Um þessar mundir fagna Seyðfirðingar því að geislar sólarinnar ná loks í bæinn eftir að hafa án hennar verið í fjóra mánuði. Gömul hefð er fyrir því að miða við 18. febrúar en sólin nær ekki um allan bæinn fyrr en þann 21. febrúar.
Sólarkaffinu fagna íbúar flestir heima hjá sér eða koma saman í kaffi og njóta þess að fá sólargeislana loksins aftur inn um gluggana. Við tilefnið baka krakkar í efstu bekkjum grunnskóla og foreldrar þeirra pönnukökur og selja til einstaklinga og fyrirtækja. Salan nú í ár gekk svo vel að þrátt fyrir að 700 pönnukökur hafi verið bakaðar þá fengu færri en vildu. Ágóði sölunnar er svo nýttur í skólaferðalag fyrir krakkana.
Þá er einnig hefð fyrir því að Lions selji sólarkaffi í Kjörbúðinni og safni þannig í sjóð sem rennur til góðgerðamála.
Brottfluttir Seyðfirðingar fagna einnig og gera það næsta sunnudag í íþróttahúsi Fylkis klukkan 14:00. Þar verður hægt að kaupa veitingar, taka þátt í happdrætti og hlýða á ræðu og tónlistaratriði.