Fara í efni

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

385. fundur 15. maí 2017 kl. 09:00 - 11:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Sigrún Blöndal varaformaður
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Björn Ingimarsson bæjarstjóri

1.Fjármál 2017

201701003

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið og fór yfir upplýsingar um mannfjöldatölur miðað við nýliðin mánaðarmót.

Einnig fór Björn Ingimarsson yfir nokkur mál og upplýsti bæjarráðsmenn um þau.
Í framhaldinu voru rædd nokkur mál sem tengjast samskiptum ríkisvalsins og fjórðungsins.

2.Sláturhúsið Menningarsetur ehf. Aðalfundur 2016

201705056

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Sláturhússins menningarseturs ehf. frá 15. maí 2017, ásamt árituðum ársreikningi fyrir árið 2016.

3.Aðalfundur SSA 2017

201705045

Lagður fram tölvupóstur frá verkefnastjóra sveitarstjórnarmála hjá SSA. Þar er óskað eftir málum, sem sveitarstjórnir vilja setja á dagskrá aðalfundar SSA sem verður haldinn 29. til 30. september næstkomandi.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til nefnda sveitarfélagsins og óska ertir tillögum og málum til umfjöllunar á aðalfundinum.
Bæjarráð óskar jafnframt eftir því að tillögur frá nefndum berist bæjarráði fyrir sumarleyfi nefnda.

4.Samstarfssamningur við Íþróttafélagið Hött

201611095

Lögð fram endurgerð drög að samningi milli Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs, um uppbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Gerðar voru smávægilegar breytingar á 9. grein samningsdraganna og þau síðan lögð fyrir, með áorðnum breytingum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð gerir það að tillögu sinni við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að undirrita samningsdrögin, eins og þau liggja nú fyrir.

Tillagan samþykkt með 2 atkvæðum (G.J og S. Bl.) en 1 var á móti. (S.B.S.)

Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Þó að ég sé fylgjandi þeim markmiðum sem sett voru fram í viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Íþróttafélagsins Hattar um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum sé ég mér ekki annað fært en að greiða atkvæði gegn fyrirliggjandi samningsdrögum. Ástæður þess eru í fyrsta lagi að ég tel óeðlilegt að gera slíkan samning áður en hönnun og endanleg kostnaðaráætlun liggur fyrir. Hins vegar tel ég að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er nú varðandi leikskólapláss í sveitarfélaginu, og með vísan til þess að viðbygging við leikskólann Hádegishöfða var sett jafn framarlega og fimleikasalur í forgangsröðun framkvæmda sem samþykkt var í bæjarráði í desember 2013, þá sé eðlilegt að sá valkostur verði skoðaður til fulls og endanleg ákvörðun tekin um þá framkvæmd samhliða ákvörðun um uppbyggingu íþróttamiðstöðvar.

Ég tel að eðlilegt sé að næsta skref sé að gera nýja viljayfirlýsingu sem feli í sér eftirfarandi:

Lokið verði við fullnaðarhönnun á framkvæmdinni sem lýst er í samningsdrögunum. Sveitarfélagið leggi fram fjármagn til þeirrar vinnu. Út frá þeirri hönnun verði unnin endanleg kostnaðaráætlun.
Sveitarfélagið ráðist í breytingar á anddyri íþróttamiðstöðvar og starfsmannaaðstöðu, sem er fyrsti áfangi verksins samkvæmt samningsdrögum.
Endanleg ákvörðun um samning við íþróttafélagið og tímaramma verkefnisins verði tekin fyrir árslok.

Jafnframt verði fyrir árslok tekin ákvörðun um tímaáætlun viðbyggingar við leikskólann Hádegishöfða.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð samþykkir jafnframt að fela bæjarstjóra að vinna áfram að greiningu á möguleikum vegna viðbyggingar við leikskólann Hádegishöfða, í samræmi við fyrri ákvörðun bæjarráðs um forgangsröðun framkvæmda hjá sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.

5.Umhverfi og umhirða í sveitarfélaginu

201705052

Lagt fram bréf frá kvenfélaginu Bláklukkum dagsett 04.05, þar sem sveitarfélagið og íbúar þess eru hvattir til átaks í að fegra og bæta umhverfið. Bent er á að í sumar er 70 ára afmæli þéttbýlisins á Egilsstöðum og íbúar, fyrirtæki og sveitarfélagið því hvött til að leggja sérstaka áherslu á góða umgengni og fegrun umhverfisins.

Bæjarráð tekur heilshugar undir með bréfritara og ítrekar hvatningu til íbúa, fyrirtækja og stofnanna að snyrta lóðir og nánasta umhverfi. Erindinu að öðru leyti vísað til verkefnisstjóra umhverfismála og umhverfis- og framkvæmdanefndar.

6.Ungt Austurland.

201702061

Kynntur tölvupóstur frá forsvarsmönnum Ungs Austurlands, þar sem þakkaður er stuðningur við ráðstefnuhald samtakanna og óskað eftir fundi með bæjarráði 29. maí, til að fara yfir niðurstöður ráðstefnu þeirra, sem haldin var á Borgarfirði nú í vor.

Bæjarráð samþykkir að taka á móti fulltrúum Ungs Austurlands umræddan dag.

7.Frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur)

201705035

Lagður fram tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, beiðni um umsögn um frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), mál nr. 190.

Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við efni frumvarpsins.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?