Fara í efni

Trjágróður við lóðarmörk

26.03.2025 Fréttir

Nokkuð er um að trjágróður vaxi út fyrir lóðarmörk en slíkt getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Múlaþing hvetur íbúa til að huga að trjágróðri á lóðum sínum til að koma í veg fyrir að hann: hylji umferðarskilti, sé vegfarendum til ama eða dragi úr götulýsingu. Einnig þarf að huga að hæð trjágreina sem skaga út fyrir lóðarmörk með tilliti til snjóhreinsunar á gangstéttum og umferðar á götum.

Þessi atriði þurfa að vera í lagi:

  • Gangandi og hjólandi þurfa að eiga greiða leið um gangstéttir og göngustíga.
  • Þar sem vélsópar og snjóruðningstæki fara um má lágmarkshæð gróðurs ekki vera lægri en 2,8 metrar.
  • Þar sem sorphirðubílar þurfa að komast um akbraut má gróður ekki vera lægri en 4,2 metrar.

Garðeigendur bera ábyrgð á trjágróðri á lóð sinni og ber að halda honum innan lóðarmarka samkvæmt byggingarreglugerð. Sinni hann því ekki er veghaldara eða umráðarmanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta trjágróðurs er truflun eða óprýði veldur á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun. Síðastliðið haust fengu nokkrar lóðir aðvörun sem verður fylgt eftir í vor hafi ekki verið brugðist við.

Þá er jafnframt óskað eftir góðri samvinnu við íbúa við að tryggja vegfarendum greiða leið og skapa umhverfi sem dregur úr líkum á slysum. Ábendingum um trjágróður sem nær út fyrir lóðarmörk má koma á framfæri í gegnum ábendingagátt Múlaþings.

Frekari upplýsingar veitir Jón Kristófer Arnarson, garðyrkjustjóri, í gegnum jon.arnarson@mulathing.is eða síma 4 700 700.

Trjágróður við lóðarmörk
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd