Fara í efni

Söfnun á heyrúlluplasti í dreifbýli

30.11.2024 Fréttir

Á næstu dögum hefst söfnun á heyrúlluplasti í dreifbýli Múlaþings. Þjónustan er bændum að kostnaðarlausu en þeir eru hvattir til að skrá tengiliðaupplýsingar hjá sveitarfélaginu.

Söfnunin hefst í dreifbýli við Djúpavog föstudaginn 6. desember og á Fljótsdalshéraði og í dreifbýli við Seyðisfjörð í vikunni 9. – 13. desember. Dagssetningarnar eru til viðmiðunar því veður getur sett strik í reikninginn. Íbúar í dreifbýli sem vilja nýta sér þessa þjónustu eru hvattir til að skrá tengiliðaupplýsingar hjá verkefnastjóra umhverfismála. Upplýsingarnar verða nýttar til að senda tilkynningar um fyrirhugaðar safnanir í framtíðinni svo sem til áminningar eða ef tafir verða á hirðu.

Senda þarf nafn tengiliðs, símanúmer, netfang (ef annað en það sem er sent úr) og heimilisfang / bæjarnafn og svæði á netfangið umhverfisfulltrui@mulathing.is eða hafa samband í síma 470 0732. Einnig er velkomið að hafa samband fyrir frekari upplýsingar um söfnunina.

Íslenska Gámafélagið annast söfnunina og mun hafa samband við bændur áður en komið er heim á bæ. Söfnunin fer fram á sorphirðubíl og er mikilvægt að aðgengi sé gott fyrir bílinn. Sé um mikið magn af plasti að ræða er ætlast til að bændur aðstoði við að koma efninu í bílinn.

Það er mikilvægt að bændur hugi að umgengni við heyrúlluplast en það skal vera laust við aðskotahluti svo sem hey og önnur óhreinindi, baggabönd og net. Verktaka er heimilt að neita að hirða heyrúlluplast sem fullnægir ekki þessum skilyrðum.

Gott er að venja sig á að hrista hey og önnur óhreinindi úr plastinu áður en gengið er frá því á góðan og aðgengilegan stað. Óhreint plast, net og bönd henta ekki til endurvinnslu og enda því með blönduðum úrgangi í urðun. Það er því mikilvægt að vanda til verka við frágang á heyrúlluplasti til að hámarka endurvinnslu og lágmarka urðun.

Hér má finna leiðbeiningar um hvernig best sé að ganga frá heyrúlluplasti á einfaldan hátt.

Söfnun á heyrúlluplasti í dreifbýli
Getum við bætt efni þessarar síðu?