Fara í efni

Söfn í Múlaþingi hljóta styrki úr safnasjóði

24.02.2025 Fréttir

Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum hlutu styrki til margvíslegra verkefna í aðal- og aukaúthlutunum safnasjóðs sem tilkynnt var um nýverið.

Fyrst ber að nefna að Tækniminjasafn Austurlands hlaut 10,5 milljóna króna öndvegisstyrk í aðalúthlutun safnasjóðs til hönnunar, uppsetningar og efniskaupa fyrir nýja grunnsýningu. Styrkurinn er til þriggja ára en grunnsýningin mun opna í endurbyggðu Angró árið 2027. Þá fékk Tækniminjasafnið einnig 1,5 milljóna króna verkefnastyrk til að fullnaðarskráningar á ritsímasafni þess.

Minjasafn Austurlands fékk 300 þúsund króna styrk úr aðalúthlutun safnasjóðs í verkefnið Safnið í leikskólana en það snýst um að fara með safnfræðslu safnsins í þá leikskóla í Múlaþingi sem eiga erfitt með að heimsækja safnið vegna fjarlægðar frá því. Áður höfðu bæði söfnin fengið sinn 300 þúsund króna styrkinn hvort til að sækja Farskóla FÍSOS á Selfossi næsta haust úr aukaúthlutun safnasjóðs sem fram fór undir lok síðasta árs. Þá fékk Minjasafn Austurlands einnig 600 þúsund krónur til að standa fyrir námskeiði um björgun safngripa í samstarfi við Félag norrænna forvarða á Íslandi og Tækniminjasafn Austurlands fékk 300 þúsund krónur til að byggja upp stafræna miðlun í Geirahúsi.

Hlutverk og tilgangur safnasjóðs er að efla starfsemi safna hér á landi og í hann geta viðurkennd söfn sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr sjóðnum að fengnum tillögum safnaráðs.

Fulltrúar safna sem fengu öndvegisstyrk í aðalúthlutun safnasjóðs sem fram fór í Þjóðminjasafni Ísla…
Fulltrúar safna sem fengu öndvegisstyrk í aðalúthlutun safnasjóðs sem fram fór í Þjóðminjasafni Íslands á dögunum. Mynd: Safnaráð / Sunna Ben.
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd