Fara í efni

Tólf fræðandi smiðjur í boði á starfsdegi

04.12.2024 Fréttir

Þann 22. nóvember var haldinn sameiginlegur starfsdagur skólastofnanna Múlaþings. Daginn sóttu einnig starfsfólk félagsmiðstöðva og starfsmenn leik- og grunnskóla Vopnafjarðar.

Dagurinn byrjaði í Valaskjálf á erindi frá Sigurbjörgu Hvönn fræðslustjóra Múlaþings. Fyrir hádegi skiptist svo hópurinn upp þar sem í boði voru 12 fjölbreyttar smiðjur sem voru ýmist í Valskjálf, Egilsstaðaskóla eða utandyra. Hver og einn gat tekið þátt í tveimur smiðjum.

Í smiðjunum var meðal annars hægt að fræðast um viðhorf og samskipti í inngildandi skóla- og frístundastarfi, læra um æskilega líkamsbeitingu og kynnast leiðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun. Þá var boðið upp á námskeið í fjölbreyttri útikennslu, yoga og sköpunargleði og frumtónlist.

Einnig var hægt að kynna sér hvernig nýta má forritið Helperbird til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp, hvernig tengja má gervigreind við skólastarfið og læra um rannsóknarstörf sem nálgun í kennslu.

Eftir hádegi var svo sameiginlegur fyrirlestur sem bar yfirskriftina ,,Ein af þessum sögum – kynjað slúður og valdbeiting“. Í fyrirlestrinum fjallaði dr. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir um slúður sem félagslegt vald og stjórnun í hópum og innan fyrirtækja.

Starfsfólk í mötuneytum og mótttökueldhúsum hittist Í Hallormsstaðaskóla og hafði dagurinn yfirskriftina ,,Ábyrgð og hreinlæti“ og byrjaði á því að matráðar fengu tækifæri til að búa til sínar eigin sápur. Eftir hádegi var svo farið yfir þá miklu ábyrgð sem hvílir á matráðum í tengslum við hreinlæti og öryggi í matseld. Þá var einnig farið yfir vaxandi óþol og ofnæmi neytenda og hvernig matráðar geta stuðlað að öruggara umhverfi fyrir alla.

Dagurinn lukkaðist vel og munu erindin sem þátttakendur sóttu vafalaust nýtast vel í skólastarfinu.

Tólf fræðandi smiðjur í boði á starfsdegi
Getum við bætt efni þessarar síðu?