Fara í efni

Rithöfundalestin leggur af stað

20.11.2024 Fréttir

Rithöfundalestin á Austurlandi leggur af stað í sína árlegu ferð um fjórðunginn á fimmtudag. Lestin stoppar á fimm stöðum, þar af þremur í Múlaþingi.

Í hartnær 30 ár hafa austfirskir bókaunnendur getað treyst á heimsókn rithöfunda og skálda í skammdeginu þegar hin svokallað Rithöfundalest leggur leið sína um fjórðunginn. Upphaf verkefnisins má rekja til samstarfs Vopnfirðinga og Seyðfirðinga en það hefur síðan undið upp á sig með árunum og nær nú til Héraðs, Norðfjarðar og Djúpavogs og gengur undir heitinu Rithöfundalestin á Austurlandi. Á síðustu árum hefur þátttaka austfirskra höfunda í lestinni vaxið enda eitt af markmiðum hennar að stofna til kynna milli höfunda af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarskálda.

Í ár stíga fjórir höfundar um borð í lestina sem brunar um frá fimmtudegi til sunnudags, 21. - 24. nóvember. Brynja Hjálmsdóttir verðlaunaskáld mætir með sína fyrstu skáldsögu, Friðsemd. Bókmenntaverðlaunahafi Norðurlandaráðs Rán Flygenring mun kynna sína nýjustu bók, Tjörnina en einnig bókina Álfa sem kom út í fyrra. Jón Knútur Ásmundsson ljóðskáld frá Norðfirði fékk viðurkenningar fyrir ljóð í samkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör snemma á þessu ári og les úr nýrri ljóðabók sem ber heitið Slög. Fjórða hjólið undir lestinni er austfirski fræðimaðurinn og nýdoktorinn Hrafnkell Lárusson sem fjallar um Lýðræði í mótun, bók sem segir meðal annars frá austfirsku samfélagi kringum aldamótin 1900.

Upplestarsamkomur verða á fimm stöðum, þar af þremur í Múlaþingi: Á Kaffihúsi 690 í Kaupvangi Vopnafirði á fimmtudagskvöld klukkan 20, í Tónspili í Neskaupstað á föstudagskvöld klukkan 20,
í Löngubúð á Djúpavogi klukkan 14 á laugardag og þá um kvöldið í Skaftfelli á Seyðisfirði klukkan 20. Lestarferðinni lýkur síðan með viðburði á Skriðuklaustri í Fljótsdal klukkan 13:30 á sunnudeginum þar sem fleiri austfirskar bækur verða kynntar og verður streymt frá honum. Þá mun Rán Flygenring bjóða upp á skapandi fjölskyldusmiðjur á fjórum stoppistöðum lestarinnar, á Vopnafirði á fimmtudag klukkan 18, í Bókasafni Héraðsbúa á föstudag klukkan 11, í Bókasafni Seyðisfjarðar sama dag klukkan 14 og í Löngubúð á Djúpavogi á laugardaginn klukkan 13.

Ókeypis er inn á alla viðburðina en Rithöfundalestin nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Austurlands og Samfélagssjóðs Alcoa, Síldarvinnslunnar og fleiri góðra fyrirtækja.
Að Rithöfundalestinni á Austurlandi 2024 standa, Gunnarsstofnun, Skaftfell, Menningarstofa Fjarðarbyggðar, Múlaþing og Vopnafjarðarhreppur.

Rithöfundalestin leggur af stað
Getum við bætt efni þessarar síðu?