Fara í efni

Fiskveiðilandhelgi á Borgarfjarðarmiðum - Skápurinn

Málsnúmer 202011068

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 2. fundur - 18.11.2020

Heimastjórn Borgarfjarðar fer þess á leit við sveitarstjórn Múlaþings að unnið verði að lokun svokallaðs Skáps fyrir togveiðum. Samkvæmt lögum um fiskveiðilandhelgi Íslands mega togarar almennt veiða á miðum 12 sjómílur frá landi. Á nokkrum stöðum á landinu mega þeir koma nær og er það tilfellið á Borgarfjarðarmiðum. Þar mega togarar veiða allt að 6 sjómílur frá landi og er umrætt svæði nefnt í daglegu tali „Skápur“. Þetta hefur haft í för með sér að á hverju hausti koma togarar og veiða á heimamiðum Borgfirðinga með þeim afleiðingum að heimasmábátar þurfa róa allt að 40 sjómílur til að eiga von á afla. Þetta er eina slíka svæðið á landinu sem er svo nálægt sjávarþorpi. Þetta ástand er ógn við kjarnaatvinnugrein brothættrar byggðar.

Sveitarstjórn Múlaþings - 4. fundur - 09.12.2020

Fyrir lá afgreiðsla heimastjórnar Borgarfjarðar, þar sem þess er farið á leit við sveitarstjórn Múlaþings að unnið verði að lokun svokallaðs Skáps fyrir togveiðum.

Til máls tóku: Eyþór Stefánsson, sem kynnti málið. Jakob Sigurðsson og Elvar Snær Kristjánsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir þær athugasemdir er fram koma í bókun heimastjórnar Borgafjarðar varðandi þau neikvæðu áhrif er núverandi fyrirkomulag hefur á smábátaútgerð á Borgarfirði. Sveitarstjórn Múlaþings skorar á löggjafann að endurskoða lög um Fiskveiðilandhelgi Íslands frá 1997 nr. 79 26. maí, í samræmi við tillögu Heimastjórnar Borgarfjarðar og felur sveitarstjóra og forseta sveitarstjórnar í samráði við formann heimastjórnar Borgarfjarðar að fylgja málinu eftir. Forseta sveitarstjórnar er jafnframt falið að kynna málið fyrir stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 6. fundur - 05.03.2021

Starfsmenn Atvinnu - og nýsköpunarráðuneytis komu inn á fundinn í gegnum fjarfundabúnað og gerðu grein fyrir aflabrögðum togara í Skápnum á síðasta ári samkvæmt afladagbókum þeirra. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir útgerð á Borgarfirð og því ánægjulegt hversu lítill afli hefur fengist við togveiðar á svæðinu árið 2020, sem sýnir að litlir hagsmunir eru í húfi fyrir togaraútgerðir sem veiðarnar hafa stundað.

Heimastjórn telur því sjálfsagt að ráðherra loki svæðinu fyrir togveiðum.

Gestir

  • Þorsteinn Sigurðsson - mæting: 14:00
  • Agnar Bragi Bragason - mæting: 14:00
  • Guðmundur Jóhannesson - mæting: 14:00

Heimastjórn Borgarfjarðar - 10. fundur - 04.06.2021

Heimastjórn Borgarfjarðar fagnar því að reglugerð um lokun á Skápnum er komið inn í samráðsgátt stjórnvalda.

Formanni Heimastjórnar falið að skila inn umsögn í samræmi við umræður á fundinum.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 13. fundur - 06.09.2021

Reglugerð um lokun „Skápsins“tók gildi í sumar og er nú nýhafið fyrsta fiskveiðiár þar sem ekki er von á togurum upp undir land í áratugi. Heimastjórn þakkar ráðherra og ráðuneyti góða vinnu við málið en bendir á að lokunin er eingöngu til eins árs og öll þau rök sem réttlættu lokunina í ár verða góð og gild ár hvert. Heimastjórn mun halda áfram hér eftir sem áður að berjast fyrir áframhaldandi lokun svæðisins fyrir veiðum með fiskibotnvörpu.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 15. fundur - 01.10.2021

Þann 23. juní 2021 skrifaði sjávarútvegs ? og landbúnaðarráðherra undir reglugerð um tímabundið bann við veiðum með fiskibotnvörpu út af Glettinganesi. Heimastjórn vill koma á framfæri þökkum til ráðherra og þeirra starfsmanna ráðuneytisins sem unnið hafa í málinu. Heimastjórn bendir þó á að reglugerðin gildir aðeins í eitt ár og nauðsynlegt er að umræddu svæði verði lokað varanlega fyrir veiðum með fiskibotnvörpu.

Heimastjórn vill benda á bókun félags smábátaeiganda á Austurlandi sem er eftirfarandi:

Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi lýsir ánægju sinni með reglugerðarlokun á hluta „Skápsins“ utan Borgarfjarðar eystri, fyrir togveiðum.
Reynslan af lokuninni sýnir svo ekki verður um deilt að trillur sem róa frá Borgarfirði eystra hafa getað sótt á sín heimamið í haust , hafa ekki þurft að sækja 30-50 sjómílur á haf út útfyrir togskipin.
Veiði hefur verið með ágætum á handfæri eftir að svæðinu var lokað, það er gríðarleg breyting frá fyrri árum.
Umrædd lokun hluta skápsins er gerð með reglugerð til eins árs og gildir 1. júlí 2021 til 31. des 2021 reglugerð nr. 742/2021.
Krefst fundurinn þess að lokunin verði sett í lög og gildi í það minnsta 1. júlí til 31. des á hverju ári.

Heimastjórn bendir jafnframt að síðan lokunin tók gildi hafa aflabrögð smábáta verið með allt öðrum hætti en undanfarin ár og ljóst að lokunin skiptir miklu máli fyrir helstu atvinnugrein brothættrar byggðar. Því skorar heimastjórn á tilvonandi ráðherra sjávarútvegsmála að varanleg lokun svæðisins verði sett á dagskrá.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 16. fundur - 03.11.2021

Heimastjórn ræddi næstu skref til að ná fram varanlegri lokun Skápsins.

Reglugerð nr. 742 frá 23.júní 2021 um lokun Skápsins gildir í eitt ár. Heimastjórn telur augljóst að áhrif lokunarinnar hafi verið jákvæð þar sem aflabrögð voru betri en undanfarin ár og bátar þurftu ekki að sækja út fyrir sín heimamið.

Heimastjórn Borgarfjarðar skorar á ráðherra sjávarútvegsmála að koma nú þegar af stað vinnu við að greina þau áhrif sem friðun hluta „Skápsins“ fyrir togveiðum hefur haft á fiskgengd og aflabrögð handfæra og línubáta á Borgarfirði. Mikilvægt er að ofangreind reglugerð verði varanleg.
Getum við bætt efni þessarar síðu?