Fara í efni

Stefna um þjónustustig í byggðum Múlaþings samþykkt

28.01.2025 Fréttir

Þann 15. janúar síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Múlaþings stefnu um þjónustustig í byggðum Múlaþings á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og Seyðisfirði. Í þessari fyrstu stefnu um þjónustustig í byggðum Múlaþings er athyglinni beint að byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum, þ.e. á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði. Þannig voru við undirbúning hennar haldnir íbúafundir á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og Seyðisfirði. Heimastjórnum Múlaþings var í kjölfar íbúafundanna gefinn kostur á að gefa umsagnir eða gera athugasemdir við stefnudrögin en byggðaráð, fjölskylduráð og umhverfis- og framkvæmdaráð fengu hana síðan til frekari úrvinnslu.

Þrátt fyrir að áherslan hafi að þessu sinni verið lögð á Borgarfjörð, Djúpavog og Seyðisfjörð við vinnslu stefnunnar er engu að síður fyrirkomulagi þjónustunnar lýst í stuttu máli í öllum byggðarkjörnunum fjórum. Það er þá meðal annars gert af því að þjónusta sveitarfélagsins er í mörgum tilfellum veitt á eða frá skrifstofunni á Egilsstöðum en einnig til að gera samanburð á þjónustunni, milli kjarnanna, auðveldari. Gert er ráð fyrir að stefnan um þjónustustig Múlaþings sé tekin upp árlega.

Stefnan var unnin í samræmi við 130. grein sveitarstjórnarlaga, þar sem kveðið er á um að sveitarstjórnir skuli samhliða fjárhagsáætlun móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum viðkomandi sveitarfélags. Í greinargerð með frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, frá 151. löggjafarþingi (2020-2021), er vísað til þess að með fækkun sveitarfélaga hafi orðið til víðáttumikil sveitarfélög með „fáum og stórum byggðarkjörnum en viðkvæmari byggð á öðrum svæðum“ innan sveitarfélaga og er stefnu sveitarfélaga um þjónustustig meðal annars ætlað að taka á því.

Stefna um þjónustustig í byggðum Múlaþings samþykkt
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd