Í dag er fyrsti dagur nýs sveitarstjóra hjá Múlaþingi. Dagmar Ýr Stefánsdóttir hóf störf í dag og sagði við tilefnið:
"Ég er afar spennt að taka við nýju starfi sem sveitastjóri Múlaþings og um leið ákaflega þakklát fráfarandi sveitastjóra sem ætlar að gefa sér góðan tíma með mér áður en hann lætur endanlega af störfum. Ég finn það bara strax á fyrsta degi að það eru fjölmörg mál sem ég þarf að setja mig inn í og ýmislegt nýtt sem þarf að læra til dæmis á áður óþekkt tölvukerfi. Þannig að ég mun taka fagnandi öllum góðum leiðbeiningum frá reynsluboltunum á sveitastjórnarskrifstofunni. Ég mun leggja áherslu á það fyrstu dagana í starfi, samhliða hinum ýmsu fundum, að fara í alla byggðakjarnana í Múlaþingi til að hitta starfsfólk sveitarfélagsins og eins langar mig að gefa mér tíma í að heimsækja stofnanirnar okkar og heyra hvað helst brennur á fólki. En þessi yfirreið mun auðvitað taka einhvern tíma og fólki er velkomið að senda mér skilaboð eða póst ef það er farið að lengja eftir heimsókn frá mér á þeirra vinnustaði. Umfram allt þá hlakka ég til komandi samstarfs með ykkur öllum og þakka kærlega móttökurnar sem ég hef fengið fram að þessu."
Fráfarandi sveitarstjóri, Björn Ingimarsson, mun vera Dagmar innan handar út mars og leiða hana inn í kerfin, málin og annað sem tengist starfinu.
Dagmar er boðin velkomin til starfa hjá sveitarfélaginu og á sama tíma er Birni þakkað fyrir góð störf undanfarin 15 ár.