Matarsóun í brennidepli
Þema ársins er matarsóun undir slagorðinu: Það er óbragð af matarsóun! Sérstök áhersla er lögð á nýtingu afganga og eru fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir, skólar og almenningur hvött til þess að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn matarsóun með því að gefa afgöngum gaum.
Saman gegn sóun og Reykjavíkurborg hafa útbúið einfalt kynningarefni sem nýtist öllum þeim sem vilja taka þátt í Nýtnivikunni í ár. Kynningarefnið auk frekari upplýsinga um Nýtnivikuna má nálgast hér og á heimasíðu samangegnsoun.is.
Matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum. Lágmörkun matarsóunar er loftslagsmál, efnahagsmál og mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
Það eru ýmsar leiðir færar til að vekja athygli á matarsóun og nýtingu afganga. Sem dæmi geta vinnustaðir lagt sérstaka áherslu á að elda úr afgöngum, veitingastaðir geta hvatt viðskiptavini til að taka afganga með heim og heimili geta skipulagt innkaup vikunnar með afganga í huga eða farið í kaupstopp og nýtt það sem til er. Möguleikarnir eru endalausir!
Í Nýtnivikunni er hverskonar nýtni í hávegum höfð og eru öll hvött til að leggja sitt af mörkum til að skapa hringrásarhagkerfi í samfélaginu. Sem dæmi er hægt að halda viðgerðarkaffi, skiptimarkaði, fyrirlestra, kynna nýjar lausnir eða hvað eina sem styður við minni sóun, sama af hvaða tagi hún er.
Öll sem taka þátt í Nýtnivikunni í ár af einhverju tagi eru hvött til að deila því á samfélagsmiðlum og koma því á framfæri við Saman gegn sóun.