Fara í efni

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Múlaþingi

Pdf útgáfa af samþykktinni

I. KAFLI Almenn ákvæði

1. gr.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í sveitarfélaginu Múlaþingi. Um meðhöndlun úrgangs í Múlaþingi fer samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar.

2. gr.

Múlaþing ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og sér til þess að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Undir þetta ákvæði fellur m.a. ábyrgð á móttöku spilliefna og meðferð úrgangs til vinnslu t.d. lífræns úrgangs, landbúnaðarplasts, brotamálma og annars flokkaðs úrgangs í samráði við og undir eftirliti heilbrigðisnefndar Austurlands. Sveitarstjórn sér til þess í samráði við heilbrigðisnefnd og framkvæmdaaðila, að íbúar fái fræðslu um flokkun og aðra meðferð úrgangs, móttöku hans og förgun, t.d. með útgáfu leiðbeininga. Heilbrigðisnefnd Austurlands hefur eftirlit með framkvæmdum verkefna samkvæmt þessari samþykkt.

3. gr.

Markmið samþykktarinnar er:

  1. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs,
  2. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs og
  3. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

II. KAFLI Úrgangur frá íbúðarhúsnæði.

4. gr.

Múlaþing annast meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu, á þann hátt og með þeim takmörkunum sem leiða af samþykkt þessari, lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Sveitarstjórn og heilbrigðisnefnd Austurlands hafa eftirlit með starfseminni. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd hirðingar heimilisúrgangs og móttöku annars úrgangs, þ.m.t. móttöku spilliefna, brotajárns og landbúnaðarplasts. Viðkomandi skal hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Um meðhöndlun úrgangs fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs. Förgun úrgangs skal framkvæmd undir yfirstjórn og á ábyrgð sveitarstjórnar. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum, sem hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 550/2018, að sjá um förgun úrgangs og samskipti við þá aðila sem við á.

5. gr.

Sérhverjum húseiganda og umráðamanni húsnæðis (húsráðanda) er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs sem sveitarstjórn ákveður hverju sinni. Geymslur fyrir heimilisúrgang skulu vera aðgengilegar á hreinsunardögum sem tilteknir eru á sorphirðudagatölum. Ílát skulu staðsett saman ef um fjölbýlishús er að ræða. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Húsráðendur skulu hreinsa snjó frá ílátum eins og þörf krefur og halda greiðfærri leið að þeim.

6. gr.

Múlaþing leggur íbúum til ílát undir venjulegan heimilisúrgang. Í ílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur til við venjulegt heimilishald, í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs. Sveitarfélagið sér einungis um að láta tæma þau ílát sem það leggur íbúum til. Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang í ílát og gáma sem ætluð eru fyrir heimilisúrgang. Jarðvegsefni, þ.m.t. grjót, múrbrot o.þ.h. skal setja á
viðurkennda losunarstaði. Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal skilað á viðurkennda móttökustaði. Gæta skal þess að fylla ekki ílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Húsráðandi skal skila umframúrgangi á viðurkennda móttökustaði á vegum sveitarfélagsins.

7. gr.

Hirða heimilisúrgangs skal fara fram reglulega eftir fyrir fram gerðri áætlun, staðfestri af sveitarstjórn. Allan úrgang sem að mati húsráðenda þarf að losa örar en gert er ráð fyrir samkvæmt áætlun þar um, skal húsráðandi sjálfur og á eigin kostnað losa í flokkunarstöð eða í viðeigandi gáma á ákveðnum stöðum.
III. KAFLI Úrgangur frá fyrirtækjum.

8. gr.

Rekstraraðilum, þ.e. fyrirtækjum og stofnunum, er skylt að flokka þann úrgang sem til fellur hjá þeim í samræmi við lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins. Þeir bera ábyrgð á hirðu og förgun rekstrarúrgangs sem til fellur í starfsemi þeirra og bera af honum allan kostnað. Frágangur og umgengni um ílát fyrir úrgang, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar. Eigendum og umráðamönnum atvinnuhúsnæðis er heimilt að semja við hvern þann sem hefur tilskilin leyfi og réttindi til flutnings á úrgangi til förgunarstaðar og skal viðkomandi fara að kröfum sveitarfélagsins varðandi skráningu, vigtun og skil á upplýsingum. Staðsetning sorpíláta fyrir rekstrarúrgang skal vera í samræmi við ákvarðanir sveitarstjórnar, ákvæði byggingarreglugerðar og viðkomandi deiliskipulags.
IV. KAFLI Gjaldtaka vegna meðhöndlunar úrgangs.

9. gr.

Sveitarstjórn skal innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þá er sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Gjaldið skal sett og innheimt samkvæmt gjaldskrá með heimild í 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að leggja gjöld þessi á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur þjónustunnar. Gjöld skal miða við fjölda og stærð íláta, hvort sem um er að ræða flokkaðan eða óflokkaðan úrgang og tíðni söfnunar. Heimilt er að innheimta sorphirðugjöld af fyrirtækjum og stofnunum samkvæmt magni úrgangs, þ.e. samkomulagi við viðkomandi. Ávallt skal taka tillit til flokkunar og minnkunarþátta, sem af flokkun leiðir. Gjöld mega aldrei vera hærri en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar. Sveitarstjórn er heimilt að haga gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs með þeim hætti að það hvetji til að draga úr magni úrgangs sem fer til urðunar.

V. KAFLI Ýmis ákvæði

10. gr.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang og annan úrgang á víðavangi, á götum, gangstígum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Tæki og hluti sem ekki eru í almennri eða stöðugri notkun skal geyma þannig að nágrannar og vegfarendur hafi ekki ama af. Bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki skulu geymd á þar til gerðum stæðum. Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum eða á almannafæri. Heimilt er að hafa á lögbýlum afmörkuð geymslusvæði fyrir framangreinda hluti sem tilheyra viðkomandi lögbýli og skal leitast við að hafa sjónræn áhrif þeirra í algjöru lágmarki. Öðrum aðilum er heimilt að sækja um geymslusvæði og verða slík erindi afgreidd af umhverfis- og framkvæmdaráði.

11. gr.

Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun vegna hirðingar úrgangs, skal hann koma henni skriflega á framfæri við skrifstofu sveitarfélagsins eða til Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011.

12. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr.
XIII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

13. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi samþykkt nr. 661/2016, um meðhöndlun úrgangs í Seyðisfjarðarkaupstað,samþykkt nr. 122/2017, um meðhöndlun úrgangs á Fljótsdalshéraði, samþykkt nr. 469/1999, um sorphirðu í Djúpavogshreppi og samþykkt nr. 245/2000, um sorphirðu í Borgarfjarðarhreppi.

Síðast uppfært 07. mars 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd