Fara í efni

Ljósleiðaravæðing að hefjast

26.11.2024 Fréttir

Undirritaðir hafa verið samningar milli Múlaþings og annars vegar Austurljóss og hins vegar við Mílu um lagningu ljósleiðara í þéttbýlinu á Borgarfirði eystra, Djúpavogi og á Seyðisfirði.

Verkefnið snýr að því að klára að ljósleiðaravæða öll lögheimili í þéttbýli sveitarfélagsins fyrir lok ársins 2026. En líkt og fjallað hefur verið um áður í frétt um ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins þá styrkir Fjarskiptasjóður verkefnið og fær sveitarfélagið 80.000 króna styrk til þess að kosta jarðvinnu við að tengja hvert heimilisfang.

Þrátt fyrir að styrkurinn nái eingöngu til heimila þá munu Austurljós og Míla einnig leggja ljósleiðara að fyrirtækjum og stofnunum í þéttbýli sveitarfélagsins.

Koparkerfin á útleið

Gamla koparkerfið, sem tengt var í öll hús á síðustu öld, verður lagt niður von bráðar og tekur ljósleiðarinn við hlutverki hans. Það er því mikilvægt að tekið sé vel á móti framkvæmdaraðilum þegar þau mæta til að tengja ljósleiðarann inn á heimili sveitarfélagsins.

Hvort sem íbúar sjá fyrir sér að nýta kerfið eða ekki er mælst til þess að það sé tekið inn á heimilið þar sem að þessu sinni er það gert íbúum að kostnaðarlausu. Seinna meir gæti það reynst kostnaðarsamt og á ábyrgð íbúa sjálfra.

Samskipti við íbúa

Haft verður samband við íbúa þéttbýlis áður en farið er í vinnu við þeirra heimili, ýmist símleiðis eða með heimsókn. Þannig gefst íbúum tækifæri til að koma með ábendingar eða spyrja spurninga áður en ljósleiðarinn verður lagður í gegnum lóðir þeirra.

Hafi íbúar spurningar eða athugasemdir sem þau vilja koma á framfæri geta þau líka sent inn ábendingu á heimasíðu Austurljóss sem og Mílu, eftir því hvor aðilinn er að vinna í þeirra kjarna. Austurljós mun leggja ljósleiðarann á Djúpavogi og næsta hluta á Seyðisfirði og Míla mun sjá um Borgarfjörð eystri.

Fyrirkomulag

Þegar búið verður að hafa samband við íbúa hefst vinna við að leggja ljósleiðara að heimilum. Sú vinna á að byrja á næstu dögum en framkvæmdirnar eru þó háðar veðri og aðstæðum hverju sinni og gæti til að mynda mikið frost seinkað framkvæmdum.

Þegar búið er að leggja ljósleiðarann inn á heimilin geta íbúar svo sjálfir valið sér við hvaða fjarskiptafyrirtæki þau vilja vera í þjónustu við enda er ljósleiðarinn opinn öllum fjarskiptafyrirtækjum.

Íbúar þeirra kjarna sem verið er að leggja ljósleiðarann að eru beðnir að sýna þeirri vinnu og raski sem þessi vinna kann að hafa bæði skilning og umburðarlyndi. Þá skal ítrekað að íbúar eigi endilega að hafa samband við framkvæmdaraðila ef þau hafa einhverjar ábendingar eða athugasemdir um framkvæmdirnar. Spurningum má beina á sama stað.

Mynd: Austurljós
Mynd: Austurljós
Getum við bætt efni þessarar síðu?