Fara í efni

Tíu verkefni fengu menningarstyrk úr seinni úthlutun 2024

19.11.2024 Fréttir

Í október síðastliðnum úthlutaði byggðaráð Múlaþings styrkjum til menningarstarfs. Um var að ræða seinni úthlutun menningarstyrkja vegna verkefna á árinu 2024 en fyrri og stærri úthlutun fór fram í janúar.

Alls barst 21 umsókn frá 20 aðilum. Sótt var um rúmar 6,4 milljónir samtals og heildarkostnaður verkefna var rúmar 43 milljónir. Til úthlutunar voru tæplega 2 milljónir og námu hæstu styrkir 250 þúsund krónum.

Múlaþing er ríkt af drífandi og skapandi fólki sem endurspeglast í þeim umsóknum sem bárust. Verkefnin voru fjölbreytt en meðal þeirra voru meðal annars heimildamyndagerð, fjölskylduviðburðir, smiðjur fyrir börn, listasýningar, stafrænt vísnasafn, námskeið og tónleika.

Umsækjendum er hér með þakkað fyrir umsóknirnar og óskað velgengni með öll þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrki.

Umsóknarferli fyrir menningarstyrki Múlaþings árið 2025 hefst núna um miðjan nóvember.

Þau verkefni sem hlutu styrki í seinni úthlutun ársins 2024 voru:

Arndís Ýr Hansdóttir
Flat Earth Film Festival 2024
Sjálfstæð kvikmyndahátíð sem fagnar þeim framsýnu og fáheyrðu röddum sem keyra kvikmyndagerð samtímans áfram. Samstarf milli fjögurra norrænna stofnanna: LungA skólans, CPH:DOX, HMD, og FEFF með það að markmiði að auka sýnileika menningar í gegnum kvikmyndaformið. Hátíðin fer fram á Seyðisfiðri og þar verður boðið upp á sýningar, vinnustofur, gjörninga og umræður.
Úthlutun: 150.000 kr.

Skógræktarfélag Djúpavogs
Ljós og myrkur í Hálsaskógi

Ljós og myrkur í skógi er viðburður á Dögum myrkurs. Við göngustígana í Hálsaskógi hanga kertaljós og ljósakeðjur í trjágreinum og einhvers staðar í skóginum leynist töfratré sem börnin leita að. Á öðrum stöðum í skóginum eru myrkir stígar þar sem óvæntar og jafnvel ógnvænlegar verur geta beðið handan við hverja beygju eða bak við næsta tré.
Úthlutun: 50.000 kr.

Ásgeir Þórhallsson
Siggi Sokkur, heimildarmynd um gæsarunga.
Heimildarmynd um gæsarunga sem höfundur ól upp og kenndi að fljúga.
Úthlutun: 200.000 kr.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga
Sópurinn - Vísnasafn Austfirðinga

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er að finna mikið af handritum með kveðskap af ýmsu tagi, bæði með hendi höfunda sjálfra en líka handrit þar sem fólk safnaði saman vísum og kvæðum úr ýmsum áttum. Með nýjum vísnavef sem ber nafnið Sópurinn-Vísnasafn Austfirðinga, er markmiðið að gera þennan kveðskap aðgengilegan á vefnum og gera þennan mikilvæga og alþýðlega menningararf sýnilegan nýjum kynslóðum og áhugafólki um land allt.
Úthlutun: 250.000 kr.

Monika Frycova
Listahátíð í Reykjavík á Seyðisfirði / KIOSK 108

Viðburðir í KIOSK 108 á Seyðisfirði í tengslum við Listahátíð í Reykjavík 2024. Sýningarstjóri var Monika Frycova sem einnig tók þátt í flutningi ásamt íslensku og erlendu listafólki.
Úthlutun: 200.000 kr.

Skaftfell
Celebrating Geirihús

Skaftfell og Tækniminjasafn Austurlands hyggjast heiðra minningu listamannsins Ásgeirs Emilsson (Geira) með því að setja upp upplýsingaskilti við Geirahús á Seyðisfirði. Einnig verður komið upp nýjum stafrænum vettvangi þar sem gestir geta skoðað hvernig umhorfs er inni í húsinu.
Úthlutun: 200.000 kr.

Skaftfell
Prentsmiðjur
Í haust og vetur mun Skaftfell standa fyrir röð prentsmiðja í Prentverki Seyðisfjarðar þar sem boðið verður upp á allt frá opnum dögum fyrir almenning, námskeiðum fyrir lengra komna og smiðjum fyrir grunn- og framhaldsskóla.
Úthlutun: 200.000 kr.

Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda
Skjaldbakan á Seyðisfirði

Skjaldbakan er fræðslu- og barnastarf Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildamynda, sem stendur fyrir námskeiðum í heimildamyndagerð fyrir börn í efri bekkjum grunnskóla og tengir þrjá staði á landinu, Patreksfjörð, Seyðisfjörð og Reykjavík. Markmið verkefnisins er að gefa börnum rödd og farveg fyrir sköpun og tækifæri á að tengjast börnum í öðrum landshlutum með því að sjá heimildaverk eftir jafnaldra sína.
Úthlutun: 200.000 kr.

Egilsstaðakirkja
50 ára afmælistónleikar Egilsstaðakirkju og afmælisdagskrá um sr. Stefán Ólafsson og austfirska skáldaskólann
Í tilefni af 50 ára afmæli Egilsstaðakirkju voru haldnir veglegir afmælistónleikar í kirkjunni þar sem kórar og tónlistarfólk af Héraði kom fram og flutti fjölbreytta dagskrá. Einnig var haldin afmælisdagskrá í Vallaneskirkju þar sem fjallað var um sr. Stefán Ólafsson skáldprest í Vallanesi og austfirska skáldaskólann, í samstarfi við Gunnarsstofnun og Héraðsskjalasafnið. Í framhaldinu var Stefánsvaka á léttari nótum.
Úthlutun: 250.000 kr.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir
Ars Longa - Sumarsýning 2025

Undirbúningstímabil sýningarstjóra sumarsýningarinnar ARS LONGA 2025 í sýningarstjórn Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur og Becky Forsythe. ARS LONGA er sjálfstætt samtímalistasafn á Djúpavogi. Stofnendur eru myndlistarmennirnir Sigurður Guðmundsson og Þór Vigfússon sem stýra faglegu starfi í samvinnu við sitjandi stjórn
Úthlutun: 250.000 kr.

Minnum á menningarstefnu Múlaþings og að búið er að opna fyrir fyrri úthlutun 2025.

Mynd: Skaftfell
Tekið á námskeið í Risoprentun í Prentverki Seyðisfjarðar
Mynd: Skaftfell
Tekið á námskeið í Risoprentun í Prentverki Seyðisfjarðar
Getum við bætt efni þessarar síðu?