Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Múlaþingi og Vopnafirði var haldin í Egilsstaðakirkju þriðjudaginn 25. mars. Tíu nemendur úr fimm skólum tóku þátt og kepptu þeir í þremur umferðum með áheyrilegum og vönduðum upplestri.
Stóra upplestrarkeppnin hefur verið haldin á Austurlandi í yfir tvo áratugi, en verkefnið hófst árið 2004 sem þróunarverkefni og þá í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.
Í fyrstu umferð lásu keppendur texta úr bókinni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson. Í annarri umferð völdu þeir ljóð úr bókinni Allt fram streymir, sem fjallar um íslenska náttúru. Í þriðju og lokaumferð lásu þeir ljóð að eigin vali eftir ýmsa höfunda.
Hátíðin var glæsileg og vel heppnuð. Nemendur úr Tónlistarskólanum í Fellabæ og Tónlistarskólanum í Brúarási glöddu gesti með tónlistarflutningi, bæði í upphafi hátíðar og á meðan dómarar réðu ráðum sínum.
Keppendur stóðu sig með prýði og voru skóla sínum til mikils sóma. Allir þátttakendur fengu viðurkenningu fyrir þátttökuna ásamt bókagjöf og rós. Sigurvegararnir hlutu gjafabréf frá Íslandsbanka.
Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar 2025:
- 1. sæti: Bjarni Jóhann Björgvinsson, Egilsstaðaskóla
- 2. sæti: Snærós Arna Daðadóttir, Brúarásskóla
- 3. sæti: Styrmir Vigfús Guðmundsson, Egilsstaðaskóla
Sigurvegurunum og skólum þeirra er óskað innilega til hamingju og öllum keppendum þakkað fyrir fallegan og vandaðan lestur!
Þakkir eru einnig færðar öllum upplesurum, tónlistarflytjendum, kennurum og foreldrum fyrir frábæran undirbúning, sem skilaði sér í vönduðum og áhrifaríkum flutningi.