pdf-útgáfa af stefnunni 
1. Leiðarljós
Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, skal haft að leiðarljósi í allri þjónustu og stjórnsýslu Múlaþings. Þar er íslenska í öndvegi.
Íbúar skulu hafa greiðan aðgang að upplýsingum um þjónustu óháð tungumálum og geta tekið virkan þátt í íbúalýðræði og samfélagsumræðu.
Helstu upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins skal auk íslensku hafa á ensku og öðrum tungumálum eftir því sem kostur er.
Leitast skal við að tryggja réttindi fólks af erlendum uppruna í þjónustu og samskiptum við stjórnsýslu sveitarfélagsins með því að bjóða þeim, sem ekki geta skilið eða tjáð sig á íslensku, upp á túlkaþjónustu.
Í stafrænni þjónustu sveitarfélagsins skal allt mál vera skýrt og auðskiljanlegt þannig að íbúar geti hæglega hagnýtt sér hana og lokið erindum sínum.
Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal horfa til máluppeldis með málörvun og stuðningi við þau sem hafa fjölbreyttan tungumálabakgrunn.
Íslensk málstefna einkennist af málvernd og varðveislu íslenskrar tungu. Samkvæmt 5. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 bera ríki og sveitarfélög ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og sjá til þess að hún sé notuð. Þeim ber að sjá til þess að öll sem þess þurfa eigi kost á að fá þjónustu á íslensku táknmáli og jafnframt skal leitast við að tryggja öllum þeim sem þurfa að reiða sig á blindraletur upplýsingar á því letri eða í talgervlum.
Málstefna Múlaþings tekur mið af annarri stefnumörkun og skuldbindingum af hálfu Múlaþings og byggir á grundvallaratriðum stefnumörkunar um jafnræði, virðingu, traust, gagnsæi, gott aðgengi að upplýsingum og virkum samskiptum.
2. Málfar og málnotkun
Þau sem koma fram fyrir hönd Múlaþings tala og rita vandað mál og sýna vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og þjónustu. Á það við um öll tungumál, íslensku sem önnur, og einnig táknmál. Vandað mál er markvisst og í samræmi við málvenju, í viðeigandi málsniði og ritað í samræmi við gildandi reglur um réttritun.
Starfsfólk skal nota vandaða íslensku í samskiptum og þjónustu og þýða eins og kostur er á íslensku fagheiti og hugtök í störfum sínum.
Þau sem skrifa og svara erindum fyrir hönd Múlaþings skrifa einfaldan, skýran og hlutlægan texta. Þau forðast gildishlaðin orð, sterk lýsingarorð, flókin fagheiti og skammstafanir.
Allar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn, eru á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku.
Allt efni sem skylt er að upplýsa íbúa og hagsmunaaðila um samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum skal birta á vandaðri og auðskiljanlegri íslensku. Þetta á meðal annars við um skipulagsákvarðanir, grenndarkynningar, auglýsingar, tilkynningar, reglur og aðrar samþykktir.
Múlaþing skapar starfsfólki sínu skilyrði til að bæta íslenskukunnáttu sína með símenntun til að málfar og málnotkun í skriflegum sem munnlegum samskiptum geti verið til fyrirmyndar. Starfsfólki er einnig boðið upp á aðgang að nauðsynlegum uppsláttarritum, öppum og vefsíðum um íslenskt mál og málnotkun.
Það skal jafnframt geta nýtt sér tiltækan máltæknibúnað fyrir íslensku og önnur tungumál, svo sem leiðréttingaforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit.
3. Íslenska og önnur tungumál
Starfsfólk Múlaþings skal nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál, t.d. í ráðgjöf við fólk með annað móðurmál en íslensku.
Meta skal þekkingu og menntun starfsfólks af erlendum uppruna að verðleikum og veita því aðstoð til að nýta hana samhliða því að ná góðum tökum á íslensku máli. Starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við íbúa sveitarfélagsins, skal hafa grundvallarfærni í íslensku eða vinni í að öðlast hana.
Íslenska skal vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Múlaþings. Vélþýðing á önnur tungumál er aðgengileg á öllum vefsíðum Múlaþings.
Efni á vegum sveitarfélagsins, sem gefið er út á erlendum tungumálum, skal jafnframt vera til á íslensku. Þetta á meðal annars við um bæklinga um þjónustu Múlaþings fyrir innflytjendur. Æskilegt er að birta erlendan texta samhliða íslenskum texta til að auðvelda gagnkvæman skilning í þjónustu og tilgreina með þjóðfána eða í texta á hvaða tungumáli efnið er.
4. Aðgengi
Upplýsingar um þjónustu Múlaþings skulu vera aðgengilegar og auðskiljanlegar.
Allt vefefni sveitarfélagsins skal vera aðgengilegt og auðlæsilegt í samræmi við WCAG 2.0 staðla, þannig að blindir, leshamlaðir og fólk með aðrar skerðingar geti lesið það. Markmiðið er að gera allt efni á vef Múlaþings aðgengilegt með helstu hjálpartækjum, svo sem skjálesurum og talgervlum.
Leitast skal við að lykilmerkingar á þjónustustöðum sveitarfélagsins, svo sem í og við lyftur og aðalinnganga, séu jafnframt á punktaletri svo blindir og sjónskertir rati þar um.
5. Ábyrgð og gildissvið
Sveitarstjóri ber ábyrgð á málstefnu Múlaþings en sviðsstjórar og stjórnendur bera ábyrgð á því að framfylgja henni. Hvert fagsvið stjórnsýslu sveitarfélagsins skipar fulltrúa í málnefnd sem heyrir undir sveitarstjóra. Hlutverk hennar er að tryggja að farið sé að þessari málstefnu og endurskoða hana á fimm ára fresti.
Allar stofnanir sveitarfélagsins, svo sem skólar, frístundamiðstöðvar, þjónustumiðstöðvar og menningarstofnanir, tileinki sér þessa málstefnu eða setji sér sína eigin til samræmis við þessa.
Málstefna þessi gildir á öllum starfsstöðum Múlaþings og hjá fyrirtækjum og stofnunum er veita þjónustu fyrir hönd sveitarfélagsins. Starfsfólk skal taka mið af henni í störfum sínum og samskiptum og vanda allt mál í þjónustu og upplýsingamiðlun.
Fylgiskjal - Innleiðing
- Hlutverk málnefndar er að fylgja stefnunni eftir og skipuleggja kynningu á henni fyrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana sem veita þjónustu fyrir hönd sveitarfélagsins. Sveitarstjóri er helsti talsmaður málstefnunnar.
- Málnefnd útfærir nánar tillögu að innleiðingaráætlun fyrir málstefnuna og framkvæmd hennar.
- Sviðsstjórar bera ábyrgð á að kynna málstefnuna í fagráðum og meðal stjórnenda og skal þeirri kynningu lokið þremur mánuðum eftir gildistöku stefnunnar.
- Upplýsa skal það starfsfólk sem vinnur við tölvu- og upplýsingatækni um þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt málstefnu um viðmót og aðgengi í upplýsingamiðlun til fólks með sérþarfir og fötlun og móta sér innan árs frá gilditöku stefnunnar skýrt verklag í samræmi við þær.
- Fara þarf yfir rafrænt aðgengi að orðabókum og öðru stoðefni á vefnum. Tölvu- og upplýsingatæknideild ber ábyrgð á því verkefni.
- Bjóða / Auðvelda þarf starfsfólki upp á / að sækja símenntun og endurmenntun í íslensku, ritun og framsetningu upplýsinga á vandaðri íslensku. Sérstaklega skal huga að því að bjóða tvítyngdu starfsfólki og nýju starfsfólki, sem ekki á íslensku að móðurmáli, upp á hagnýt íslenskunámskeið til að tryggja að það hafi grundvallarfærni í íslensku. Verkefnastjóri mannauðs og sviðsstjórar bera ábyrgð á því að fylgja þessu eftir.
- Málstefna þessi skal endurskoðuð eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku.
Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 12. mars 2025