Thorarensen

Fjölskylduráð Múlaþings - 129. fundur - 01.04.2025

Fyrir liggur erindi frá Kraka Ásmundarsyni og Birnu Þórðardóttur, dagsett 29. jan. 2025. Í erindinu er óskað eftir skólaakstur fyrir börnin þeirra í Fellaskóla.
Málið áfram i vinnslu. Fræðslustjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Fjölskylduráð Múlaþings - 130. fundur - 22.04.2025

Fyrir liggur erindi vegna skólaaksturs utan skólahverfis. Málið hefur verið í vinnslu.
Fjölskylduráð hafnar erindinu og sér ekki fært að breyta reglum um skólaakstur að sinni.


Samþykkt með fimm atkvæðum og tveir á móti (JHÞ)(ÆE).


Eftirfarandi bókun lögð fram af hálfu fulltrúa Austurlistans:

Skipulag skólaaksturs á þessu svæði byggist á línum sem voru dregnar þegar sveitarfélögin sem síðar mynduðu Norður Hérað sameinuðust um stofnun og rekstur skóla að Brúarási. Á þeim tíma var farið eftir hreppamörkum og ekki verða gerðar athugasemdir við það núna.
Við sameiningu sveitarfélaga á Fljótsdalshéraði 2004 þótti ekki ástæða til að breyta þessu.
Samfélagið hefur breyst og forsendurnar fyrir núverandi fyrirkomulagi eru ekki þær sömu. Það er ekki lengur til staðar ímynduð lína sem hindrar að börn geti sótt nám í þeim grunnskóla sem er næst þeim. Fellaskóli er í 12-15 mín aksturstíma frá heimili á móti 40 mín. í Brúarás.
Enda sækja börnin sinn skóla í Fellabæ, þar hafa þau sín félagslegu tengsl enda verið í leikskóla þar og fjölskyldan bjó þar áður. Næsta haust verða systkinin fleiri sem munu sækja skóla í Fellabæ.
Reglur 656/2009 um skólaakstur grunnskóla segir að sveitarfélög beri ábyrgð á öryggi velferð og hagsmunum nemenda í skólaakstri. Þar segir að sveitarstjórn setji reglur um fyrirkomulagið sem taki m.a. mið af umhverfisaðstæðum og þar er talað um að endurskoða þessar reglur árlega út frá aðstæðum ? það hefur ekki verið gert í þessum efnum heldu verið haldið fast í eldri skiptingu.
í 4. gr segir „Skólaakstur skal skipulagður í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum, svo sem fjarlægðar milli heimilis og skóla.“

Í reglum um skólaakstur í Múlaþingi eru tilgreind skólahverfi. Þar er til dæmis tekið fram að Skriðdalur sé í skólahverfi Egilsstaðaskóla, þó er börnum úr Skriðdal ekið í Fellaskóla. Hér er fordæmi um að ekki sé farið eftir skólahverfamörkum.

Þann 11. mars 2022 gerist Múlaþing formlega þátttakandi í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF. Tveir af þeim grunnþáttum sem Múlaþing skuldbatt sig til að vinna eftir er að fara eftir því annars vegar sem er barninu fyrir bestu og hins vegar að öll börn væru jöfn.
Fulltrúar Austurlistans telja að hér sé brotið gegn þeim skuldbindingum.
Það eru eldri fordæmi fyrir skólasókn af bæ úr Tungu í Fellaskóla. Núna aka foreldrarnir börnunum í skóla í Fellabæ og atvinnuþátttaka þess foreldris sem sinni akstrinum þarf að taka mið af tímasetningum hans.
Sveitir í Múlaþingi eru í nauðvörn og endurnýjun ábúenda í sveitum er ekki slík að hún dugi til að halda í horfinu. Sveitirnar eldast og skólabörnum úr dreifbýli hefur fækkað stórkostlega á síðustu áratugum. Hér er fjölskylda sem kýs að flytja á æskustöðvar annars foreldrisins. Múlaþingi er í lófa lagið að veita stuðning og breyta fyrirkomulaginu við upphaf næsta skólaárs.

Jóhann Hjalti Þorsteinsson og Ævar Orri Eðvaldsson


Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd