1. gr.
Fjölskylduráð Múlaþings auglýsir tvisvar á ári styrki til íþrótta- og tómstundastarfs og úthlutar þeim samkvæmt reglum þessum og með hliðsjón af stefnum sveitarfélagsins.
Framlag til úthlutunar er ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert.
2. gr.
Múlaþing veitir styrki til einstaklinga, hópa, félagssamtaka, fyrirtækja og stofnana til íþrótta- og tómstundatengdra verkefna. Fjölskylduráð getur ákveðið sérstakar áherslur við styrkúthlutun hverju sinni og verða þær þá að koma fram í auglýsingu.
Styrkir eru einungis greiddir út á því ári sem þeir eru veittir og færast ekki á milli ára nema sérstaklega sé um það samið.
3. gr.
Sótt skal um styrkina í þjónustugátt þar sem eftirfarandi kemur fram:
- gildi verkefnisins fyrir íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu
- áætlun um framkvæmd, þar með skil lokaskýrslu
- fjárhagsáætlun verkefnisins
- aðrar fjármögnunarleiðir
- upphæð sem sótt er um
Verkefnastyrkir skulu hafa umsóknarfresti til og með 15. mars og 15. október.
4. gr.
Við mat á umsóknum skulu stefnur sveitarfélagsins hafðar til hliðsjónar.
Fjölskylduráð áskilur sér rétt til að hafna umsóknum.
5. gr.
Umsækjendur um styrk verða að tengjast Múlaþingi með búsetu, eða með því að viðburðurinn fari fram í Múlaþingi eða feli í sér kynningu á íþrótta- og tómstundastarfi í Múlaþingi.
Við auglýsingu á viðburði eða verkefni skal styrkþegi láta styrkveitingu Múlaþings koma fram.
Reglur þessar skulu teknar til endurskoðunar eins oft og þurfa þykir.
Samþykkt í febrúar 2021.