Fara í efni

Menningarstefna Múlaþings orðin að veruleika

03.02.2025 Fréttir

Undir lok síðasta árs gaf Múlaþing út metnaðarfulla menningarstefnu sem gildir fyrir árin 2024 - 2030. Markmiðið hennar er að styðja enn frekar við menningu, listir og skapandi greinar í sveitarfélaginu svo þær megi áfram vaxa og dafna.

Stefnan var unnin á árunum 2023 og 2024. Umsjón með gerð hennar var í höndum Aðalheiðar Borgþórsdóttur og með henni unnu Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir og Jónína Brá Árnadóttir. Við vinnslu stefnunnar var meðal annars horft til sambærilegra stefna annarra sveitarfélaga, Sóknaráætlunar Austurlands, Svæðisskipulags Austurlands og Heimsmarkmiða og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá var forstöðufólk safna og menningarstofnanna í sveitarfélaginu kallað að borðinu sem og starfandi listafólk og áhugafólk um málaflokkinn.

Aðspurð um þýðingu slíkrar stefnu fyrir svæðið sagði Aðalheiður Borgþórsdóttir: „Stefnunni er ætlað að efla vitund og þekkingu meðal íbúa og sveitarstjórnarfólks á mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir sveitarfélagið, styðja við þá starfsemi sem nú þegar er fyrir hendi og hvetja til nýsköpunar í greininni. Fyrrverandi ráðherra menningarmála, Lilja Alfreðsdóttir gaf nýverið út afar áhugaverða skýrslu um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi. Þar er bent á að hér sé um mikilvæga atvinnugrein að ræða og að hver króna sem sett er í menningu og skapandi greina skili þremur krónum til baka í hagkerfið. Menningarstefna Múlaþings sýnir svo ekki verður um villst að hlúð er vel að þessari starfsemi í sveitarfélaginu. Ég geri mér vonir um að fólk verði duglegt að kynna sér hana og koma með ábendingar. Ég vona að hún breyti hugarfari og verði hvatning fyrir þau sem telja menningu og listir vera óþarfa og eigi að mæta afgangi þegar kemur að fjárframlögum til uppbyggingar og nýsköpunar.“

En það er ekki nóg að vera með skýra stefnu, henni þarf að fylgja eftir. Með stefnunni fylgir því ítarleg aðgerðaráætlun þar sem farið er yfir hvernig unnið skal að því að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnunni. Aðgerðaráætlunin verður endurskoðuð reglulega út frá fjármunum og annarri íhlutun sveitarfélagsins eða ríkisins.

Þar sem listafólkið í sveitarfélaginu kemur víða að var ákveðið að þýða stefnuna og aðgerðaráætlunina einnig yfir á ensku. Með því er vonast til að hún nái til sem flestra hagaðila.

Í lok árs fóru Aðalheiður Borgþórsdóttir atvinnu- og menningarstjóri og Elsa Guðný Björgvinsdóttir verkefnastjóri menningarmála í alla kjarna sveitarfélagsins og kynntu stefnuna á opnum fundum. Fundirnir voru vel sóttir og þar sköpuðust góðar umræður um menningarmál í sveitarfélaginu.

Mynd: Austurbrú og BRAS
Mynd: Austurbrú og BRAS
Getum við bætt efni þessarar síðu?
Valmynd