Í byrjun síðasta árs var óskað eftir tillögum frá íbúum sveitarfélagsins að samfélagsverkefnum. Til slíkra verkefna teljast hugmyndir sem bæta samfélagið í sveitarfélaginu eins og til dæmis uppsetning leik- eða æfingatækja, stígagerð, uppsetning skilta og svo mætti lengi telja.
Árið 2024 bárust margar tillögur, stórar sem smáar, og íbúar eru greinilega brunnur upplýsinga um það hvernig megi lyfta upp sveitarfélaginu.
Heildarfjármagn í verkefnin var 10 milljónir sem skiptist þannig að Fljótsdalshérað fékk fjórar milljónir og Borgarfjörður, Seyðisfjörður og Djúpivogur fengur tvær milljónir hvert. Heimastjórn hvers kjarna var svo falið að velja hvaða verkefni hlutu brautargengi.
Á Borgarfirði var fjármagnið nýtt til að ljúka uppsetningu á rólu á Vinaminnisplaninu, en hún hafði verið valin sem samfélagsverkefni árið áður. Þá fær leiksvæði við grunn- og leikskólann andlitslyftingu með kaupum á nýrri rólu sem verður sett upp í vor.
Á Djúpavogi var fjármagnið sett í áframhaldandi uppbyggingu á íþrótta- og útisvistarsvæðinu í Blánni, þar sem var sett upp aparóla.
Á Fljótsdalshéraði var ráðist í verkefni af ýmsum toga; rennibraut var komið fyrir á leiksvæðinu við enda Mánatraðar, hafist var handa við að útbúa keppnisvöll fyrir frisbígolf í Selskógi á vegum Þristarins ungmennafélags og litlum fótboltavelli var komið fyrir við enda Skógarsels.
Á Seyðisfirði voru fest kaup á drykkjarstöð við leiksvæðið og stigvél (e. air walker) fyrir hreystilundinnn við hlið gamla grunnskólans. Drykkjarstöðin og stigvélin verða settar upp þegar frost fer úr jörðu og geta þá íbúar og gestir notið þessarar frábæru viðbótar.
Það er mikilvægt að fá hugmyndir frá íbúum sveitarfélagsins þegar kemur að svona verkefnum enda eru það þeir sem nýta sér aðstöðuna. Með framkvæmd slíkra verkefna verður Múlaþing enn betri staður til að búa í.