Á sunnudaginn, fyrsta sunnudag í aðventu, verða ljós tendruð á jólatrjám á tveimur stöðum í Múlaþingi, annars vegar á Djúpavogi og hins vegar á Egilsstöðum.
Á Djúpavogi stendur jólatréð á Bjargstúni. Hefð er fyrir því að grunnskólanemi tendri ljósin og á því verður engin undantekning í ár. Dansað verður í kringum jólatréð og heyrst hefur að jólasveinar muni líta við með eitthvað í pokahorninu. Samkoman hefst klukkan 17:00, með fyrirvara um að veður setji ekki strik í reikninginn.
Ljósin á jólatrénu við Nettó á Egilsstöðum verða líka tendruð á sunnudaginn klukkan 17:00. Þar mun Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs leika jólalög og jólasveinar hafa boðað komu sína líkt og á Djúpavogi.