Aðgengi á Íslandi er oft mjög takmarkandi fyrir hreyfihamlaða.
Því er mikilvægt að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. Ramparnir geta verið jafn misjafnir og þeir eru margir — og þeir eiga svo sannarlega að vera margir. Oft þarf ekki annað en að leysa aðgengi upp eina tröppu eða yfir háan þröskuld með einföldum hætti.
Nú þegar hafa rúmlega 300 rampar verið reistir fyrir tilstilli átaksins. Í nóvember 2022 fékk átakið innspýtingu þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti, greip fram í í miðri ræðu Haraldar Þorleifssonar, hönnuðar og upphafsmanns verkefnisins, þegar Haraldur var í þann mund að tilkynna að markmiðið væri að reisa 1000 rampa á 4 árum. Bætti þá Guðni heldur betur í og lagði til að ramparnir yrðu 1500 um land allt á næstu 4 árum.
Múlaþing tekur að sjálfsögðu þátt í verkefninu en til stendur að reisa 15 rampa hjá fyrirtækjum í einkaeigu. Verslanir, veitingastaðir, ferðaþjónustu- og þjónustuaðilar eru því hvattir eindregið til að sækja um ramp, þeim að kostnaðarlausu, inn á rampur.is og tryggja gott aðgengi fyrir öll.
Á komandi vikum mun fulltrúi Rampa og Múlaþings fara í vettvangsferðir um sveitarfélagið og heimsækja fyrirtæki sem gætu komið til greina.
Stefnt er á að hefja aðgerðir með vorinu og vonir bundnar um að ná sem flestum römpum upp í sumar.
SS