Þann 3. febrúar verða liðin 30 ár síðan Bókasafn Héraðsbúa opnaði í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Áður hafði það meðal annars verið til húsa í Valaskjálf, kjallara Búnaðarbankans við Fagradalsbraut, Menntaskólanum á Egilsstöðum og á Tjarnarbraut 19. Húsnæðisvanda safnsins lauk svo loks árið 1995 þegar það fékk inni í Safnahúsinu.
Til þess að fagna þessum áfanga verður skemmtileg dagskrá í safnahúsinu á afmælisdaginn, þann 3. febrúar frá klukkan 16:30 – 18:00. Boðið verður upp á:
- Lestrarstund fyrir yngri börnin klukkan 16:30, hægt að lita og teikna í framhaldinu.
- Skrímslaratleik fyrir börnin að lestri loknum.
- Kaffi og konfekt.
- Sýningu á nýjustu teikningum af næsta áfanga Safnahússins.
- Sýningu Héraðsskjalasafns Austfirðinga á gömlum myndum tengdum bókasafninu.
Öll sem koma á safnið þennan dag geta sett nafnið sitt í pott og verður bók í útdráttarverðlaun.
Alla vikuna verður sektarlaus vika. Hægt er að lesa frekar um viðburðinn á Facebook viðburðinum ,,Bókasafnið í Safnahúsinu í 30 ár“.
Kolbrún Erla Pétursdóttir forstöðumaður Bókasafns Héraðsbúa var spurð út í hlutverk og mikilvægi bókasafna í samfélaginu og það stóð ekki á svörum:
,, Bókasöfn gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu samfélagi. Söfnin eru að þróast í samfélagsmiðstöðvar þar sem öll eru velkomin á eigin forsendum og án þess að það kosti eða að til einhvers sé ætlast af þér.
Á tímum þar sem einmanaleiki er að verða faraldur gegna bókasöfnin stóru hlutverki við að draga úr einangrun fólks.
Bókasöfnin hafa menntunarlegt, menningarlegt og lýðræðislegt hlutverk, þau stuðla að jöfnuði og koma í veg fyrir að efnahagur eða aðrar aðstæður fólks komi í veg fyrir aðgang að upplýsingum og afþreyingu. Bókasöfn eru í eðli sínu hlutlaus og bjóða upp á efni sem endurspeglar fjölbreytt samfélag fólks.“
Íbúar og gestir sveitarfélagsins eru hvattir til að gera sér glaðan dag og líta við á bókasafninu þann 3. febrúar.