Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Dagnýju Erlu Ómarsdóttur varðandi ráðningu í starf fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði sem hefur meðal annars það hlutverk að undirbúa fundi heimastjórnar. Um hlutastarf er að ræða en Dagný Erla mun einnig sinna áfram verkefnum á fjölskyldusviði Múlaþings í hlutastarfi. Dagný starfar sem verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála hjá Múlaþingi, hún hefur starfað sem kennari við Seyðisfjarðarskóla og var aðstoðarskólastjóri frá árinu 2021 til 2022. Hún gegndi starfi atvinnu- menningar- og íþróttafulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar frá árinu 2017 til 2019.
Starfandi fulltrúi sveitarstjóra á Seyðisfirði, Aðalheiður Borgþórsdóttir, sem sinnt hefur því starfi í hlutastarfi á móti hlutastarfi sem atvinnu- og menningarmálastjóri Múlaþings mun frá og með næstu áramótum sinna starfi atvinnu- og menningarmálastjóra Múlaþings í fullu starfi.
Aðalheiður gegndi stöðu bæjar- og hafnarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar frá árinu 2018 til 2020. Þá hefur hún starfað sem markaðsstjóri Seyðisfjarðarhafnar og framkvæmdastjóri LungA hátíðarinnar.